FRJÓKORN Í ÍSLENSKU HUNANGI

Margrét Hallsdóttir

Inngangur

Upp úr 1930 voru fyrstu rannsóknarstofur í býflugnarækt settar á fót í Þýskalandi og reyndar víðar í Evrópu. Einn rannsóknarþátturinn sem þróaðist á þessum árum var frjókornafræði hunangs eða Melissopalynology (http://www.honeyshow.co.uk/files/nhspub8.pdf).  Í ljós kom að frjókornum safna býflugurnar ekki bara í frjókörfurnar sem eru á afturfótum þeirra heldur eru frjókorn líka í hunangslegi blómanna, í hunangsdögg blaða og blómstöngla og í andrúmsloftinu sem flugurnar ferðast um. Á tvo síðastnefndu staðina, hunangsdöggina og anddrúmsloftið, safnast frjókorn sem koma víðar að en frá blóminu sjálfu sem hunangsleginum er safnað úr. Þannig geta frjókornin, sem býflugan ber með sér í búið, komið úr mörgum áttum og frá ýmsum plöntum. Jafnan kemur mest af frjókornum frá plöntum sem hunangslögurinn er sóttur í þó gildir um sumar skordýrafævaðar plöntutegundir að þær framleiða mjög lítið af frjókornum og í því tilviki geta frjógerðir annara plöntutegunda orðið ríkjandi í hunanginu. Frjókornainnihald hunangs þarf því ekki að segja alla söguna um uppruna hunangsins.

Markmiðið með rannsókninni var þríþætt; að komast að því hvaða frjókorn væru í íslensku hunangi, hvort breytileiki væri í frjókornainnihaldi hunangsins eftir því hvenær sumars býflugnabúin voru tæmd og hvort landshlutabundinn munur kæmi fram en hunangskrukk­urnar níu komu frá þremur svæðum á suður- og suðvesturhluta landsins; sex voru frá höfuðborgar­svæðinu, ein úr Ölfusi og tvær af Rangárvöllum.

Aðferðir

Ýmsar aðferðir virðast notaðar við að ná frjókornum úr hunangi, allt frá því að leysa hunangið einvörðungu upp í heitu vatni (um 40°C) til þess að nota sterkar sýrur og basa til að hreinsa þau enn betur og lita. Skilvinda er mikilvæg í hreinsun frjókorna úr hunangi. Frjókornin eru þyngri en vökvinn (vatn+hunang, sýra) og safnast því á botn skilvinduglasanna. Vökvanum er síðan ýmist hellt ofan af eða hann soginn burt. Botnfallið sem er aðallega frjókorn er tekið upp með pípettu og komið fyrir á smásjárgleri síðan er þekjugler með dropa af fljótandi gelatíni notað til að innsigla sýnið, en við stofuhita er gelatínið á föstu formi.

Hér var farin flóknari leiðin við hreinsun frjókornanna. Aðferðin er stöðluð fyrir hunangs­rannsóknir á Nýja Sjálandi (Moar 1985) og tekur mið af því að hægt sé að nýta sér samanburðarsafn frjókorna við greininguna en í slíkum söfnum hafa frjókornin undantekn­ingalítið fengið acetólýsumeðferð. Í þeirri meðferð er innvolsi (frymið) frjókornanna eytt þannig að aðeins ysti hlutinn þ.e. veggur frjókornsins verður eftir, hann tekur jafnframt gulbrúnan lit og sést þar með mun betur undir smásjánni bæði bygging hans og mynstur. Til að gera frjógreiningu hunangsins magnbundna voru notaðar töflur með ákveðnum fjölda Lycopodiumgróa (Stockmarr 1971; þær töflur sem hér voru notaðar innihalda um 12.500 gró). Ein tafla var sett í hvert sýni strax í upphafi meðferðar og leystust þær upp í vatninu rétt eins og sykrur hunangsins.

Þegar talið var af smásjárglerjum var byrjað inni á miðju þekjunnar og haldi út að jöðrum hennar. Þetta var gert vegna þess að í ljós kom að frjókornin höfðu tilhneigingu til að dreifast ójafnt um glerið. Oftast var þéttleikinn mestur til jaðranna. Miðað var við að telja að lágmarki 500 Lycopodiumgró eða 1000 frjókorn úr sýninu sjálfu. Í þeim sýnum sem frjómagn var mest var fjöldi frjókorna úr sjálfu sýninu kominn í hátt á annað þúsund þegar talningu var hætt.

