Vorvinna

Samantekt Egill Rafn Sigurgeirsson endurbætur janúar 2025.

VORVINNA Í BÝRÆKT: SKOÐUN OG NAUÐSYNLEGAR AÐGERÐIR EFTIR VETUR

Inngangur

Vorvinna í býrækt er grundvallaratriði fyrir að tryggja heilsu og afkomu býflugnabúa eftir vetur. Í þessari samantekt er fjallað um mikilvægi þess að framkvæma skipulega skoðun á búum snemma vors, mat á ástandi þeirra og viðeigandi aðgerðum til að undirbúa búin fyrir komandi sumar. 

Hreinsunarflug og fyrstu merki um líf

Mynd Úlfur 20/3´22. Hér sjást dritflekkir í snjónum eftir hreinsiflug

Þegar hitastig hækkar í 10–12°C, fara búin í svokallað hreinsunarflug. Við þetta losa þær sig við uppsafnaðan úrgang frá vetri, sem oft sést sem litlir gulir blettir á yfirborði bifreiða eða annarra glansandi hluta. Hreinsunarflugið er mikilvægt fyrir heilbrigði búsins; án þess geta flugurnar losað úrgang innandyra, sem leiðir til mengunar og mögulegrar myglu. Þessi mengun getur valdið alvarlegum skaða á búinu og jafnvel dauða þess. Þær geta skitið inni í búinu ef þær verða fyrir miklu ónæði t.d. að það sé verið að fikta í búunum, greinar sláist utan í búin í vindi eða eitthvað annað truflar vetursetu búsins.

Hér á Íslandi fer hreinsunarflug fram frá febrúar og fram eftir vori  

Eftir hreinsunarflug skal setja nýjan botn undir búið.

 

Þegar skipt er um botn sést hve mikið botnfall er; hve mikið af þernum hefur drepist um veturinn.

 

 

 

 

 

Aldrei skal skoða ofan í bú sem ekki hafar farið í hreinsiflug.

 

 

Flutningur á búum sem geymd hafa verið inni

Bú sem hafa verið geymd inni yfir veturinn þarf að flytja út á réttum tíma. Ef hitamælir hefur verið í búinu um veturinn og hitastig helst óbreytt er óhætt að bíða sem lengst ef veður eru óviss og hitastig í því rými sem búin eru geymd í helst stöðugt. Ef hitastig  fer hækkandi í búinu eða í geymslunni þarf búið líklega að komast fyrr út.Það ætti að gera þegar hitastig utandyra er í kringum 10°C og líklegt er að veðrið batni áfram. Flutningur er best framkvæmdur á kvöldin í myrkri.

Við flutning þarf að hafa í huga:

  1. Setja hreina botna undir búin og loka netbotninum til að bæta einangrun.
  2. Klæða búin með einangrandi efni, t.d. tjörupappa ef ástæða til.
  3. Fylgjast sérstaklega með smærri og léttari búum og bæta við fóðri ef þörf krefur.

 

 

                                                                                                                                               sjá hér SKOÐUN

Fyrsta skoðun eftir vetur

Hér eru 2 bú, sýnilega nokkuð sterk en að mínu mati alltof snemma verði að fikta í búunum.

Gagnlegt er að vera með það á hreinu hvað gera skal við inngripið og óvitlaust að hafa það skrifað hjá sér.

Markmið skoðunarinnar eru eftirfarandi: 

  • Er búið lifandi og hver er styrkur þess.
  • Meta magn fóðurs og bæta við ef nauðsyn krefur.
  • Athuga hvort drottningin hafi hafið varp og hvort varp sé eðlilegt.
  • Fjarlægja myglaða eða skemmda ramma og bæta við nýjum.
  • Fjarlægja heila kassa ef búinu nægir rýmið sem þær þá fá (oftast er neðsti kassinn ónotaður og mest mygla í honum).
  • Setja botnplötu og minnka flugop til að auðvelda búinu að halda hita.
  • Meta hvort þurfi að einangra kúpuna betur. 

 

 

Leiðbeiningar um skoðun á býflugnabúum

Almennt um skoðun

  • Við skoðun skal leitast við að valda sem minnstu ónæði sem gæti truflað býflugurnar.
  • Best er að skoða bú þegar flestar býflugur eru úti að sækja björg, venjulega milli kl. 10 og 14 á daginn.
  • Hentugt veður: Útihitastig á bilinu 12–15°C og logn. Ekki skal skoða í rigningu eða strekkingi.

