Samantekt: Egill Rafn Sigurgeirsson
Ekki eru neinar ritaðar heimildir um býflugnarækt á Íslandi og mér ekki kunnugar fyrr en á tuttugustu öldinni.
Árið 1934 gaf Bókasafni Þjóðvinafélagsins út bókina Býflugur í þýðingu Boga Ólafssonar á bók Maurice Maeterlinck og kostaði 7 kr.
Árið 1936 og ´38 voru bú flutt til landsins, líklega til Akureyrar, frá Noregi. Þau gáfu um 10 kg af hunangi en lifðu ekki af veturinn.
Árið 1951 flutti Melitta Urbancic ( frá Austurríki ) inn bú frá Skotlandi og ´52 og ´53 frá Noregi og hélt býflugur í Reykjavík í nokkur ár. Býræktarfélag Íslands var stofnað 1953 af frumkvöðlunum Dr. Melitta von Urbancic og Dr. Geir Gígja. Árið 1960 var Melittu gert að fjarlægja (drepa) búinn vegna óánægju nágranna með kvikindin.
Árin 1975 og ´76 flutti Olgeir Möller inn bú frá Danmörku en þessi bú lifðu ekki af veturinn.
199. Hann hafði þau á Vatnsendasvæðinu ( líklegast í Dimmuhvarfinu, þar fann ég brot af vaxmilliveggi í kartöflugeymslu sem nú er búið að fjarlægja )
Ég hafði ræktað býflugur í Svíþjóð árin 88-98 og flutti með mér 5 bú til landsins í ágúst ´98. Tvö stærstu búin drápust á leiðinni í flugvélinni ( þetta er algengt þegar búin verða fyrir mikilli streitu- fá “hitaslag”). Búin 3 gáfu 25 kg hunang samtals það haust.
1999
Ég og fjölskyldan fórum erlendis í apríl ( sigldum um Jómfrúaeyjar ) og komum ekki heim fyrr en í lok ágúst. Ég hafði þá þegar um vorið sannreynt að 1 bú (það minnsta) drapst um veturinn. Fékk ég að hafa búin í Norðlingaholti hjá vinkonu minni Matthildi Leifsdóttir á Stakkholti (hét áður Bölti). Um sumarið sá bróðir minn Sigurgeir Sigurgeirsson um búin og til öryggis gaf hann þeim sykurvatn allt sumarið. Í lok ágúst var annað búanna mjög lítið svo ég tók nokkra ramma af ungviði frá stærra búinu og bætti við það minna. Stærra búið var virkilega öflugt og mikið hunang en vegna fóðrunar var ekki hægt að taka frá því hunang ( hunang blandað sykri ), það hefði verið svindl.
Ég hafði tekið með frá Svíþjóð slatta af hunangi (ca. 100 kg) og hafði hluti þess byrjað að gerjast og gaf ég hvoru búi um sig u.þ.b. 2 kg af létt gerjuðu hunangi sem reið þeim að fullu veturinn 99-2000 en eftir á að hyggja var veðurfarinu um að kenna.
2000
Veturinn 2000, mars- maí, hélt ég námskeið í býflugnarækt í á vegum Mímis. Átta manns tóku þátt. Tveir þeirra eru enn með býflugur (2022) og fleiri hafa bæst við smám saman.
Býflugnaræktendafélag Íslands (Bý) var stofnað það sumar. Við fluttum inn okkar fyrstu sendingu af flugum frá Svíþjóð, fengum 2 sendingar (samtals 16 “fötur” hristi sverma) það sumarið. Seinni sendingin misheppnaðist algerlega -það rigndi í föturnar á flugvellinum í Svíþjóð og býflugurnar drápust. Þessi bú drápust því miður um veturinn vegna smæðar. Við fengum þær í lok júlí en þær náðu ekki að byggja upp fjölda/styrk til að halda hita. Við vetruðum 11 bú, það síðasta fjaraði út í lok vors 01 í Fjölskyldu og húsdýragarðinum.