Smásjáin sem notuð var er af gerðinni Leica DMLB með augnlinsur sem stækka tífalt og hlutlinsan sem notuð var við greininguna er olíulinsa með 63-faldri stækkun. Til að koma í veg fyrir skörun á milli talningarlína var færslan höfð 1 mm. Oftast var talið af heilu gleri sem jafngildir 22–24 línum, talning af hálfu gleri nægði fyrir tvö sýnanna og svo dugði að telja tæpar 3 línur úr sýninu sem var með mestan þéttleika frjókorna.

Helstu niðurstöður

Þéttleiki frjókorna öðru nafni frjómagnið í 10g hunangs reyndist mjög breytilegt. Flest voru frjókornin rétt um 115 þúsund en fæst voru þau 3500. Algengast var að 10 til 20 þúsund frjókorn væru í einu sýni þ.e. 10 grömmum. Samkvæmt írskum staðli (Tafla I samkv. Food Safety Information Centre 2006) þá telst eitt sýnanna vera ríkt af frjókornum (>100.000) tvö eru í meðallagi frjórík (>20.000 og <100.000) og sex reyndust fátæk af frjókornum þ.e. með minna en 20.000 frjókorn í 10 grömmum hunangs.

Tafla I             Hunangsflokkar miðað við þéttleika frjókorna í 10 grömmum (samkv. Food Safety Information Centre 2006)

Flokkar Frjómagn = fjöldi frjókorna/10g Einkunn Íslensku sýnin, nr.
1      < 20,000 fátækt 1, 3, 6, 7, 8, 9
2         20,000 – 100,000 meðallag 2, 5
3       100,000 – 500,000 ríkt 4
4       500,000 – 1,000,000 ríkt
5 > 1,000,000 ríkt

Tegundaauðgi Alls voru greindar 42 mismundi frjógerðir í íslenska hunanginu og eitt gró af elftingu í einu sýnanna (Viðauki). Í einu einstöku sýni gátu frjógerðirnar verið allt frá því að vera 18 þar sem fjölbreytnin var minnst og upp í 25 þar sem hún var mest. Allmargar frjógerðir fundust aðeins í örfá skipti og fjórtán komu aðeins einu sinni fyrir (sjá Töflu II). Í viðauka er gerð grein fyrir hverri frjógerð þ.e. hvort ein eða fleiri ættkvíslir/plöntutegundir standi að baki frjógerðinni og þá hvaða ættkvíslir eða plöntutegundir komi hugsanlega til greina.

Algengustu frjógerðirnar koma frá smára, sveipjurtum, mjaðjurt, fíflum, rósaætt, beitilyngi, súrum, víði, lúpínu, murum og fjalldalafífli. Þessar ellefu tegundir náðu að lágmarki 5% hlutdeild í einhverju sýnanna níu (Tafla II).

Tafla II            Algengustu frjógerðir í íslenska hunanginu þ.e. >5%

Sýni nr. 1 2 3 4 5 6 7 8 9
Frjógerðum raðað eftir mikilvægi í hverju sýni smári smári smári sveipjurtir súrur smári mjaðjurt smári smári
rósaætt sveipjurtir mjaðjurt súrur beitilyng sveipjurtir smári víðir mjaðjurt
lúpína mjaðjurt sveipjurtir beitilyng sveipjurtir fíflar fíflar sveipjurtir beitilyng
murur rósaætt rósaætt fíflar mjaðjurt fjalldalafífill fíflar
mjaðjurt
rósaætt