Aðferð við skoðun

  1. Forðast truflun:

    • Skoðun þarf að fara fram á eins stuttum tíma og hægt er til að lágmarka kælingu á búinu.
    • Halda skal römmum yfir búinu við handfjötlun til að koma í veg fyrir að drottningin detti af rammanum og út fyrir búið.
  2. Skráning:

    • Skrá skal styrk búsins, heildar fjölda ramma, ramma með fóður og fjölda ungviðaramma.
    • Tryggja þarf að alltaf séu að lágmarki 5 kg af fóðri (3 rammar fullir af hunangi eða sykurlegi).
  3. Athugun á ástandi bús:

    • Athuga hvort drottningin sé farin að verpa; egg, yngra ungviði, lokuð klakhólf.
    • Meta fóðurstöðu og leggja til fóðurramma, ef þörf er á. Best er að setja ramma fulla af fóðri alveg upp að klasanum báðum megin. Aldrei ætti að vera minna en 5 kg eða 3 rammar fullir af fóðri.
    • Fóðra má með frjó- eða sykurdeigi ofan á rammana því ef of kallt er fara þær ekki upp í fóðurtrogið.
  4. Rými og pláss:

    • Meta hvort búið hafi of mikið eða of lítið pláss. Fjarlægja má tóm söfnunarkassa og ónotaða ramma til að auðvelda hitastjórnun.
    • Skemmda eða myglaða ramma skal fjarlægja og skipta út fyrir hreina ramma, helst með fóðri.

 

 

Eftirlit og tímasetningar

  • Vorskoðun: Meta ástand búsins í apríl-maí og bíða í nokkrar vikur ef allt lítur vel út.
  • Sumarskoðun: Eftir að býflugur fara að safna nektar og frjókornum, skal skoða búið vikuleg sérlega stór kröftug bú (minni a.m.k. aðra hverja viku).
  • Eftirfylgni: Fylgjast með magni ungviðis og áætla hvenær það klekst út. Fullur rammi með ungviði fyllir rými á 3 römmum þegar hann klekst.

Athugið

  • Ekki skal fóðra bú sem ekki hafa farið í hreinsunarflug.
  • Fóðrun hvetur drottninguna til varps, en varast skal að ofmikil fóðrun fylli klakhólf með sykurvatni.
  • Skýringar og skráning eftir hverja skoðun eru mikilvægar til að halda yfirsýn yfir ástand búsins.

 

 

 

Vetrarklasinn situr þétt til að halda hita.

Í hvert sinn sem skoðað er í búið þarf að meta vandlega stærð búsins og skrá á umhirðukort fyrir hvert bú:

  1. Á hve mörgum römmum situr klasinn á, plássið- hvort það sé of mikið, eða of lítið (betra þröngt þau auðveldara fyrir þær að halda hita.
  2. Telja ramma með ungviði, hvort að ungviðið sé lagt þétt og í reglulegri röð,svona eins og amerískur fótbolti lítur út og stækkar eftir því. Fullur rammi af ungviði í hólfum þekur sem klekjast fylla rými á  3 römmum, þessu verður að gera ráð fyrir.
  3. Skrá styrk, heildarfjölda ramma, fjölda ramma með fóðri, fjölda ungviðaramma, til að tryggja yfirsýn yfir ástand búsins.
  4. Mikilvægt að gera sér grein fyrir hve mikið fóður er í búnu í hvert sinn sem skoðað er.
  5. Kanna botninn, hvort það þurfi að hreinsa hann, skipta á honum, athuga rakamerki, þ.e.a.s. merki um myglu.
  6. Fjarlægja skemmda býtóma ramma og setja nýja, hreina ramma í, helst með fóðri, það hvetur drottninguna til að verpa og flýtir fyrir stækkun búsins. 

 

Oftast situr klasinn efst í búinu. Það sem þarf að kanna er hvort drottningin er farin að verpa, hvort nægilegt fóður sé til staðar í búinu (telja fjölda ramma með fóðri) og ef ekki þá er best að leggja til fóðurramma (fullir af hunangi eða sykurlegi), frá öðru búi eða af gömlum birgðum. Einfaldast er að fjarlægja ysta ramma og skoða svo niður á milli rammanna með því að færa þá sundur og sjá hvort nóg fóður er í þeim. Varast ber að kljúfa rammana þar sem klasinn situr en flytja ramma fulla af fóðri næst klasanum sitthvor megin og einnig ramma með frjókornum nær klasanum. Einnig má fóðra með sykuvasa með sykutr eða frjódegi. Mikilvægt er að sjá hvort drottningin er byrjuð að verpa en það sést á lokunum yfir klakhólfunum, þau eru brúnleit og kúpt.

