Flutningur á búum

Hvernig á að flytja býflugnabú, á öruggan hátt:

Þýtt og staðfært , Egill Rafn Sigurgeirsson janúar 2025

 

Sjá hér:Betterbee Logo

 

 

 

Ástæður fyrir því að þú gætir þurft að flytja býflugnabú geta verið:

  1. Taka búin þín með þér þegar þú flytur búferlum eða í sumarbústaðinn.
  2. Breytingar á aðstæðum eða nágrannar krefjast þess að búin/ið verði flutt.
  3. Að finna betri staðsetningu fyrir búið vegna umhverfis.
  4. Flytja búið vegna blómgunar annara blómategunda.
  5. Flytja bú í betra skjól fyrir veturinn.

 

Að flytja bú á nýjan stað, um lengri eða skemmri vegalengdir,  kann að virðast ógnvekjandi fyrir nýliða í  býrækt. Það krefst vandlegrar skipulagningar og að varlega sé farið með búið/in. Þetta er þó tiltölulega einfalt að gera. Til að öryggis sé gætt fyrir þig, aðstoðarmann/enn og búið, þarftu að þekkja vissar öryggisreglur.

 

 

Geturðu flutt býflugnabú frá upprunalegum stað ?

Já, þú getur flutt bú hvert sem er frá nokkrum metrum til fleiri kílómetra, ef þörf krefur. Þó að það sé mikilvægt að staðsetja búin þín á besta mögulega stað frá upphafi, er stundum ekki hægt að komast hjá því að flytja þau. Með réttum öryggisráðstöfunum í flutningum og að venja búið við nýja staðsetningu  tekst þetta á nokkrum dögum.

 

Lítil bú.

Að flytja afleggjara eða minni bú t.d. á nýjan eðlunarstað fyrir drottningarækt er mun minna mál. Það þarf þó að passa að netbotninn sé alltaf opinn og að flugopið sé örugglega vel lokað. Þessi bú seturðu í bílinn en sjálfsagt að passa eð ekki verði of heitt inni í bílnum.

 

Stærri bú.

Þá borgar sig að setja tóman kassa efst og jafnvel netgrind ofan á, þú ofkælir búið aldrei á þann hátt, mest hætta er á ofhitnun. Ef ferðalagið tekur einhverja klukkutíma eða lengur er gott að setja vatnsfylltan svamp (hætt að leka úr honum) ofan á netgrindina, þetta bæði til að búið geti stjórnað hitastiginu og þynnt ungviðafóðrið ef opið ungviði er til staðar í búinu.

 

Gerðu áætlun áður en þú flytur býflugnabú:

Besti tími ársins til að flytja er í miðjum vormánuðum til síðla vors. Áformaðu að færa búið að kvöldi eða um nótt, þega allar sóknarflugur er komnar heim í búið. Ekki taka búið i sundur (kassa fyrir kassa) og getur verið mjög þungt, þú verður að gera ráð fyrir því.

 

Til að tryggja öruggan og vel skipulagðan flutning búanna, byrjaðu á því að taka til gagns öllum nauðsynlegum verkfærum og búnaði fyrirfram:

 

 

Nauðsynlegur búnaður

  1. Mannafli
    • Að minnsta kosti tveir einstaklingar – aldrei flytja býflugnabú ein/n (sjá þó að neðan).
  2. Öryggisfatnaður
    • Fullkominn varnarbúnaður fyrir alla sem aðstoða, þ.m.t. býgalli  og hanskar.
  3. Tæki og tól
    • Ósari og kúp-bein.
  4. Festingar
    • Tvær spenniólar fyrir hvert bú.
  5. Hvata fyrir endurstillingu staðarákvörðunar
    • Við mælum með laust samansettum greinabúntum til að hjálpa býflugunum að átta sig á nýrri staðsetningu.
  6. Efni til að loka flugopi
    • Svamprenningur
    • Límband.
  7. Flutningstæki
    • Hjólbörur eða burðarvagn til að hlaða og flytja bú stuttar vegalengdir.
    • Pallbíl eða kerru fyrir lengri flutninga.
  8. Auka kúpu
    • Þak, kassi (með útbyggðum römmum) og botn fyrir eftirlegukindur.

