VETRUN BÚA Á SELFOSSI.

Kæru félagar í Býræktinni. Var beðin um að setja saman „stutta“ grein um hvernig ég vetra búin. Mér er ljúft að verða við þeirri bón ef það væri nú einhverjum til upplýsingar og upplyftingar.

Býgarðurinn er staðsettur við Kirkjuveg á Selfossi í stuttu færi frá Miðbænum. Húsin við götuna eru byggð um 1950-1960 og eru flest hæð og ris. Töluverður gróður er hér í görðum aðallega aspir, reynitré og birki en einnig nú undanfarna áratugi sírenur, toppar og yllir. Auk þess ýmislegt annað sem þykir fallegt.

Á vorin gef ég frjódeig um leið og einhver hreyfing hefur orðið á flugunum (skituflug) og stundum hef ég líka gefið sykurdeig beint ofaná rammana með eða án pappírs/plasts. Nú í seinni tíð set ég sykur- og frjókornadeigið í vasa.

Heildarsykurgjöf hefur verið þetta frá 20-28 kg á bú og 4-6 kg af frjódeigi en fer eftir stærð búa auðvitað.

Mynd 1. Garðurinn minn er skjólgóður eins og sjá má af þessari mynd sem tekin er 2017 um há sumar.

Öll búin mín standa á brettum ca 50 cm frá jörðu, en ástæðan fyrir því er einungis hár aldur býræktandans😊

Yfir sumarið minnka ég loftun undir búin með plötu en tek hana í burtu almennt í byrjun október þegar ég geng frá búunum fyrir veturinn. Hef ekkert músarnet undir því hér í hverfinu eru kettir í tuga tali og hef því ekki áhyggjur af músum. Ég setti girðingu utan um búin því stundum missa börn nágranna bolta inn í garðinn og þá er gott ef girðing stoppar bolta og börn.

Mynd 2. Kötturinn situr gjarnan á búunum líklega gott útsýni þaðan og svo er ylur frá flugunum.

 

Mynd 3. Í upphafi býferilsins smíðaði ég kassa úr timbri sem voru ekki alveg rétt smíðaðir en nýttust samt ágætlega (of grunnir). Ég notaði krossvið í botninn sem bólgnaði í votviðri og þrengdi að flugu opinu.

Mynd 3 Hér sést líka að ég set smá flugpall fyrir framan opin svo þeim veitist auðveldara að lenda hlaðnar frjódufti.

Að hausti setti ég trétex- plötu efst, ½ cm kubba til loftunar og svo lokið á. Almennt hef ég vetrað á 3 kössum.

Mynd 4. Hér má sjá trétex-plötuna sem ég nota til loftunar yfir veturinn, ekkert gataplast á milli en lítið sem ekkert byggt upp í plötuna.Að vori 2016 var ótrúlega mikið af flugum á lífi sem sjá má af myndinni sem tekin er 6.apríl það vorið. Búið var þurrt og engin mygla. Þetta árið var hreinsunarflug í byrjun febrúar.

Mynd 5. trétex-platan og kubbarnir sjást ef vel er að gáð s


vo lofti undir lokið.

Mynd 6. Eins og ég sagði þá skipti ég um botn í byrjun apríl 2016 en fékk svo skyndilegt meðvirknikast seint í apríl (byrjandinn ég) og klæddi búið með tjörupappa þrátt fyrir að ég hefi fundið mikinn hita streyma út um fluguopið. Morguninn eftir kl. 7:30 voru dropar í opinu = mikill raki = léleg loftun. Tók pappann af!

Mynd 7. Að hausti vetraði ég tvö bú á trékössum og eitt á plastkössum. Vetrun var einföld eins og fyrra ár, þ.e. trétexplata og kubbar undir lokið.

Að vori höfðu trékassarnir verpst mikið svo ég skipti þeim út fyrir plastkassa en gríp í þá ef í harðbakka slær.

Mynd 8: Ég var með einfaldan hitamæli í öllum búunum í ágúst 2016 og fram í október. Set hér í gamni texta úr skýrslu af þeim mælingum:

“Hitastigsmælingar mínar leiða í ljós að meðalhiti í búi 1 eftir að ég skipti búinu upp og fram á haust var 25,7°C. Drottningin tók eina varplotu um miðjan okt. En í búi 2, 28,5°C og búi 3, 33,0°C. Gamla drottningin datt úr gírnum eftir hunangstekju og skiptingu búsins í tvígang. Sjálfalda drottningin verpti fram í lok sept og eina lotu tók hún um miðjan okt. Sú aðkeypta verpti stanslaust fram í miðjan okt. Og enn er mesti hiti í því búi 25.okt eða 28°C á meðan hiti í nr.1 er 24,3°C en í búi 2 er 16,6°C. Tók einn ungviðaramma 19.ágúst úr búi 3 og setti í nr.1 til að styrkja þá gömlu.”

Mynd 9. Í júní 2017 útbjó sonur minn tjörn í garðinum allt til þess gert að fá flugurnar til að láta heitapott nágrannans vera.

Mynd 10. Þeim dugði þó ekki tjörn svo nú þá splæsi ég á þær heitu sírennandi vatni í litla ofnskúffu og það gerði gæfu muninn.

Að hausti 2017 vetraði ég 4 bú eftir gott hunangsár. Gerði eins og áður, setti trétexplötur og smá loftun undir lokin en öll búin á plastkössum. Setti þó götóttu plastplötuna undir trétexið aldrei þessu vant.Skituflug var mun seinna 2018 en fyrri ár eða ekki fyrr en um 20.mars. Eitt búið dautt um vorið, líklega vegna smæðar.