 

 

Ef búið er lítið getur borgað sig að fjarlægja  1-2 kassa ef þær hafa setið á 2 -3 kössum svo þær eigi auðveldara með að halda hita inni í búinu, oftast er neðsti kassin verst útlítandi. Þá eru allir tómir myglaðir eða skemmdir rammar teknir frá en að öðru leyti gert eins og að ofan segir.

 

 

 

 

 

 

Lítil bú:

Lítil bú sem eiga sér varla lífsvon þarf að sameina, þ.e.að fjarlægja drottninguna úr einu búi og setja það bú ofan á búið sem fær að halda sinni drottningu. Nota síðu úr dagblaði á milli þar sem stungin eru nokkur göt með t.d. með penna, þó ekki það stór að býflugurnar komist strax á milli, heldur verða þær að éta sig á milli. Setja nokkra dropa af anísolíu til að yfirgnæfa feromen búanna. Þessi bú má jafnvel fóðra með sykurvatni sem er 50% sykur og 50% vatn í fóðurkassa.  Hægt er að halda áfram með fóðrun þar til búið er orðið nægjanlega sterkt og berst nægilegt af nektar og frjókornum þannig að ekki sé þörf á viðbótarfóðrun né það blandist í hunangið. Einnig má nota fóðurvasa með fóðri. Fóðrun hvetur drottninguna til varps og búið að ala upp ungviði. Það má þó ekki gefa meira en ca 3 dl. á sólarhring annars byrja þernurnar að fylla öll klakhólf með sykurvatni. 

 

 

Mynd Egill .Úr dauðu búi. Þetta brúna á fyrsta rammabilinu hæ megin er skita. Mygla sést ofan á og milli ramma.

 

Dautt bú:

Ef bú er dautt þarf að reyna greina/skilja ástæðu þess- er fóðrið búið eða var það of langt frá klasanum, skitu flugurnar inni í búinu (sést sem brúnir flekkir á römmunum), var klasinn of lítill til að halda hita. Nota má hreina góða fóðurramma úr þessum búum í þau bú sem lifa. Flest bú sem drepast gera það vegna smæðar þ.e. hafa ekki þann fjölda býfl. sem þarf til að halda hita m.v. aðstæður. Einnig þau bú sem aldrei hafa komist í  vetrarhvíldina vegna truflunar utanfrá, s.s. ræktandinn hefur verið að skakast í búinu á einn eða annan hátt og búið því ekki fengið þann frið og ró sem þarf til.

 

 

 

 

.

Mynd Egill .Úr dauðu búi. Bottnfall.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samantekt

Vorvinna er ómissandi hluti af býræktun sem tryggir heilbrigði og afrakstur býflugnabúa. Með kerfisbundinni skoðun, skipulagi og réttri meðhöndlun er hægt að lágmarka áhættu á að búið  drepist og hámarka hunangsframleiðslu. 

Í rannsóknum hefur komið fram að bú sem sátu á nýju vaxi (ekki svörtu og mikið notuðu) hafa stærri svæði af ungviði og þyngri nýútskriðnar ungflugur  að vori. Heildarlifun ungviðis var þó betra úr gömlum vaxkökum. En nýtt vax hefur þó á heildina betri áhrif á heilsu og fjölgun býflugnanna Þetta sýnir mikilvægi þess að fjarlægja gamlar vaxkökur.

Heppilegt er fyrir bú sem kemur vel (stórt) undan vetri fái að byggja í það minnsta 20 nýja vaxramma í maí-júní. Með þessu fær býræktandinn heilbrigðari býflugur og meiri hunangsuppskeru. Þetta letur einnig svermmyndun því hver svermur þýðir hunangstap upp á 15-20 kg í það minnsta.

 

Vorvinna að hætti Norðmanna

Torbjörn Andersen ritaði þann 14.April 2009

Hér fer fram stutt lýsing á þeim atriðum sem ber að huga að á vordögum og er að mestu stolið frá síðu Egils með smá viðbæti.