2001
Veturinn 00-01 verið umhleypingasamur, mikið frost í des. fram í byrjun jan. (-16 gr). Býflugur lágu dauðar í snjónum í lok febrúar fyrir framan búin. Hef hreinsað úr flugopi dauðar býfl.. 9/3 hiti 6°C og býfl. út úr öllum búum nema nyrsta (Möttu). Hreinsiflug 8/4 úr einu búi, syðri minni. Rysjótt tíð, hlýir dagar (6-8°C ) í apríl. Seinni hluti apríl, rok og rigning nema dagana kringum 24/4, þá 3 bú dauð. Annað mitt lítið, sló búum saman. Upphaf maí rok og rigning . Hóffífill blómstrar í byrjun maí, víðir um miðjan maí, fyrstu frjókorn heim í bú 17/5 . Allur fyrri hluti júní, kuldapollur af norðri hiti 8-14°C flestallt blómgast fyrri hluta mánaðarins, ss. túnfífill, rifsber, hindber, bláber, krækiber. Búið lítið, egg/lirfur á 2 römmum. Fífill blómstrar á fullu í byrjun júlí svo og smári byrjaður og blóðberg. Leiðinda veður í upphafi júlí, rigning og kuldi búið fékk fóðurdeig. Skarifífill blómstrar í júlí fram í okt.. Sóttar voru býflugur með Norrænu frá Niels Drivdal í Flekkefjord í Noregi, Gestur Helgason sá um að sækja þær. 18 Kassar voru sóttir á pallbíl og komu til landsins 26. júlí 2001. Þegar búin voru skoðuð kom í ljós að 2 bú voru dauð og seinna kom í ljós að eitt bú var drottningarlaust. 4 bú fóru í Kelduhverfi, 2 í Fljótsdalinn. Tómas og Egill tóku síðan það sem eftir var og keyrðu austur fyrir land til Reykjavíkur. 2 bú fóru á Stokkseyri og það sem eftir var endaði á höfuðborgarsvæðinu. Í ljós kom að þessi tegund býflugna var mjög árásargjörn og var það án undantekningar. Það verður þó að segjast að þær voru mjög duglegar að vinna og flugu langt fram í október. Eftir fyrsta kuldakast í október voru nokkur bú dauð og stór hluti féll undir á liðnum vetri. Það sem eftir lifir um vorið 2002 er eitt bú á Stokkseyri (reyndust 2), hugsanlega eitt í Kelduhverfi (sem ekki reyndist rétt) og nokkrar flugur ásamt drottningu í húsdýragarðinum. Skoða þarf hvers vegna þessi fellir hefur komið til. Ýmsar ástæður geta verið þar um en of lítil bú að hausti virðist hafa haft töluverð áhrif. Hunangstekja var um 70 kg af u.þ.b.11 þessara búa..
2002
Einungis 2 bú lifðu af veturinn(´01-´02). Þau voru staðsett fyrir opnu hafi á Stokkseyri í eign G. Rúnars Óskarssonar. Búin á Stokkseyri voru flutt til mín um sumarið vegna þess að ekki var hægt að hafa þau nærri fólki vegna árásarhneigðar. Annað búið missti drottningu sína við þetta eða fyrr en þær ólu upp nýja sem eðlaði sig við Elliðavatn í byrjun ágúst og vetruðum við 2 bú, en eitt búið dó um veturinn hitt lifði 03.
Engin bú fengust keypt frá Svíþjóð þetta árið.
Skýrsla á Aðalfundi -Býflugnaár 2002
Eftir aðalfund Bý í apríl var fljótlega haft samband við sænska býflugnabændur og sett inn auglýsing í tímarit þeirra þar sem óskað var eftir búum til kaups en undirtektir voru dræmar. Samband náðist þó við einn sem hafði í hyggju að selja okkur flugur, fljótlega, en það dróst síðan og hann dró sig síðan til baka þannig að ekkert varð úr innflutningi þó að nokkur áhugi hafi verið fyrir því hjá félögum fyrir innflutningi á býflugum. Náðist þó samband við annan býflugnabónda og hann lofaði okkur flugum næsta vor en þegar þetta er skrifað hefur ekki náðst samband við hann aftur og virðist hann ætla að draga eitthvað í land með þetta. Eins og fyrr hefur komið í ljós voru einungis 2 bú lifandi af þessum 16 sem komu til landsins 2001. Búið í Húsdýragarðinum fjaraði út í vorbyrjun en á Stokkseyri lifðu bæði búin en það kom þó ekki í ljós fyrr en í júní. Flugurnar voru leiðinlega árásargjarnar og þurfti að flytja þær á betri stað þ.e.a.s. upp á Vatnsenda þar sem þær döfnuðu vel. Það kom þó í ljós að við flutningana og umskiptin hafði önnur drottningin í búinu misfarist en fyrri part ágúst hafði ný drottning verið alin upp af búinu sjálfu og var hún farin að verpa. Sýnikennsla í skoðun og mati á búnum fór fram í ágúst við góðar undirtektir viðstaddra nema flugnanna. Þessar flugur sóttu blómsafa og frjókorn langt fram í október enda var haustið milt og gott.
Á síðustu mánuðum ársins 2002 kom í ljós að Gylfi Símonarson gjaldkeri var of störfum hlaðinn til að geta sinnt gjaldkera starfinu þannig að Tómas Óskar Guðjónsson tók við því starfi í ársbyrjun 2003. Í byrjun febrúar var haldinn stjórnarfundur þar sem rædd voru bæði þessi gjaldkeraskipti og áframhaldandi umræður um býflugnarækt. Í febrúar og mars voru haldnir 6 fundir að Elliðahvammi þar sem sýndar voru vídeómyndir og býflugnarækt rædd. Á síðasta fundinum var síðan unnið uppkast að umsókn um styrk fyrir innflutning og býflugnarækt og er það mál enn í vinnslu. Mjög misjöfn mæting var á þessa fundi en fundargestir voru yfir höfuð ánægðir.
