Saga Bý á Íslandi
Býflugur hafa verið ræktaðar samfellt á Íslandi frá árinu 1998 en með hléum frá árinu 1935
Bý var stofnað árið 2000 sem áhugamannafélag um býflugnarækt á Íslandi og heitir í raun Býflugnaræktendafélag Íslands. Stofnendur félagsins voru og eru miklir áhugamenn um býflugur, ræktun þeirra og þróun á Íslandi.
Stofnendur voru Gylfi Símonarson (látinn), Gestur Helgason (látinn), Egill Rafn Sigurgeirsson, Erlendur Garðarsson, Hafsteinn Erlendsson (látinn), Kristjana Þorgeirsdóttir, Olgeir Möller (látinn), Matthildur Leifsdóttir, Sigurgeir Sigurgeirsson, Guðmundur Rúnar Óskarsson og Tómas Óskar Guðjónsson.

Tilgangur Bý skv. lögum félagsins:
„Að sameina þá, sem stunda býflugnarækt á Íslandi, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni býflugnaræktar og afla henni stuðnings. Bý skal jafnframt vinna að framtíðarstefnumótun fyrir hönd félaga varðandi býflugnarækt á Íslandi og vera fulltrúi félaga út á við, hvort heldur er gagnvart, stofnunum, opinberum sem öðrum svo og gagnvart öðrum þeim aðilum sem málið kunna að varða“

Árið 2011 var ákveðið að stofna til fésbókarsíðu- Býfluga:D – til að auðvelda og efla samskipti um býflugur og ræktun þeirra, auk þess sem að félagsmenn töldu að áhugi á býflugnarækt gæti auðveldlega smitast áfram þegar reyndir býflugnaræktendur ræða um af áhuga og þannig gætu fleiri bæst í hópinn. Þar eru nú skráðir tæplega 1000 meðlimir svo ekki vantar áhugann hér á landi.
Eitt af megin hlutverki félagsins hefur verið að standa fyrir innflutningi á býflugum ár hvert. Býflugur eiga undir högg að sækja á heimsvísu vegna sníkjudýrs, sem er mítill og heitir Varroa, verið þar fremstur í flokki síðastliðin ár. Einnig er fyrirbæri sem kallað er CCD eða bráðadauði býflugnabús valdið miklum usla en ekki er að fullu vitað orsök þessa. Við hér á Íslandi höfum valið að flytja inn býflugur frá Álandseyjum þar sem þær eru eru algjörlega lausir við þennan mítil og er það nauðsynlegt að svo haldist áfram um ókomna tíð. Þessar kröfur setur MAST til að leyfi fáist fyrir innflutningi og þarf heilbrigðisvottorð frá Landbúnaðar Háskólanum í Finnlandi sem skoðar flugurnar/búin. Félagið hefur leitað annarra leiða til að útvega býflugur til innflutnings en ekki hafa enn fundist önnur ósýkt svæði sem geta selt okkur býflugur að þessum skilyrðum uppfylltum. Félagsmenn hafa farið 13 sinnum til Álandseyja frá 2010 – 2022, til að sækja býflugur, undir ströngu eftirliti yfirvalda.
Í dag (des ´23) eru virkir býræktendur (þ.e. með lifandi bú) á Íslandi 118 og af þeim hafa konur verið ríflega 50 % undanfarin ár. Haust 2023 voru vetruð 311 bú á vegum félagsmanna í Bý, einn eða fleiri standa utan félags en ekki er vitað hve mörg bú eru vetruð á þeim vígstöðvum.
Undanfarin 10 ár hafa milli 125 til 296 bú verið vetruð á hverju ári og hafa 50 til 83 % vetraðra búa lifað fram til 1 júní næsta árs.
Stjórn félagsins 2023
Stjórn félagsins samanstendur af þrem stjórnarmönnum og tveimur varamönnum
Í stjórn frá Aðalfundi 2023 eru: Egill Rafn Sigurgeirsson formaður (einn af stofnendum Bý, 2000), Valgerður Auðunsdóttir (félagi frá 2011) gjaldkeri, Herborg Pálsdóttirhafa ( félagi frá 2011) ritari og Þorsteinn Sigmundsson ( félagi frá 2002 ) og Theodór
Hertervig Línuson (félagi frá 2023) varamenn í stjórn. Stjórn er skipuð til tveggja ára í senn á aðalfundi sem haldinn er í apríl ár hvert. Kosið er sérstaklega í formannsembættið en aðrir í stjórn skipta með sér verkum. Egill sem má telja upphafsmann Býflugnaræktunar á Íslandi hefur verið formaður félagsins frá stofnun þess.
Í félaginu eru nú skráðir um 150 félagsmenn. Félagsmenn hafa verið hvattir til að stofna faghópa inna félagsins um málefni sem brenna á félagsmönnum eins og til dæmis fjölgun búa í landinu, ræktun drottninga, landshlutafélag og fræðslumál, en sá hópur hefur verið starfandi um skeið, gert leiðbeiningar, bækling, haldið kynningar og sinnt fræðslu bæði fyrir félagsmenn og aðra sem hafa óskað eftir því, auk þess að taka á móti erlendum gestum og kynnt býrækt hér á landi. Þetta er allt gert af miklum áhuga og í nafni félagsins.
Fræðslunefnd:
Skipa Úlfur Óskarsson og Ásta Lilja Stefánsdóttir sem komu ný inn 2022 en fyrir situr Erla Björg Arnardóttir.
Lög Bý
Lög Býflugnaræktendafélags Íslands
1. gr.
1.1
Félagið skal heita Býflugnaræktendafélag Íslands, skammstafað Bý.
1.2
Tilgangur Bý er að sameina þá, sem stunda býflugnarækt á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra.
Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni býflugnaræktar og afla henni stuðnings.
Bý skal jafnframt vinna að framtíðarstefnumótun fyrir hönd félaga varðandi býflugnarækt á Íslandi og vera fulltrúi félaga út á við, hvort heldur er gagnvart, stofnunum, opinberum sem öðrum svo og gagnvart öðrum þeim aðilum sem málið kunna að varða.
1.3
Rétt til aðildar að Bý hafa þeir sem:
a) ástunda býflugnarækt
b) hafa ástundað býflugnarækt einhvern tíma á síðustu fimm árum.
c) sótt hafa námskeið um býflugnarækt
d) meirihluti aðalfundar samþykkir
e) sem eru stofnfélagar Bý
1.4
Býflugnaræktendur eru þeir sem halda býflugnabú og uppfylla skilyrði liðar 1.6 hér að
neðan.
Ef bú eru haldin sameiginlega af fleiri en einum aðila en allir uppfylla skilyrði 1.6, geta þeir hinir sömu verið réttgildir félagar með fullan atkvæðisrétt ef þeir hafa greitt félagsgjöld, annars skal einn fulltrúi þeirra vera skráður í félagið með eitt atkvæði á aðalfundi.
1.5
Bý ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en ekki einstakir félagar.
1.6
Rétt til að kaupa býflugur (býpakka, afleggjara ) í gegnum félagið hafa einungis þeir sem eru samþykktir félagar í Bý og hafa:
a) sótt býræktarnámskeið á vegum BÝ eða sambærilegt námskeið sem hæfnisnefnd BÝ samþykkir, eða
b) ástundað býrækt samfleytt í 5 ár eða lengur og standast mat hæfnisnefndar BÝ.
2. gr.
2.1
Aðalfund skal halda árlega í apríl og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum Bý .
2.2
Aðalfund sitja með fullum réttindum félagar Bý sem greitt hafa félagsgjöld fyrir aðalfund. Þeir nýir félagar sem samþykktir eru á aðalfundi skulu ganga frá félagsgjöldum sínum við gjaldkera félagsins fyrir kosningu stjórnar.
2.3
Á dagskrá aðalfundar skal vera:
a) kosning fundarstjóra og ritara
b) skýrslur stjórnar og nefnda um félagsstarfið og umræður um þær
c) endurskoðaðir reikningar síðasta árs séu bornir upp til samþykktar
d) tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu
e) samþykkt nýrra félaga og staðfesting félagaskrár
f) kosningar
I Kjör formanns til tveggja ára.
II Kjör tveggja meðstjórnenda og tveggja varamanna til tveggja ára.
III Kjör tveggja skoðunarmanna fyrir reikninga Bý
IV Kjör til annara þinga eða nefnda sem snerta gætu starfsemi Bý svo sem t.d. Búnaðarþings.
g) fjárhagsáætlun næsta árs
h) tillaga að félagsgjaldi
i) önnur mál
Aðalfund skal boða á sannanlegan hátt með a.m.k. 14 daga fyrirvara til félaga.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
3. gr.
Aukafund skal halda þyki stjórn Bý sérstök nauðsyn bera til og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar eftir því skriflega enda sé fundarefni tilgreint. Aukafund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara.
Um rétt til fundarsetu á aukafundum gilda sömu reglur og á aðalfundi.
4. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð þremur félagsmönnum, formanni og tveimur meðstjórnendum og öðrum tveimur til vara.
Stjórn er kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn.
Stjórnin skiptir með sér verkum.
Formaður félagsins er kosinn sérstaklega.
Tveir meðstjórnendur eru kjörnir og tveir til vara.
Þar sem kjörtímabil er tvö ár skal kjósa á víxl, þannig að formaður er kosinn annað árið og tveir meðstjórnendur og tveir varamenn hitt árið.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda.
Formaður boðar til funda.
Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
5. gr.
5.1
Hlutverk stjórnar er að annast málefni félagsins milli aðalfunda og framfylgja samþykktum aðalfundar.
Stjórnin ræður starfsfólk og veitir prókúru fyrir félagið.
5.2
Undirskrift tveggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.
6. gr.
6.1
Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef einhver stjórnarmanna óskar þess enda sé þá fundarefnið tilgreint.
Kalla skal til varamann ef stjórnarmaður boðar forföll.
Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.
6.2
Stjórn Bý skal halda gerðabók og skal hver fundargerð staðfest með undirskrift þeirra stjórnarmanna sem fundinn sitja.
Fundargerðir stjórnarfunda skulu liggja frammi á aðalfundi félagsins og heimilt er að
birta fundargerðir á heimasíðu félagsins, skal sú ákvörðun tekin af stjórn hverju sinni.
7. gr.
Gerist félagsmaður sekur um að vinna gegn hagsmunum félagsins og/eða býflugnaræktar á Íslandi getur meirihluti aðalfundar vísað honum úr félaginu.
Minnst þarf 60% atkvæða á aðalfundi til að vísa félagsmanni úr félaginu.
Aðildarfélagi sem vísað hefur verið úr félaginu á ekki rétt á eignum, aðföngum né nokkru öðru því sem Bý á eða hefur umráð yfir, með umsókn til félagsins samþykkir hann samþykktir Bý og þar á meðal 7. gr.
8. gr.
Samþykktum þessum og lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi.
Tillögur að lagabreytingum skulu hafa borist stjórn Bý fyrir 15 mars. Stjórn Bý ber að senda tillögur um lagabreytingar með aðalfundarboði.
Ná þær aðeins fram að ganga að meirihluti félaga á aðalfundi greiði þeim atkvæði sitt.
9. gr.
Leggist starfsemi Bý niður og félaginu er slitið skulu eigur þess ganga til félaga að jöfnu.
Lög Bý samþykkt á aðalfundi 2022