Vorskoðun Fyrsta skoðun á búi þarf alltaf að gera varlega og eins hratt og hægt er. Við fyrsta tækifæri eftir að flugurnar hafa flogið út og hreinsað sig (skitið) þá ber okkur að kíkja í búin, veðrið verður auðvitað að vera skaplegt, helst yfir 10° og logn. Oftast situr klasinn efst í búinu. Í þessari skoðun er maður að meta hvort búið hafi lifað af og maður fær grófa mynd af því hversu sterkt það er.

Verkefni við fyrstu skoðun: -Meta gróflega styrk búsins með því að horfa ofan á rammana og telja á hversu mörgum römmum flugurnar sitja á. -Núna er mál að skipta um botnbretti. Eftir langan vetur er mikið af dauðum flugum og rusl á plötunni. Best er að lyfta allri einingu búsins til hliðar í einu lagi. Þá er sett hreint botnbrett í stað þess gamla og kössunum síðan lyft til baka á hreint bretti. Gamla brettið er skafið vandlega og síðan þvegið með sápu og vatni. Gott er að láta brettið síðan til þerris í sólinni þar sem sólageislar virka sýklaeyðandi. -Um leið og maður lyftir kössunum, metur maður gróflega hvernig birgðastaðan er í búinu út frá þyngd búsins. -Svona snemma árs er mikilvægt að vera ekki að róta lengi í búinu vegna hættu á ofkælingu. Skynsamlegt er að minnka plássið í búinu með því að fjarlægja ramma sem ekki eru flugur á og fylla plássið með einangruðum millirömmum. Myglaðir og ljótir rammar yst eru tekin út. Hvort flugurnar hafi 1 eða 2 kassa, skiptir minna máli. Þær munu á þessum tíma halda sig í efsta kassanum og það er hér sem maður minnkar inn á plássið. Þeir sem kjósa að láta búið hafa 2 kassa verða samt að sjá til þess að rammarnir í neðri kassanum séu í lagi. Ef búið er létt er gott að setja til þeirra ramma fulla af hunangi eða sykurlegi og gjarnan með frjókornum í. Á þessum tíma er óþarfi og beinlínis skaðlegt að fara í að kryfja búið til að leita uppi drottningu og ungviði. Það er of mikil hætta á ofkælingu og sennilega lítið hægt að gera í stöðunni. Best er að bíða með fyrstu aðalskoðun þar til góður hiti er kominn í lofti. Með tímanum lærir maður að meta ástand búsins með því að fylgjast með hegðun þeirra á flugbrettinu. Ef það er líf og fjör og flugurnar koma inn með frjókorn er líklegt að drottning lifir og komin í varp.

Ef bú er dautt þarf að greina/skilja ástæðu þess- er fóðrið búið eða var það of langt frá klasanum, skitu flugurnar inni í búinu (sést sem brúnir flekkir á römmunum), var klasinn of lítill til að halda hita. Nota má hreina góða fóðurramma úr þessum búum í þau bú sem lifa. Flest bú sem drepast gera það vegna smæðar þ.e. hafa ekki nægilegan fjölda býflugna sem þarf til að halda hita m.v. aðstæður. Einnig þau bú sem aldrei hafa komist í vetrarhvíld vegna truflunar utanfrá, s.s. ræktandinn hefur verið að skakast í búinu á einn eða annan hátt og búið því ekki fengið þann frið og ró sem þarf til.

Vorgjöf: Til að auka ungviðaframleiðslu á þessum mikilvæga tíma er gott að gefa sykurvatn og einnig gervi frjókorn eða sojadeig sem hægt er að kaupa erlendis. Soja deigið er ríkt af eggjahvítuefnum sem er mikilvægt fyrir ungviði og takmarkandi þáttur á varpi drottningar. Sumarið byrja seint á okkar slóðum og hætta á löngum innisetum vegna veðurs. Ég hef sjálfur notað þetta í Noregi og hefur gefið góða raun. Maður byrjar með lítinn skammt, ¼ af plötu sem er sett beint ofan á rammana eftir að flugurnar hafa verið reknar burt. Það er nauðsynlegt að þrýsta vel á deigið til að hægt sé að koma þakplötunni fyrir á eftir. Ofan á deigið leggur maður plastfilmu til að deigið þorni ekki. Ofan á topp-plötuna setur maður síðan sykurvatn. Slík vorgjöf hressir og kætir vetraþreyttar flugur og flýtir fyrir að búið nái sér á strik. Eftir eina viku er lokinu lyft af og ef deigið er búið gefur maður annan og stærri skammt. Gangi ykkur vel!

Hafa samband