2003
Það næsta sem var reynt, var að fá keyptar flugur í byrjun sumars frá Svíþjóð en eftir að Svíar höfðu upplifað sinn versta vetur hvað varðar vetrardauða búa, þá náðist einungis að fá keypt 4 bú sem ég sótti sjálfur og kom með til landsins 5. júní. Í einu búanna drápust nær allar flugurnar nema drottningin og í öðru drapst drottningin við flutninginn.
Í drottningalausa búinu ólu flugurnar upp nýja drottningu en hún misfórst líklegast við mökun (drottningar fljúga út og eðla sig við allt að 2 tugi karldýra (druntar) á fyrstu vikum ævi sinnar). Ég sló því saman búunum 2 ,hafði þó styrkt hina fáliðuðu drottningu með flugum og römmum með lirfum en þá tóku hinar aðfluttu upp á því að drepa drottninguna.
Eitt búanna var mjög stórt (fjöldi flugna) og í því mikið hunang (gaf 60 kg) en annað er heldur minna enda drottningin þar 3 ára gömul (blámerkt frá 2000).
Búið frá Stokkseyri gaf 13 kg.
Skýrsla fyrir aðalfund. Býflugnaárið í ár er hafið. Fyrri hluti apríl var mjög hlýr og góður og hafa flugurnar verið mjög duglegar að fljúga. Þ þann 4/5. við 3° hita, þá flaug annað búið á víði og einnig á hóffífil og kom heim drekkhlaðið frjókornum. Ég sótti 4 bú til Svíþjóðar og kom heim með þau 5/6. 1 bú (í papparöri) dó á leiðinni (nema drottningin og nokkur hundruð flugur) og 1 drottning í hinum 3. Reiknaði því með að drottningalausa búið mundi ala upp eigin drottningu en það mistókst þeim svo að í ágúst sameinaði ég það bú hinu litla búi en tóku þær sig til og drápu þá drottningu. Ég hafði þó bætt flugum og römmum með lirfum til drottningarinnar og hennar fáliðuðu hirð allt sumarið og var búið orðið þokkalega stórt. Eitt af búunum var með gamla drottningu (bláa frá ´00) og sást fljótlega að hún myndi ekki duga sumarið og þegar það kom betur í ljós ( kyrrlát hallarbylting í búinu ) þá tók ég hana með ca. 1/4-1/3 af flugum og lirfum og bjó til lítinn afleggjara fyrir hana til að kröfur (varp) minnkuðu og hún dygði sumarið en bara viku seinna var hún dauð. Þarna var ég í raun kominn með 4 bú drottningalaus og 1 mjög stórt bú sem dró hratt að sér hunang. Það bú sýndi fljótlega hversu öflugt það var og tók ég frá því búi lirfuramma og flugur til að styrkja hina fáliðuðu drottningu og einnig bjó ég til 7 “eðlunarbú” (litlir kassar með nokkur hundruð flugum) úr þessu búi. Eðlunarbúin fengu drottningarhólf frá búinu sem missti drottninguna í flutningnum en bara 3 drottningar náðu að klekjast en engin þeirra náði að eðla sig (2 hurfu á flugi 1 lagði bara ófrjóvguð egg = druntalirfur = gagnslaus(á sænsku kallast þetta puckel drottning sem mætti kalla kryppu drottningu, því kryppa myndast á klakhólfin þar sem bara fæðast karldýr sem eru verulega stærri en þernurnar og fá því illa pláss í þeim hólfum sem eggin eru verpt í og standa þá út úr hólfunum og vaxlokið myndar þá hnúð= puckel)). Líklega voru þessi bú of fáliðuð (til að halda hita) miðað við íslenskt veðurfar og þess vegna fór sem fór. 4 bú voru því drottningalaus fram í endaðan ágúst og náðu 2 að ala upp drottningu sem einnig náðu að eðla sig og voru byrjaðar að verpa í lok ágúst, hin 2 búin voru því sameinuð þessum. Raunin varð því sú að ég vetraði 3 bú sem ég vona að lifi veturinn. Líklega þarf ég að styrkja minni búin með ungviðarömmum frá stóra búinu næsta vor. Flugurnar eru enn að sækja björg í bú 1/10 (þegar viðrar) líklega frá fífiltegundum (skarifífill) sem enn blómstra og hugsanlega einstaka hvítsmára sem enn blómstrar. Komu með frjókornaklumpa 15. okt. í ca. 11° hita. Haustið var sem fyrr, milt og langdregið og fyrstu almennilegu frostin komu um miðjan desember, þá lægst -14°C. Eftir óvenju hlýtt sumar fékk ég tæp 80 kg af hunangi mestmegnis frá stóra búinu. Hunangið tók ég frá þeim smátt og smátt (ramma fyrir ramma) frá júlí og loka hunangstekja í lok sept.