Smárafrjó eru algengust í sex sýnum af níu og næstalgengast í einu. Í tveimur sýnum náðu smárafrjó ekki 5%. Sveipjurtir reyndust algengastar í einu sýni og næstalgengastar í tveimur og í þriðja sæti í þremur. Þrjú sýni innihéldu minna en 5% af sveipjurtarfrjóum. Mjaðjurtin var algengust í einu sýnanna, næstalgengust í tveimur, í þriðja, fjórða eða fimmta sæti í þremur sýnum. Mjaðjurtarfrjó eru í öllum sýnunum en þau eru undir 5% í þremur sýnanna. Fíflafrjó eru ýmist í þriðja eða fjórða sæti í fjórum sýnanna en undir 5% í fimm sýnum. Frjókorn af rósaætt sem ekki verða greind til einnar ákveðinnar tegundar eru yfir 12% og næstalgengasta frjógerðin í einu sýnanna, í þremur eru þau í fjórða eða sjötta sæti og í fimm sýnanna ná þau ekki 5% hlutdeild. Beitilyng er næstalgengasta frjógerðin í einu sýnanna og þriðja algengust í tveimur en í sex sýnum eru beitilyngsfrjó undir 5%. Súrufrjó eru algengust í einu sýnanna og næstalgengust í öðru. Þessi tvö sýni eru frá sama svæði en tekin á mismunandi tíma sumars. Í þremur sýnum fundust örfá eða fá súrufrjó og í fjórum voru allsengin súrufrjó. Eitt sýni var með meira en 10% af víði- og fjalldalafífilsfrjóum og annað sýni var með meira en 5% af lúpínu- og murufrjóum.

Tafla III           Frjógerðir í íslensku hunangi og hversu algengar þær eru

Latneskt heiti plöntunafn > 30%

algeng

kemur fyrir í

öllum sýnum

kemur fyrir í

8 af 9 sýnum

sjaldséð

Í 1–3 sýnum

fáséð

í einu sýni

Salix gerð víðir x
Calluna vulgaris beitilyng x x
Armeria maritima A-line geldingahnappur x x
Capsella gerð hjartarfi o.fl.
Cardamine gerð hrafnaklukka o.fl. x
Cerastium gerð músareyra o.fl. x
Silene gerð lambagras o.fl. x
Comp. Cichoriodideae fíflar x
Comp. Tubuliflorae “tungukrýnd” körfublóm
Achillea gerð vallhumall o.fl. x
Chamerion angustifolium gerð dúnurtir / sigurskúfur
Galium gerð möðrur x
Gentianella vendir x
Geranium silvaticum blágresi x
Thymus gerð blóðberg o.fl. x
Lonicera toppar x
Myosotis gerð munablóm, blálilja x x
Papaver gerð melasól x x
Parnassia palustris mýrasóley x x
Phacelia hunangsjurt x x
Poaceae grastegundir x
Sedum gerð hnoðrar x x
Ranunculus sóleyjar
Rhinanthus gerð lokasjóður o.fl. x
Rosaceae undiff. rósaætt x
 Filipendula ulmaria mjaðjurt x x
 Geum gerð fjalldalafífill x
 Potentilla gerð murur o.fl. x
 Rosa >32um rós x
 Dryas octopetala holtasóley x x
Rumex acetosa gerð súrur o.fl. x
Sambucus gerð yllir x x
Umbelliferae sveipjurtir x x
Polygonum cf. Bistorta kornsúra x x
Trifolium gerð smári x x
Lupinus nootkatensis lúpína x
Vicia (?) flækja x
Fabaceae>40µm grófreticulate belgjurt x x
Campanula bláklukka x x
Caltha palustris hófsóley x
Valeriana gerð garðabrúða x x
Tricolporoidate >40µm óþekkt x x
Equisetum elfting x x

Frjógerðir sem koma alltaf fyrir, þó í litlu magni sé í sumum sýnanna, eru tíu talsins (sjá Töflu III). Þær koma frá eftirfarandi plöntum: smára, sveipjurtum, mjaðjurt, beitilyngi, fíflum, rósaætt, víði, lúpínu, murum og hrafnaklukku. Sýnin sex frá höfuðborgarsvæðinu áttu að auki tvær frjógerðir til viðbótar sameiginlegar en það eru frjó fjalldalafífils og dúnurtarfrjó (sigurskúfur er þar á meðal).

Einhæfni Talað um unifloral hunang þegar meira en 45% af einni frjógerð er til staðar í hunanginu (Food Safety Information Centre 2006). Á íslensku mætti kannski nefna slíkt hunang einplöntu eða einnar plöntu hunang. Reyndust fimm íslensku hunangssýnanna vera þannig og mega fjögur þeirra kallast smárahunang og eitt sveipjurtahunang. Ýmist voru ein eða tvær frjógerðir ríkjandi í hverju sýni eða með meira en 30% af einni og sömu frjógerðinni. Sjö sýnanna voru rík af smárafrjóum en þar af voru þrjú með minna en 45% smárafrjó og teljast því ekki einplöntu hunang. Eitt var með mest af sveipjurtafrjóum (62%) annað af súrufrjóum (42%, þar voru beitilyngsfrjó líka í miklu magni) og það þriðja var með mest af mjaðjurtarfrjóum (35%). Það síðastnefnda reyndist líka ríkt af smárafrjóum þ.e. hvor frjógerð um sig, mjaðjurt og smári, var með yfir 30% hlutdeild frjókorna.