 

 

Ráðleggingar fyrir vinnuferlið

  • Gakktu úr skugga um að allt sé tilbúið áður en þú byrjar flutninginn. Þetta sparar tíma og dregur úr hættu á slysum.
  • Vertu með auka tól og búnað, ef eitthvað óvænt kemur upp.

Þessi undirbúningur mun tryggja að býflugnabúaflutningurinn verði sem öruggastur og skipulagður.

 

 

 

Hvernig flytur þú býflugnabú?

 Það er ekki öruggt að flytja bú inni í lokuðu farartæki: Þú átt á hættu að verða fyrir stungum ef býflugurnar komast út úr búinu/num á einn eða annan hátt. Notaðu þess í stað pallbíl eða kerru.

 

Skref til að flytja býflugnabú

  1. Tímasetning flutnings
    • Byrjaðu undirbúninginn seinnipartinn og skipuleggðu flutninginn seint um kvöld /nótt eða mjög snemma á morgnana þegar allar býflugur eru í búinu.
    • Búið pirrast auðveldlega þegar kúpan hreyfist, þetta er bústaður þeirra og hann verja þær með klóm og kjafti (eiturbroddi), svo notaðu fullan verndarfatnað: Býgalla og hanska.

 

2.  Undirbúningur nýja staðarins

    • Tryggðu að nýi býgarðurinn sé tilbúinn áður en þú byrjar flutninginn og hafðu tiltækt greinabúnt.

 

  1. Allar heim
    • Rektu allar þernur varlega inn um flugopið með reyk ef einhverjar sitja fyrir framan flugopið.

4. Lokaðu búinu fyrir flutning

    • Lokaðu flugopinu með t.d. svamprenningi, troddu honum vel inn og festu með t.d. Duct tape, passa að þak sé rétt lokað/fest.

5. Tryggðu búið fyrir flutning

    • Festu búið saman með 2 spenniólum þvert á hvor aðra til að tryggja að búið haldist saman meðan á flutningi stendur.

6. Lyfting og flutningur

    • Lyfta búinu varlega og halda á milli sín eða setja í hjólbörur/kerru. Ganga /aka þeim varlega á nýjan stað stuttu frá gamla staðnum eða á farartæki til flutnings um lengri vegalengd.

7. Hleðsla á flutningstæki

    • Festu búið örugglega á kerru/pall svo það kastist ekki til við akstur.

 

                                               Vertu full varinn í galla og með hanska.

 

Öryggisatriði:

  • Býflugur fljúga sjaldan að næturlagi, en þær geta skriðið. Vertu viðbúin(n) að bregðast við ef býfluga finnur op á gallanum/netinu meðan á flutningi stendur.

Með réttum undirbúningi og aðferðum geturðu flutt býflugnabúin örugglega, hvort sem er stuttar eða langar vegalengdir.

 

Flutningur búa að vetri.

 

Þegar flytja á bú styttri vegalengdir innan býgarðs eða inn í hús/geymslu er best að ljúka frágangi fyrir vetursetu fyrst, þ.e. taka af fóðurtrog og einangra á þann hátt sem þú gerir venjulega. Bíða síðan fram í frost og helst að það sé frost í nokkra daga eða viku, þá hefur búið safnast í þéttan klasa og situr tiltölulega stöðugt þar ef varlega er farið. Líklega er öruggast að teppa flugopið meðan á flutningi stendur en opna svo strax eða fljótlega eftir að búið er komið á sinn stað.