2004
Veturinn ´03-04 dóu mín bú.
Ekkert fékkst keypt frá Svíþjóð því var leitað annarra ráða og leitað til Noregs og hringt út um allar trissur, þar til býflugnabóndi einn , sem ætlaði að hætta með býflugnarækt var tilbúinn að selja okkur. Smyrilline þverneitaði að flytja flugurnar, nema helst í skotheldum, eldvörðum gámi og varð því ekkert úr innflutningi. Eitt bú Rúnars lifði veturinn og var því gripið til þess ráðs að kaupa drottningar frá Svíþjóð, sem að gekk með ágætum. 4 drottningar voru keyptar en það kom í ljós að þessar drottningar voru tæknifrjóvgaðar og þegar búunum var skipt var móðurbúið búið að draga upp drottningu, þannig að 2 drottningar fóru forgörðum á fyrrnefndan hátt, þ.e.a.s. 1 þá ófrjó, en hin drepin.
Skýrsla stjórnar árið 2004.
Býflugurnar, sem formaður flutti með sér frá Svíþjóð döfnuðu flestar vel. Drottningamissir varð þó í sambandi við flutninginn og gekk erfiðlega að fá önnur bú að samþykkt drottningar. Drottningaræktun mistókst algjörlega, líklega vegna kuldaskeiðs, einhvern tíma um mitt sumar, en eitt af búunum óx verulega og dafnaði og að hausti gaf það ca. 60 kg, á meðan 2 önnur gáfu ca. 10 kg hunang hvort.
Þessi 3 bú voru vetruð með um 20 kg af sykri og vonir bundnar við að þetta tækist allt saman, en að vori voru býflugurnar dauðar í búunum og var því stefnt að því að býflugnabóndinn, sá sem selt hafði í fyrra vor, efndi loforð sitt og seldi okkur þessi bú sem um hafði verið rætt, um 30, en þá hafði varróamaurinn dreift sér á svæðið í Svíþjóð og hann fékk ekki leyfi til þess að selja eða flytja og var eiginlega búinn að lofa flugunum sínum annað, þegar við náðum loks sambandi við hann.
Því var leitað annarra ráða og leitað til Noregs og hringt út um allar trissur, þar til einn býflugnabóndi, sem ætlaði að hætta með býflugnarækt var tilbúinn að selja okkur, en Smyrilline þverneitaði að flytja flugurnar, nema helst í skotheldum, eldvörðum gámi og varð því ekkert úr flutningi. Meðan á þessum undirbúningi öllum stóð, þá leið vorið og fram á sumar og var því ekki kallað til aðalfundar, þar sem ekkert var í gangi.
Eitt bú Rúnars lifði veturinn og var því gripið til þess ráðs að kaupa drottningar frá Svíþjóð, sem að gekk með ágætum. 4 drottningar voru keyptar en það kom í ljós að þessar drottningar voru tæknifrjóvgaðar og þegar búunum var skipt var móðurbúið búið að draga upp drottningu, þannig að 2 drottningar fóru forgörðum á fyrrnefndan hátt, þ.e.a.s. 1 þá ófrjó, en hin drepin. Í vetur voru 2 bú uppi á Kjalarnesi. Á þessari stundu er ekki vitað hvernig þessum búum hefur reitt af.
Veturinn 2004-2005 fór hersing mikil og voldug, á fund landbúnaðarráðherra, þ.e.a.s. formaður, Egill, og ritari félagsins, Erlendur Garðarsson og ræddum mál um hugsanlegan styrk og stuðning við innflutning á búum. Tók hann vel í málið, eftir að hafa sagt af sér sjúkrasögu og kjaftasögur af lækni einum á Selfossi, sem að öllum öðrum er ókunnugur, nema honum, skildist mér.
Vorið nálgast óðfluga, þó veður segi ekki til þar um, en í bígerð er að flytja inn bú frá Noregi og væntanlega verða þau sótt í byrjun maí.
2005
Nú sótti ég 30 bú frá Tysnes (rétt sunnan við Bergen) og flutti heim með Norrænu. Öll búin lifðu ferðina voru illa árásargjörn en mikill var áhugi og ánægja manna og kvenna með að vera búinn að fá flugur aftur. Við keyptum gæfar drottningar frá Svíþjóð og skiptum á þeim leiðinlegu, reyndum að fjölga búum með afleggjurum.
Jæja, þá var loksins komið að því að farið skyldi til Noregs að kaupa býflugur.