Hver hunangsgerð hefur að geyma frá þremur frjógerðum og upp í sex þegar miðað er við að frjógerðin nái að lágmarki 5% (Tafla II). Þannig hefur smárahunangið með sér einhverjar þrjár af eftirtöldum frjógerðum: rósaætt, lúpínu, muru, sveipjurtum, mjaðjurt og fíflum. Sveipjurtahunangið er með túnsúru- og beitilyngsfrjó sem fylgitegundir. Hunangið sem innihélt meira en 30% af smára og mjaðjurt hefur með sér fíflafrjó og það sem var ríkast af túnsúrufrjóum var líka með yfir 30% af beitilyngsfrjóum og auk þess sveipjurta- og  fíflafrjó. Hunangið sem hafði flestar frjógerðir yfir 5% var með mest af smárafrjóum, síðan kom víði-, sveipjurta-, fjalldalafífils-, mjaðjurtar- og rósaættarfrjó. Samsetningin smári, mjaðjurt, beitilyng og fíflar kom líka fyrir (Tafla II).

Þannig má segja að hunang og hunang sé hreint ekki það sama þegar litið er til fjölbreytileika frjókornanna sem þar er að finna.

Landfræðilegur munur íslensks hunangs

Hunangið frá Rangárvöllum skar sig úr einkum vegna súrufrjókorna. Túnsúra og hundasúra hafa vindfrævun og blómin laða ekki að sér skordýr, eru fremur óásjáleg og innihalda ekki hunangslög (nectar). Spurningin er því hvort verið geti að súrufrjóin hafi borist í býflugnabúin með vindi fremur en býflugum. Septemberuppskeran var rík af beitilyngsfrjóum sem er eðlilegt þar sem beitilyng blómgast oftast ekki fyrr en komið er fram í ágúst. Beitilyngið er velþekkt hunangsplanta. Þá var óvenju mikið af frjókornum sveipjurta einkum í fyrri uppskerunni sem tekin var í ágúst.

Hunangið frá Ölfusi var líkt og hunangið af Reykjavíkursvæðinu, ríkt af smárafrjóum, en að öðru leyti skar það sig úr fyrir tegundaauðgi og þar voru nokkrar frjógerðir m.a. munablóm og lokasjóður sem varla sáust í öðru hunangi.

Reykjavíkurhunanginu var safnað vestan og norðan við Elliðavatn og niður undir Grafarvog. Það einkenndist af smárafrjóum og átti að auki ellefu aðrar frjógerðir sameiginlegar.

Laxalón var með tvær ríkjandi frjógerðir, mjaðjurt og smára, og í því var mest af fíflafrjóum og sigurskúf af Reykjavíkurhunanginu.

Stekkjarholtshunangið var með minnst af frjókornum en frjógerðir sem eitthvað kvað að voru flestar eða sex talsins (smári, víðir, sveipjurtir, fjalldalafífill, mjaðjurt og ýmis önnur frjó af rósaætt).

Hunangið frá Elliðahvammi var með mikið af frjókornum frá mjaðjurt og beitilyngi fyrir utan smárann. Talsvert var af fíflafrjói og nokkuð um frjó af rósaætt, sveipjurtum og lúpínu.

Heiðmerkurhunangið hafði verið tekið á mismundi tímum yfir sumarið. Það fyrsta var tekið júlí síðan í ágúst og loks var tæmt í september. Öll teljast þau vera smárahunang. Miðuppskeran var með flestar frjógerðir og var jafnframt ríkust þeirra þriggja af frjókornum, frjómagnið liðlega 20.000 í 10 grömmum. Annars var tegundasamsetningin mjög áþekk í öllum þremur uppskerunum. Fyrsta uppskera var með meira af hrafnaklukku-, rósaættar-, muru- og lúpínufrjóum. Þriðja uppskeran var hinsvegar ríkust þessara þriggja af beitilyngs-, fífla-, mjaðjurtar- og sveipjurtarfrjóum. Í miðuppskerunni sáust bláklukku- og yllifrjó sem sáust ekki í hinum tveimur og í septemberuppskerunni voru hunangsjurtar- og vallhumalsfrjó einstök fyrir Heiðmerkurhunangið, en báðar frjógerðir voru í mjög litlu magni.