Mynd 11 má sjá klasa af flugum allt steindautt. Drottning með gulum blett. Næg fæða en of fáar flugur.

Mynd 12. Var með vasa í búunum en þó ekki í efsta kassa. Í hann setti ég haustið áður frjódeig og sykurdeig en töluvert vatn var í vösunum um vorið sem hafði lekið á milli kassa og ofan í vasana í öllum rigningunum seinniparts vetrar og mikið af dauðum flugum þar ofaní einnig. Almennt var svo sumarið 2018 blautt og kalt og mygla gerði lífið ekki auðveldara.

Mynd 13. Var með 4 bú í ágúst lok 2018. En vetraði 3 með sömu aðferð og áður. Það bú sem ég missti um sumarið var einungis handvöm af minni hálfu. Reyndi að skipta út drottningu sem flugurnar höfnuðu. Þær náðu þó að ala upp nýja drottningu en hún náði ekki að frjóvgast fyrir veturinn vegna leiðinda rigninga kafla. Því var eina ráðið að sameina bú. Hér má nefna að græðgi hafi orðið búunum að falli. Ætlaði að fá hunang og fjölga búum líkt og sumarið áður en veður var afa óhagstætt sumarið 2018 en ég var alltaf að vona að úr rættist. Úr varð að ég svelti búin að vori, tók óþarfa áhættu og fóðraði ekki í rigningatíð. Fæð flugna var því orsök þess að 2019 lifði einungis eitt bú af þessum þrem fram á sumar. Þetta eina sem lifði missti ég um sumarið enn af klaufaskap við að gera drottningaskipti sem fóru í vaskinn. En ég átti sem betur fer pöntun á býpakka.

Mynd 14. Að hausti 2019 setti ég vasa í efsta kassa og þar í  frjódeig og sykurdeig. Setti enga gataplastplötu bara trétexplötu sem var í nokkrum bútum, loftunarkubba og lokið á. Klæddi þetta eina bú mitt svo með tjörupappa sem var óskaplega óþjáll að eiga við.

Flugurnar lifðu af veturinn en töluverður raki ofaná trétexplötunni. Fyrsti í skitu árið 2020 var seint í febrúar en svo ekki almennilegt flug fyrr en byrjun apríl. Engin mygla var í búinu og lítið um dauðar flugur í botni og nóg fóður. Keypti svo býpakka frá Álandseyjum og skipti gamla búinu upp en það var orðið of seint og í september afhausaði ég ófrjóa drottningu og sameinaði búið við það gamla aftur.

Mynd 15. Ég fékk ágæta uppskeru frá gamla búinu. Ég hef selt allt mitt hunang „beint frá býli“ þ.e. tími bara alls að setja það í búðir því ánægjan felst í að eiga í samskiptum við fólk sem hefur áhuga á býrækt og hunangsáti.

Mynd 16. Svo eru það yndislegu nágrannar mínir sem fá krukku af hunangi hvert sumar ef ég fæ einhverja uppskeru. Með hunanginu lýsi ég ánægju minni yfir hvað þau eru góðir grannar og hvað þau taka þessu áhugamáli mínu vel.

Þetta haust 2020 vetraði ég tvö bú og eins og áður með trétexplötu og klæddi búin í tjörupappa. Vasi settur í efsta kassa.

Mynd 17. Búin lifðu bæði og 13. apríl 2021 setti ég lengri flugpall fyrir framan búin og skipti um botn og setti hvítu plötuna í botninn.

Seldi annað búið um sumarið, fékk nýja drottningu frá Álandseyjum og ræktaði upp nýja drottningu en hún náði ekki að byrja varp og sameinaði bú seint um haustið.

Mynd 18. Að vori 2022 var sameinaða búið mjög lítið og mygla í því, sömu sögu var að segja af öðru búi en eitt af þessum þrem var fullt af flugum og lítil sem engin mygla þar.

Mynd 19. Skipti um kassa og tók myglaða ramma og fækkaði einnig kössum hjá þessum tveim sem verst voru farin.

Stóra búið var í því að gera drottningar og ég margskipti því en þrátt fyrir það komu úr því tveir sveimar sama daginn 20. júlí sem ég náði. Önnur af drottningunum frjóvgaðist og hóf varp 10. September en í hinu hóf þerna að verpa svo það var leyst upp.

Mynd 20. Nú í haust (2022) vetraði ég 5 bú, fjögur af þeim með fóðurvasa í efstakassa og smíðaði plötu (kalla hana V-plötu því verkfræðingur einn sagði þessa aðferð vera þá einu réttu fyrir býin) með opi í miðið á öll búin og gerði loftgat út að aftan. Lokið svo þar ofaná, enginn tjörupappír né trétexplata. Er að vonast til að þessi loftun geri þeim gott og ég þarf ekki að opna búið til að gefa þeim frjódeig í vor.

Mynd 21. Og svona kúra þau í febrúar 2023. Sjá má flugur fyrir framan og aftan búin sem segir mér að hreinsun sé í gangi úr öllum götum.

Það verður áhugavert að sjá lifun í voru og hvort þessi auka loftun hjálp til með að halda niðri myglu og vosbúð vegna raka.

Takk fyrir mig og vona að einhver hafi haft gaman af þessari yfirferð og mögulega gagn.

Svala Sigurgeirsdóttir skrifað mars 2023

Hafa samband