Þetta var um 1. árs meðganga. Eftir að hafa leitað býflugna í Skandinavíu, sumarið 2004 að þá komst ég í tengsl við Tryggve Andersland, sem var að hætta með býflugnarækt og var með slatta af búum til að selja okkur.
Eftir margar símhringingar og skipulagsvinnu og fundarhöld, þá lagði ég land undir fót 5.maí sl., flaug til Osló og þaðan til Bergen. Þar tóku á móti mér Torbjörn Andersen, norskur kollegi, og býflugna áhugamaður, sem heimsótti okkur 2004, þar sem hann hafði frétt af býflugnarækt hér á landi.
Mér var boðið í mat til þeirra hjóna, konu hans Eygló, íslensk, og þar var fyrir faðir Torbjörns, ellilífeyrisþegi og kollegi. Tveir hundar af íslenskri tegund og slatti af börnum sem ég kom ekki almennilega tölu á. Þarna var mér boðið í dýrindis mat og rætt um heima og geima, en Torbjörn talar ágætis íslensku eftir 10 ára veru hér á landi á háskólaárum sínum og við störf eftir það.
Hann skutlaði mér síðan um borð í ferju, sem flutti mig til Tysnes, þar sem þau hjón, Sólveig og Trygve, tóku á móti mér. Kom ég heldur þreyttur og slæptur, eftir langt ferðalag, til þeirra og var þar stjanað við mig á allan hátt.
Daginn áður en ég fór út þá var sendiferðabíl Hafbergs í Lambhaga, skutlað um borð í Norrænu og hann sendur út til móts við mig.
Daginn eftir kíktum við á búin, nokkur þeirra eða 10 stykki og bjuggum undir flutning. Flugurnar voru árásargjarnar eins og búast mátti við af vægri slíkri lýsingu, en eins og fram hefur komið fyrr þá virðist eins og á sumum stöðum í Noregi í.þ.m. að býflugnabændur sætti sig við mjög svo árásargjarnar flugur, þ.e.a.s. maður verður að vera í öllum herklæðum til þess að fá ekki stungu, en ég fékk samt sem áður 2 stungur í gegnum samfestinginn.
Að þessu loknu var auðvitað úðað í mig mat og góðgæti og síðan um kvöldið sótti Torbjörn mig aftur, þegar ég kom með ferjunni til baka, og keyrði mig á bryggjuna þar sem Norræna leggur að og þar var enn einn Norðmaðurinn sá sem keyrði bílinn frá borði og fékk ég þennan líka fína sendiferðabíl í hendurnar. Það var brunað af stað til að ná síðustu ferju yfir til Tysnes og var ég kominn þangað rétt um miðnætti.
Laugardagsmorguninn tókum við til við að skipuleggja flutning á býflugunum og gera allt tilbúið fyrir þetta og hlóðum við bílinn auka kössum og þökum. Þar sem veður var mjög kalt og gekk á með skúrum að þá vorum við tiltölulega snemma þennan dag búnir að loka öllum búum til þess að hafa allar flugur með þegar býflugurnar voru teknar og fluttar yfir í bílinn. Fengum við hjálp sonar Tryggve til þessa og gekk þetta allt að óskum. Þá var komið að kveðjustund og var mér boðið í mat hjá þeim hjónum, auk þess sem 2 synir þeirra og tengdadætur voru í heimsókn og brunaði ég síðan af stað.
Þau bjuggu uppi í fjalli, á yndisfögrum stað og áttavilltur eins og venjulega þá keyrði ég náttúrulega í vitlausa átt, þegar ég kom niður á þjóðveg (ef þjóðveg skyldi kalla) en áttaði mig eftir u.þ.b.15-20 mín. akstur og sneri við með hjartslátt yfir því að missa nú af síðustu ferjunni og þurfa þá að keyra um 2 ½ klst. ferð til Bergen, yfir sveitavegi strandhéraða Noregs. Ég kom þó rétt í tæka tíð á ferjustað er ferjan var að leggja að og andaði ég nú léttar um stund. Torbjörn hafði verið svo almennilegur að bjóða mér næturgistingu heima hjá sér um nóttina en að rata um Bergen seint um kvöld er ekki það auðveldasta, þannig að ég byrjaði eðlilega á því að villast og hringdi í hann og sagði hann mér til vegar og komst ég til hvílu rétt upp úr miðnætti.
