Býflugur hafa verið ræktaðar samfellt á Íslandi frá árinu 1998 en með hléum frá árinu 1935.
BÝ var stofnað árið 2000 sem áhugamannafélag um býflugnarækt á Íslandi. Stofnendur félagsins voru og eru miklir áhugamenn um býflugur, ræktun þeirra og þróun á Íslandi.
Stofnendur voru Gylfi Símonarson ( látinn ), Gestur Helgason ( látinn ), Egill Rafn Sigurgeirsson, Erlendur Garðarsson, Hafsteinn Erlendsson ( látinn ), Kristjana Þorgeirsdóttir, Olgeir Möller ( látinn ), Matthildur Leifsdóttir, Sigurgeir Sigurgeirsson, Guðmundur Rúnar Óskarsson og Tómas Óskar Guðjónsson.
Tilgangur Bý skv. lögum félagsins:
„Að sameina þá, sem stunda býflugnarækt á Íslandi, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni býflugnaræktar og afla henni stuðnings. Bý skal jafnframt vinna að framtíðarstefnumótun fyrir hönd félaga varðandi býflugnarækt á Íslandi og vera fulltrúi félaga út á við, hvort heldur er gagnvart, stofnunum, opinberum sem öðrum svo og gagnvart öðrum þeim aðilum sem málið kunna að varða“
Árið 2011 var ákveðið að stofna til fésbókarsíðu- Býfluga:D – til að auðvelda og efla samskipti um býflugur og ræktun þeirra, auk þess sem að félagsmenn töldu að áhugi á býflugnarækt gæti auðveldlega smitast áfram þegar reyndir býflugnaræktendur ræða um af áhuga og þannig gætu fleiri bæst í hópinn. Þar eru nú skráðir 860 meðlimir svo ekki vantar áhugann hér á landi.
Eitt af hlutverki félagsins hefur verið að standa fyrir innflutningi á býflugum ár hvert. Býflugur eiga undir högg að sækja og hefur sníkjudýr, sem er mítill og heitir varroa, verið þar fremstur í flokki síðastliðin ár. Við hér á Íslandi höfum valið að flytja inn býflugur frá Álandseyjum þar sem þær eru eru algjörlega lausir við þennan mítil og er það nauðsynlegt að svo haldist áfram um ókomna tíð. Þessar kröfur setur MAST til að leyfi fáist fyrir innflutningi og þarf heilbrigðisvottorð frá viðurkenndri stofnun í Finnlandi sem skoðar flugurnar/búin. Félagið hefur leitað annarra leiða til að útvega býflugur til innflutnings en ekki hafa enn fundist önnur ósýkt svæði sem geta selt okkur býflugur að þessum skilyrðum uppfylltum. Félagsmenn hafa farið 13 sinnum til Álandseyja frá 2010 – 2022, til að sækja býflugur, undir ströngu eftirliti yfirvalda.
Í dag eru virkir býræktendur (þ.e. með lifandi bú) á Íslandi um 90 og af þeim eru um 53 % konur.
Undanfarin 10 ár hafa milli 125 til 296 bú verið vetruð á hverju ári og hafa 50 til 83 % vetraðra búa lifað fram til 1 júní undanfarin 10 ár.