VETRUN BÝFLUGNA

 

Grein eftir Barböru Dittmar, Höllustöðum, 29.11.2022

Ég var beðin um að deila hér aðferðinni og reynslu okkar fyrir vertrun býflugna. Ég sótti námskeiðið býræktarfélagssins Bý veturinn 2015 og fengum við þá um sumarið fyrsta búið okkar á Höllustöðum. Aðferð vetrunar hefur lítið breyst hjá okkur síðan þá og hefur okkur tekist vel að halda búum lifandi og jafnvel sterkum yfir veturna.

Fyrst og fremst held ég að staðsetningin sé eitt það mikilvægasta varðandi árangurinn í býflugnarækt. Býbændur hafa nú frekar lítið val um það hvar á landi þeir eru með sín búin en þar erum við einstaklega heppin því Blöndudalurinn er mjög veðursæll. En við fundum einnig á landareigninni okkar mjög heppilegan stað með mjög góðu skjóli fyrir búin okkar. Búin eru neðst í brekku vaxin skógi. Þannig alveg varin fyrir veðrinu úr norðri og vestri. Fyrir framan búin í u.þ.b. 15 m fjarlægð eru tveir litlir hólar sem verja fyrir mesta vindinum úr suðri og suðaustri. Samt er sól beint á búin mest allan daginn yfir sumarið. Ef maður er ekki eins heppinn að finna gott náttúrulegt skjól, þarf að útbúa skjól. Einnig getur metri til eða frá skipt sköpum eins og sýndi sig best hjá okkur í storminum í desember 2019. Búin okkar sluppu alveg heil en metra framar eða metra lengra í vestur og þau hefðu fokið í strengnum sem felldi þó nokkuð mörg tré í skóginum.

Hunangstaka fer fram í síðasta lagi 20. Ágúst og er bara tekið hunang úr fjórða og (ef hann er til) fimmta kassa. Í neðri þremur kössum er hvort sem er blandað fóður úr sykurvatni og hunangi. Strax að loknu hunangstöku er sett á fóðurtrogið og gefið sykurvatn hvort sem að flugurnar eru enn að sækja frjó út í náttúrunni eða ekki. Þetta ætti að gefa þeim nægan tíma að fylla forðabúrið fyrir veturinn þó að haustið gæti verið kalt og veturinn byrjað snemma. Einnig gefum við þeim frjódeig til að hvetja drottninguna til þess að halda áfram að verpa sem lengst. Í blautu og köldu sumri eins og t.d. núna 2022 tókum við hunangið í byrjun Ágúst og byrjuðum strax að fóðra.Fjórða kassanum er skilað strax með annaðhvort óútbyggðum eða tómum útbyggðum römmum. Ef búið var á 5 kössum biðum við yfirleitt með það að setja fimmta kassann aftur á ef hann verður settur á aftur yfir höfuð. Fer eftir stærð búsins og hvað þær eru fljótar að fylla fjórða kassa.

Við fóðrum eins lengi og það er umferð upp í fóðurtrogið. Eftir því hvenær flugurnar hætta að sækja sykurvatn upp í fóðurtrogið er búið gert klárt fyrir veturinn. Núna til dæmis 2022 voru 3 bú gerð klár fyrir veturinn í byrjun Október og 2 bú ekki fyrir en tveimur vikum seinna. Einn góðan veðurdag í september eru búin opnuð í síðasta skipti fyrir veturinn. Þá minnkum við plássið hjá þeim til að auðvelda þeim að halda híta. Yfirleit vetrum við á þremur kössum. Af og til er lítið bú sem er bara á tveimur kössum. Oft eru enn tómir rammar í neðsta kassanum við síðustu skoðun og skiptum við þá út fullum römmum úr fjórða kassanum sem er tekið frá eða fullum römmum sem hafa verið teknir um vorið. Eða jafnvel fullum römmum úr þriðja kassanum og sett útbyggðir þar í stað þar sem þær eru oft duglegri að fylla efri kassana. Það má samt passa sig að skilja eftir ramma með frjókornum þó að það sé engin vigt í þeim.

Þegar umferð er hætt og fóðurtrogin tekin er búið ekki opnað aftur og reynt að trufla sem minnst. Fóðurstaða er hægt að meta með því að lyfta undir heila búið öðru megin. Við höfum aldrei lent í því að það hefði ekki verið nóg fóður en ef manni finnst það við vetrun, þá eru nokkrar aðferðir til til að setja auka sykurforða í búin en það verður að vera frekar þurrt fóður og ekki sykurvatn annars verður of rakt í búinu. Fóðurtrogi verður að taka fyrir veturinn til að halda híta. 

Við vetrum eins og ég hef nefnt hér áður á þremur kössum. Ofan á þá þrjá kassa kemur einangrunarkassi. Inn í honum er strigi klipptur úr kaffipoka strekktur og festur með heftibyssu. Það má passa sig að festa pokann inn í kassanum ekki undir kantinn því þannig gæti raki komist inn í búið. Kassinn er síðan fylltur til helmings með lausum, grófum og alveg þurrum spænir. Ofan á spóninn er sett hrá ull beint af kindinni. Við vetrun tökum við fóðurtrogið af, setum svo einangrunarkassann snögglega á og drögum síðan plastplötuna varlega út. Þannig er búið aldrei alveg opið og röskun á því lítil. Ofan á kantana á einangrunarkassanum eru settar tveir listar úr plastefni ca. 5mm þykkar til að fá smá loftun undir þakið. Síðan er þakið sett á. Flugopið er alveg opið og botnplatan tekin úr þannig að búið stendur á netbotni. Við vefjum tjörupappa utan um búið og bindum hann fastan með tveimur til þremur böndum. Þannig tollir hann en er samt það laus að raki getur runnið niður. Hann kemur í veg fyrir það að vindurinn getur blásið inn á milli kassa. Búin eru síðan ströppuð niður með tveimur ströppum. Þann sem er allt sumarið og síðan einn auka.

Í byrjun smíðuðum við grind með músaneti utan um botninn sem náði upp fyrir flugopið, en svo kom í ljós að mýsnar eru upp í rúllustæðu og ekkert vandamál í búunum hjá okkur.

Síðan biðum við spennt eftir vori 

Vorskoðun fer fram frekar seint hjá okkur. Ef það er rosalega gott veður í Apríl, þá er hugsanlega skipt um botn, sett botnplata í og tekið einangrunarkassi og tjörupappi. En oftar en ekki er þetta ekki gert fyrir en í Maí og búin opnuð fyrir fyrstu skoðun í lok Maí. Þá er búið minnkað ef þörf er á og fóðurtrogið sett á. Og þannig byrjar aftur sumarið.

Hafa samband