Um klukkan fjögur á sunnudagsmorgun var svo rokið af stað til þess að komast í tæka tíð, fyrir sex, niður á bryggju, en ég þurfti að vökva flugurnar, þ.e.a.s. fylla svampinn af vatni til þess að þær hefðu nú nóg að drekka og kæla sig með. Tók þetta allt um rúman klukkutíma, þannig að klukkan var tæplega sex þegar ég lagði loksins af stað og enn á ný villtist ég en var þó tiltölulega snöggur að finna réttu leiðina og á ofsaakstri (miðað við farþega) þá komst ég niður á bryggju og þar lenti ég í mikilli og langri röð, sem silaðist í gegnum einhverskonar hlið og ég hélt, eðlilega, að ég væri að missa af ferjunni en þá kom í ljós að það var 2-3 tíma seinkun. Þetta tókst nú svo sem allt og komst ég um borð, en ég neita því ekki að starfsmenn Smyril Line fylgdust nú aðeins með mér, með rifur á öllum hurðum og var ég mest hræddur um að ég yrði stoppaður því þetta er eins og þið vitið og kom fram í síðasta sinn þegar við reyndum að flytja inn flugur í Norrænu að þetta eru jú miklir skaðvaldar og gætu steindrepið alla farþega og kröfðust þeir þá bruna- og skothelds gáms til að flytja flugurnar í.
Ég var síðan lengi að dútla við að koma mér frá bílnum, þannig að það væru sem flestir farnir frá bíldekkinu þegar ég færi frá bílnum til þess að geta haft eins mikið opið og hægt var. Var ég nú litinn hornauga af hásetum og öðrum farþegum sem eflaust grunaði að ég væri að smygla einhverju (ég)!!!!.
Ég komst þó upp í koju og lagði mig fram undir hádegi. Við komum til Hjaltlandseyja seinna um daginn, og notaði ég þá tækifærið til þess að kíkja aðeins niður til býflugnanna og bæta á vatnið í svampana og fylgjast með að allt væri í lagi. Sumir farþegar inntu mig eftir þessari miklu lykt og hvað ég væri að gera og var nú enginn verulega felmtri sleginn heldur sýndu þessu nokkurn áhuga. Allt virtist með kyrrum kjörum hjá flugunum, þannig að ég lét gott heita og leit síðan ekki til þeirra fyrr en næsta dag þegar við stoppuðum í Þórshöfn í Færeyjum og enn bætti ég á vatni og allt leit ágætlega út. Við komum síðan til Seyðisfjarðar að morgni þriðjudags og það var nokkuð merkilegt að sigla að landinu og sjá það svona úr fjarska, eins og víkingarnir forðum, með snjóföl niður í miðjar hlíðar fjalla og gekk á með skúrum, kalt var og.
Það var keyrt hægt og rólega í land og þar sem ég var með tollskyldan varning þá stoppaði ég eðlilega við hjá tollvörðum. Þetta sem hafði tekið einhverjar 20 mínútur árið 2001, þegar við komum síðast með flugur, fór núna upp í fjögurra tíma bið eftir tollafgreiðslu og dýralæknisskoðun og greiðslu tolla af flugunum.
Einhver ný lög hafa tekið gildi þar sem neyðarleyfi eru einungis skrifuð á kvöldin og um helgar og þurfti þess vegna að ganga frá öllum málum strax. Þetta tókst samt sem áður allt saman og lagði ég af stað frá Seyðisfirði upp úr hádegi. Hafði þá mælt mér mót við Tómas Guðjónsson á Egilsstöðum þar sem sá hinn sami hafði látið Fréttastofu sjónvarps vita af ferð okkar og var tekið stutt viðtal við okkur. Síðan var haldið sem leið liggur norður um land og komið við í Kelduhverfi þar voru 7 bú afhent, bændum og áhugasömum, aðeins fór fram stutt kennsla í gjólu og kulda, hvernig ætti að ganga frá búunum og enn á ný var rokið af stað. Alltaf var kíkt af og til til búanna og rifur hafðar á öllum hurðum, en það var orðið svo kalt að við minnkuðum rifur verulega og keyrðum sem leið liggur og skiptumst á að keyra og vorum komnir um tvöleytið til Reykjavíkur. Þar tók Tómas búin 3 sem fóru í Húsdýragarðinn, Matta og Hafberg hittu mig heima hjá mér og tóku sín bú og ég þurfti að ganga frá mínum búum og var búinn að þessu öllu klukkan 4. Sofnaði þreyttur og sæll, því öll búin virtust lifandi.
Næsta morgun var síðan farið af stað og athugað líf og hér var allt á fullu, flugur út um allt, úr þessum 15 búum sem voru staðsett heima hjá mér og strax fyrir hádegi þennan sama dag fór fram fyrsta sýnikennslan í því hvernig á að hegða sér og taka við búunum og um hvað þyrfti að hugsa. Mikil spenna hafði eðlilega verið út af þessum innflutningi og allir boðnir og tilbúnir að hjálpa til og var virkilega gaman að sjá áhuga annarra sem hafa minni reynslu af býflugnarækt en ég.
2006
15 bú lifðu af veturinn. Sænskar drottningar voru pantaðar og komu í lok júlí, eftir miklar hrakfarir og var fyrst og fremst skipt út þeim árásargjörnu norsku drottningum sem eftir voru og auk þess að nokkur ný bú voru mynduð.