 

Býræktendum greinir nokkuð á hvort þurfi að flytja bú 5 eða 7 km frá upphaflegum býgarði til að vera öruggur á að eldri sóknarflugur leiti ekki aftur á gamla staðinn.

Best er að vera öruggur og flytja heldur lengra en skemur.

 

 

Flutningur búa styttri vegalengdir.

Býflugur búa til „landakort“ innan 5-7 km radíus af umhverfi upprunalegrar staðsetningar kúpunnar. Ef þú flytur búið lengra en 1 meter hvar sem er innan þess radíus, munu býflugur þínar snúa aftur á upprunalega staðinn og leita að búinu. Aðeins er hægt að flytja kúpuna innan 1 metra án þess að þernurnar þurfi að endurskipuleggja áttun sína. Þó er hægt að flytja búin aðeins lengra í átt flugstefn þ.e. fram eða aftur miðað við stefnu flugops.

 

Flutningur innan 1-10 metra.

  • Flyttu búið smám saman, ekki meira en 1 m á dag.
  • Býflugurnar munu líklega finna nýja staðinn sjálfar. Ef þær virðast ruglaðar, ósaðu lítillega á þær.

 

 

 

Flutningur allt að 5-7 km.

 

  • Ef þú flytur búið allt að 5-7 km í einu, þarftu að hjálpa býflugunum að endurstilla áttun sína eftir að búið hefur verið flutt.
      • Settu greinabúnt fyrir framan flugopið/kúpuna til að trufla þær við flug út úr búinu og þannig taka þær nýja áttun á staðsetningu. Einnig hægt að nota gras/strá en nægjanlega þétt til að trufla flug.
      • Innan nokkurra daga ætti búið að vera  aðlagað að nýrri staðsetningu og  nýja umhverfi sitt og þú getur fjarlægt greinarnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Að opna búið eftir flutning

  • Opnaðu búið fyrir dögun eða eins fljótt og mögulegt er eftir flutning, til að koma í veg fyrir ofhitnun.
  • Innilokað bú getur ofhitnað og býflugurnar drepist á fáeinum klukkustundum.

 

Þegar þessum leiðbeiningum er fylgt hægt að flytja bú örugglega og með lágmarks truflun fyrir býflugurnar.

 

Að flytja býflugnabú ein/n

Ef þú hefur ekki aðstoðarmann, er samt hægt að flytja bú einn. Horfðu á þetta myndband frá Anne Frey um hvernig á að gera það á eigin spýtur.

 

Myndband.

 

 

Að flytja bú lengri vegalengdir:

Sömu grunnskref eiga við um lengri vegalengdir en sem nemur meira en 7 km. Forgangsraða loftflæði til að koma í veg fyrir ofhitnun býflugnanna. Hafðu netbotn að fullu opinn og jafnvel netlok ofan á búinu (j.v. setja tóman kassa efst, loka með neti) til að tryggja sem besta loftræstingu.

Því lengri tíma sem tekur að flytja búið á kerru eða pallbíl því pirraðri verða býflugurnar.

Undirbúningur og flutningur

  1. Lokaðu flugopinu og festu kúpurnar tryggilega
    • Troddu svamp renningi í flugopið og límdu yfir með td Duct-Tape
    • Festu búin saman með spenniólum eða öðrum öruggum festingum til að koma í veg fyrir að þau losni eða hreyfist í flutningi.
  2. Flyttu á kvöldin eða nóttunni
    • Flyttu búin á kvöldin þegar allar býflugurnar eru komnar inn í búið og virkni þeirra er í lágmarki, eða eldsnemma morguns.
  3. Viðhalda loftflæði
    • Gakktu úr skugga um að loftstreymi sé nægilegt í flutningnum til að koma í veg fyrir ofhitnun.
  4. Varkár akstur
    • Keyrðu varlega á hóflegum hraða til að lágmarka högg og skjálfta sem gætu gert býflugurnar órólegar.
    • Ef býflugurnar virðast pirraðar við komu á nýja staðinn, skaltu íhuga að láta vélina á farartækinu ganga á meðan þú affermir búin. Suðið frá vélinni getur haft róandi áhrif.