Heimildir

Food Safety Information Centre 2006.Analytical and traceability survey to determine the authenticity of honey labelled as Irish on the Irish market. 18 bls.

Louveaux J., Maurizio A. and Vorwohl G. 1978. Methods of Melissopalynology. Bee World, 59, 139–157.

Moar N. T. 1985. Pollen analysis of New Zealand honey, New Zealand Journal of Agricultural Research, 28 (1985), 39–70.

Sawyer R. The study of pollen. A National Honey Show Publication (No.8) 1-5. sjá: http://www.honeyshow.co.uk/files/nhspub8.pdf (síðan heimsótt 19.2.2009)

Stockmarr J. 1971. Tablets with spores used in absolute pollen analysis. Pollen et spores 13: 615–621.

 

VIÐAUKI – FRJÓGERÐIR

  1. Salix gerð – allar víðitegundir, engin tilraun er gerð til að greina á milli þeirra
  2. Calluna vulgaris – beitilyng
  3. Campanula – bláklukka
  4. Armeria maritima A-line – geldingahnappur
  5. Capsella gerð – hjartarfi og skriðnablóm
  6. Cardamine gerð – hrafnaklukka, fjörukál, vorblóm o.fl.
  7. Cerastium gerð – músareyra tegundir af ættkvíslum fræhyrna (Cerastium) og arfa (Stellaria)
  8. Silene gerð – lambagras tegundir af ættkvísl hjartagras (Silene), skeggsandi, ljósberi og munkahetta
  9. Compositae Cichoriodideae – allir fíflar (TaraxacumHieraciumCrepisLeontodon)
  10. Tubuliflorae – tungukrýnd körfublóm m.a. Cirsium-gerð (þistill); Senecio-gerð (AntennariaAster, Bellis, Calendula, Erigeron, Gnaphalium, Solidago, Senico og Tussilago)
  11. Achillea gerð – vallhumalsgerð (Achillea, Leucanthemum, Matricaria, Tanacetum, Tripleuro­spermum, Anthemis)
  12. Dryas octopetala – holtasóley
  13. Chamerion angustifolium gerð – sigurskúfur, eyrarrós og dúnurtir
  14. Galium gerð – möðrur
  15. Gentianella – vendir
  16. Geranium silvaticum – blágresi
  17. Lonicera – toppar
  18. Myosotis gerð – munablóm m.a. Gleym-mér-ei og blálilja
  19. Papaver gerð – melasól
  20. Parnassia palustris – mýrasóley
  21. Phacelia – hunangsjurt
  22. Poaceae – tegundir af grasætt
  23. Ranunculus – sóleyjar m.a. brennisóley og skriðsóley
  24. Caltha palustris – hófsóley
  25. Rhinanthus gerð – lokasjóður, smjörgras, tröllastakkur, deplur (Veronica) og augnfrór (Euphrasia).
  26. Rosaceae undiff. – rósaætt: reynir, hrútaber
  27. Filipendula ulmaria – mjaðjurt
  28. Geum gerð – fjalldalafífill
  29. Potentilla gerð – murur, engjarós, fjallasmári og jarðarber
  30. Rosa >32um – rós” ýmsar rósir
  31. Rumex acetosa gerð – súrur: túnsúra, hundasúra (njóli er með stærri frjókorn)
  32. Polygonum bistorta – kornsúra
  33. Sambucus nigra – yllir
  34. Sedum gerð – hnoðrar og burnirót
  35. Umbelliferae – allar sveipjurtir þ.e. hvannir, kúmen og kerfill, ekki var gerð tilraun til að flokka þær frekar.
  36. Thymus gerð – blóðberg, minta og blákolla
  37. Fabaceae>40µm grófreticulate – belgjurtaætt, líklega einhver ræktuð tegund
  38. Trifolium gerð – smári, líklega aðallega hvítsmári
  39. Lupinus nootkatensis – lúpína
  40. Vicia gerð – flækja aðallega umfeðmingur
  41. Valeriana gerð – garðabrúða
  42. Tricolporoidate >40um – óþekkt frjókorn, frá ræktaðri tegund? Kannski útlent ?
  43. Equisetum gerð – elfting

Hafa samband