2007
Um miðjan maí voru 15 bú lifandi eftir veturinn en gleðin minnkaði nokkuð fram eftir sumri því að nokkur bú drápust snemma sumars og voru einungis 9 bú lifandi um mitt sumarið, en enn á ný var farið í það að flytja inn drottningar.
Í byrjun ágúst voru búin til nokkur ný bú( afleggjarar), þannig að á haustdögum 2007 voru um 14 bú vetruð. Menn voru að fá þetta milli 10 og 35 kg af hunangi úr búi.
Þrjú bú lifðu af veturinn, 1 hjá mér og 2 hjá Kristjönu (á Seltjarnarnesi)
2008
Í ár (´08) fluttum við enn á ný inn bú frá Noregi. Vegna óhappa drápust 13 þeirra á leiðinni og strax eftir komuna til landsins en 26 bú lifðu, nokkur löskuð mjög. Tvö bú höfnuðu í Fljótsdalnum, 2 í Ölfusi ,2 við rætur Heklu og afgangurinn á höfuðborgarsvæðinu (þar af 11 við Elliðavatn). Sum þessara búa eru verulega árásargjörn önnur með besta móti hvað varðar umgengni. Sumarið hér sunnanlands var með því besta sem gerist og söfnuðu búin miklu hunangi. Hausthátíð býflugnabænda var haldinn á Landbúnaðarsýningunni Gaddstaðaflötum Suðurlands. Þar vöktu býflugurnar mikinn áhuga og hunangið enn meiri lukku enda seldist nær allt hunang 4 býflugnabænda upp. Samtals fengum við um 490 kg hunang frá þessum búum og meðalhunangs framleiðsla/bú um 19 kg þó gáfu að minnsta 2 bú rúmlega 40 kg hvort. 26 bú voru vetruð um haustið.
2009
6 bú lifðu veturinn og af þeim og innfluttum búum voru vetruð 40 bú sjá nánar undir fréttir hér til vinstri
2010
Eftir óvenju mildan vetur, kom í ljós að af 41 vetruðum búum síðasta haust, lifðu 28 bú að vori. Svo mörg bú og hátt hlutfall vetraðra búa hafa ekki áður lifað af veturinn hér á landi. Við fengum 32 býpakka frá Álandi þann 19 / 6 og 8 nýir býræktendur fengu sínar fyrstu býflugur. Við höfum nú vetrað 62 bú og erum 22 býræktendur.
Býflugnaskýrsla 2011
Það eru nú 43 virkir býræktendur á Íslandi þar af 15 konur. Janúar til maí var haldið býræktarnámskeið þar sem um 30 byrjendur og lengra komnir sóttu. 64 býpakkar voru fluttir til landsins 19. júní frá Álandseyjum, 5 félagar í Bý fóru þangað til að aðstoða við pökkun. 42 bú lifðu veturinn 2010-11. Mesta hunangsuppskera var 47,5 kg hjá einum býræktenda. Heildar uppskera hunangs var 815 kg en nokkur bú gáfu ekkert hunang eða býræktendur tóku ekkert hunang úr sumum búum af ýmsum ástæðum. Þeir sem fengu ný bú í ár fengu mest 12,5 kg hunang úr búi og augljóst að þeir sem fóðruðu búin sín á 3 fyrstu kassana fengu mest. Meðaltalsuppskera hunangs var 8 kg/bú. Meðaluppskera er reiknuð frá heildarhunangsuppskeru er deilt með fjölda búa sem eru vetruð.
10 svermar litu dagsins ljós að því er vitað er, grunur er um að einhverjir svermar að auki hafi tapast. Samtals voru vetruð bú þetta haust 104. Flest eru búin 9 hjá 1 býræktenda en 14 eru með 1 bú.
Árið 2012
Eftir óvenjugott og hlýtt en kannski heldur þurrt sumar koma hér upplýsingar um gang býræktar.
Í janúar hófst námskeið í býrækt sem 21 manns sóttu, þar af 11 konur. Kennt var 1 helgi í mánuði fram í júní og lauk námskeiðinu með verklegri kennslu og prófi. Einnig voru bú byrjenda skoðuð um sumarið.
Í lok aprílmánaðar höfðu flest bú okkar lokið úthreinsun. Aðalfundur Bý var haldinn 29. apríl . Þar kom fram að 43 virkir býræktendur voru á landinu og þar af 15 konur.
Flestir skoðuðu í búin sín í byrjun maí, mörg bú höfðu hafið varp í lok apríl eða byrjun maí. Flugurnar sóttu á krækiberjalyng og er það fyrsta sinn sem fregnir berast af því enda hlýtt þegar þetta var. Flugurnar sóttu frjókorn þó svo að hitastigið væri við 6°C en í öllum bókum er talið að býflugur fljúgi ekki við kaldara veður en 12°C. Þessi kenning er því hrakin. Fyrstu hunangskassarnir voru settir á búin í lok mánaðarins.