 

 

Uppsetning á nýjum stað

  • Ný áttun: Truflun á flugi frá búinu er líklega óþörf, þar sem býflugurnar verða í algjörlega framandi umhverfi - lítil hindrun við flugop er nóg.
  • Opnaðu flugopið: Þegar búin eru komin á nýjan stað, opnaðu inngangana strax til að koma í veg fyrir ofhitnun.

 

 

Að aðlagast nýja staðnum

  • Býflugurnar gætu þurft nokkra daga til að venjast nýja umhverfinu.
  • Athugaðu gamla staðinn daglega og safnaðu saman þeim býflugum sem kunna að hafa ratað þangað aftur, fluttu þær á nýja staðarins.

 

Þegar þessum leiðbeiningum er fylgt er hægt að flytja bú á öruggan hátt yfir langar vegalengdir og stuðla að léttri aðlögun býfluganna að nýju búsvæði sínu.

 

Hvað verður um býflugur sem verða eftir þegar býflugnabú er flutt?

Að færa bú eftir að sóknarflugur hætta að leita fæðu tryggir að langflestar eru komnar heim í bú þegar flugopi er lokað.  Hins vegar geta eftirlegukindur orðið eftir. Þær leita þá aftur á gamla staðinn og safnast saman ef kúpa er skilin eftir á gamla staðnum og þá þarf að sameina þær móðurbúinu aftur.

 

 

 

Hvernig á að nota kúpu sem skilin er eftir  (skilakúpu?)?  

  1. Veldu réttan kassa
    • Notaðu hunangskassa með útbyggðum römmum, en forðastu ramma með hunangi/fóðri til að koma í veg fyrir að laða að býflugur úr nálægum búum, hunangsrán.
  2. Undirbúðu kúpuna
    • Settu kassann á stöðugan botn og lokaðu með þaki.
    • Festu kúpuna saman með spenniól til að auðvelda flutning.
  3. Skildu kúpuna eftir á gamla staðnum
    • Þegar þú flytur búið, skildu kúpuna eftir á gamla staðnum.
    • Býflugur sem koma seint heim munu finna kúpuna og setjast þar að, líkt og þær myndu gera í móðurbúinu.
  4. Sameinaðu flugurnar aftur við móðurbúið
    • Eftir flutning móðurbúsins skaltu sækja skilakúpuna.
    • Loka flugopinu og færa það í nýju býgarðinn.
    • Settu kúpuna við flugop móðurbúsins og leyfðu býflugunum að finna leiðina út eða notaðu býtæmi milli kassa og botns til að hvetja tregar býflugur til að sameinast búinu.
  5. Endurtaktu ferlið ef nauðsyn krefur
    • Endurtaktu þetta skref nokkra daga í röð ef það eru enn býflugur sem rata á gamla staðinn.
    • Þó að sumar býflugur kunni aldrei að flytja sig, mun meirihlutinn sameinast móðurbúinu.

 

 

 

Undirbúningur og öryggi

Hvort sem þú ert að flytja búið 10m, yfir akur eða 7 km (eða lengra), þá er góður undirbúningur og öryggi lykilatriði. Með réttri skipulagningu og hjálp geturðu flutt búin þín á öruggan hátt og án of mikillar truflunar fyrir býflugurnar.

Hvort sem þú ert að flytja bú 10 m yfir akur eða 7 km (eða meira),  þá fylgdu þessum ráðum. Með góðum undirbúningi, öryggissjónarmiðum og sterkum aðstoðarmönnum geturðu flutt búin þín á milli staða, hvort sem það er stutt eða langt ferðalag.

 

 

Taktu þátt í byrjendahandbók okkar í býflugnarækt til að fá frekari sérfræðiráðgjöf !

 

Hafa samband