VETRUN BÝFLUGNA Í REYKHÚSUM - ANNA GUÐMUNDSDÓTTIR

    Vetrun fer fram úti. Býgarðurinn stendur í skógarrjóðri. Ríkjandi vindáttir sunnan eða norðan, aldrei vestan og mjög sjaldan austan. Þokkalegt skjól. Einu sinni hefur þó orðið það hvasst úr suðaustri að lok fauk af einu búinu og einangrunin ofan af. Búið stóð opið þannig í 2 daga en lifði af.

Búin standa ýmist á 2 brettum eða sérsmíðuðum búkka fyrir 2 bú með fráleggssvæði á milli búanna. Hæð á búkka 45 – 50 cm. með römmum sem búin standa á svo að opið á rammanum undir búunum er nánast það sama og netið í botni búanna. Músanet liggur ofan á opinu. Undir búunum sem standa á brettum er ekki músanet núna en var fyrsta veturinn.

Flugop er haft opið en hef lokað flugopum til hálfs í miklum umhleypingum. Botnplata tekin undan búunum fyrir veturinn og settir þunnir kubbar undir lokið til að lyfta því aðeins og tryggja góða loftun.

Búin eru vetruð á 2 – 3 kössum. Bú sem eru komin niður í 2 kassa set ég upp á kassa með tómum hunangsrömmum (sem búið er að slengja), þannig að það standa 3 kassar og þær geta dregið meiri sykur niður í hann.

Í haust vetraði ég afleggjara sem var á einum kassa en ég setti annan kassa undir og búið dró svo mikinn sykur niður að hann var nærri fullur af fóðri.

Til einangrunar nota ég hluta úr ullarreyfi (þvegið). Festi ramma neðst innan í kassann sem ég hefti lúsmýsnet á. Var fyrst með léreft undir ullinni en það kom fyrir að flugurnar nöguðu gat á það.

Myndin er af einangrunarkassa þar sem ég setti ullina í léreftspoka sem ég festi efst í kassann og setti eldhúsrúlluhólka í hornin. Ég er hætt að nota hólkana því að það loftar nóg í gegnum ullina.

Búin hef klætt að utan með einangrunarpappír. Hann er silfurlitur og endurkastar birtu og ég er með þá tilgátu að það komi fyrir að búin hitni eins mikið að utan þegar sólin fer að skína síðla vetrar og þannig seinki aðeins ótímabærri vöknun búsins.

Á haustin frá 15 – 29 kg af sykri en mun minna að vori, ca. 3 – 6 kg. Sykurmagn fer eftir því hversu miklu hvert bú tekur við. Sykurgjöf að hausti hefur hafist í síðustu viku ágúst.

Frjódeig frá 0,5 kg upp í 1,5 kg á bú á vori. Býð þeim frjódeig þegar kemur fram í ágúst og set svo 1 kg ofan á hvert bú fyrir veturinn. Þær hafa ekki alltaf klárað vetrarforðann.

Ég hef ekki enn  misst bú að vetri (4. veturinn núna) en er hrædd um að afleggjarann sem ég vetraði núna hafi ekki verið orðinn nógu stór en þær voru samt búnar að draga 24 kg af sykri í búið. Ég held að ástæða þess að fullburða bú drepast yfir veturinn geti verið að þær verða matarlausar og því mikilvægt að fylgjast vel með að flugurnar hafi nóg fóður þegar þær fara á kreik á vorin.

Hafa samband