Í byrjun júní voru 81 bú lifandi af 104búum sem voru vetruð haustið 2011 sem gerir 22% vetrarafföll sem er líklega með því minnsta sem gerst hefur síðan býrækt hófst á Íslandi árið 1998. Líklega er að þakka nýjum aðferðum við vetrun þar sem áhersla hefur verið á að koma í veg fyrir rakamyndun í búunum og fóðrun með fitu-próteindegi.
Um miðjan júní flugu Bjarni og Egill til Álandseyja og sópuðu flugum í 4 daga og náðu að safna saman 48 býpökkum en ýmsar uppákomur voru til að gera ferðina óþægilega stressandi en um það má lesa hér . Fimm af drottningunum í býpökkunum sýndu sig vera gagnlausar, það er byrjuðu aldrei varp. Það tókst að bjarga þeim búum með nýjum drottningum frá Elínu og fleirum.
Einn býræktandi fékk raðsverm ( 7 sverma) þann 22. júní frá einu búi sínu frá í fyrra, þar sem hann hafði ekki skoðað í búið sitt síðu 3 vikurnar fyrir uppákomuna.
Býræktendur tóku loka uppskeru frá búum sínum í lok ágústmánaðar en í síðustu viku mánaðarins gerði slæmt flugveður og söfnun varð lítil, þar hvarf stór hluti væntanlegrar uppskeru í býflugurnar sjálfar og þeirra ungviði. Hunangsmetið í ár kom frá 1 búi Margrétar, 53 kg, tveir fengu 40 kg frá einu búi (Sigurður/Bryndís og Björn) . Mesta heildaruppskeru fengu Vigdís og Sigmundur, 140 kg frá 9 búum. Þrátt fyrir óvenjuhlýtt sumar varð hunangstekja ekki meiri en önnur ár og má líklega um kenna þurrviðri því er ríkti á landinu. Heildarfjöldi sverma sem náðust í sumar var 18 og voru gerðir 12 afleggjarar. Fjöldi búa sem voru sett á vetur er 138. Tveir býræktendur (Egill og Vigdís/Sigmundur) vetruðu 9 bú, einn 7 bú (Torbjörn), tveir 6 bú ( Þorsteinn og Vernharður) og tíu 1 bú. Heildar uppskera hunangs var 1188 kg en það gera 8,5 kg á hvert vetrað bú og er það svipað magn og undanfarin ár. 8 býræktendur tóku ekkert hunang frá sínum búum og 4 tóku 5 kg eða minna. Það eru nú 53 býræktendur þar af 25 konur, (auk 8 mjög virkra aðstoðarmanna ) í landinu. Það er eflaust hæsta hlutfall kvenna í Vesturheimi og líklegar víðar.
Hunangsdagurinn í Fjölskyldu og húsdýragarðinum var haldin 1. september þar sem býræktendur kynntu býrækt og seldu hunang. Þá um kvöldið var árshátíð Bý haldin að Kríunesi og mættu 31 manns, býræktendur og makar. Þetta tókst með ágætum og var mikið talað um reynslu liðins sumars í býræktinni.
Flugurnar báru enn heim einstaka frjókorn um miðjan september og fyrst og fremst frá fífiltegundum sem enn blómstruðu. Býræktendur sem og býflugur bíða nú með óþreyju vorsins.
Ársskýrsla Bý fyrir árið 2013.
Af 132 vetruðum búum haustið ´12, lifðu 114 í júní en 25 bú drápust eða voruð sameinuð öðrum um sumarið og er þetta alltof há tala því flestum þessara búa má bjarga með styrkingu frá stærri búum.Innflutningur á býpökkum byrjaði með skelfingu vegna mistaka við pökkun flugnanna. Áætlað var að flytja inn 44 pakka en einungis komu 20 lifandi til landsins eftir kostnaðarsaman björgunarleiðangur.
Það má segja að sumarið hafi verið hið skelfilegasta fyrir býrækt á suður-, suðvestur- og vesturlandi vegna kulda og rigninga. Til dæmis tókst eðlun drottninga fádæma illa þar sem hitastig náði ekki 20°C nema nokkra daga en það er það hitastig sem þarf að vera til að eðlun drottningar geti átt sér stað. Líklega þurftu öll nýju búin stöðuga fóðrun frá komu fram á haust. 125 bú voru vetruð þetta haust, og var meðaltals sykurgjöf 22 kg á bú, búnir voru til 19 afleggjarar og 8 þeirra seldir öðrum. 11 drottningar voru ræktaðar og 3 seldar. 6 svermar voru fangaðir. Heildar hunangsuppskera var um 950 kg sem gera um 7,5 kg á vetrað bú og er það svipað og síðustu ár.