Býflugur.is
Ritger­ir

 

Menntaskólinn Hraðbraut -Kristín Alísa Eiríksdóttir
Býflugnarækt á sér fremur stutta sögu hér á landi, eða um 8 ár samkvæmt heimasíðu býflugnabóndans Egils Rafns Sigurgeirssonar.  Þessi tími virkar sem einn dagur í sögu býflugnaræktar í heiminum, en talið er að býflugnarækt sé ein elsta búgrein manna.  Þetta kom eitt sinn fram í  Fréttablaðinu, en þar stóð að menn hefðu byrjað að stunda býflugnarækt fyrir um 2000 árum fyrir KRIST.  Vísindamenn hafa þó sannað að fornmaðurinn hafi reglulega notfært sér hunang býflugna þegar hann komst yfir það. 
Býflugur eru gífurlega skipulagðar skepnur.  Þær hafa löngum verið lofaðar fyrir mikinn aga og traust innan samfélags þeirra, sem er býflugnabúið.  Í hverju búi er ein drottning sem stjórnar allri starfsemi búsins.  Helstu hlutverk drottningarinnar er að fjölga flugunum í búinu og að stjórna vinnuflugum sem kallaðar eru þernur.  Vinnubýflugurnar, eða þernurnar bera nafn með réttu því þær eru stanslaust vinnandi yfir sumartímann.  Þær sjá um að afla fæðu og hreinsa búið, en þær eru ávalt mjög snyrtilegar,”[1] segir Þorsteinn Sigmundsson, býflugnabóndi við Elliðavatn.   Einnig talaði hann um karkynsflugurnar, sem eru mjög fáar í hverju búi.  Þær kallast druntar og þeirra eina hlutverk er að frjóvga egg drottningarinnar, en að því loknu deyja þær og þernurnar bera líkama þeirra út úr búinu.  Þorsteinn sagði einnig: “ Stéttaskiptingin er því mjög skýr hjá flugunum,  drottning efst, þernurnar í miðjunni og svo koma druntarnir, en þeir eru lægst settir”.
Ástæða þess að Íslendingar byrjuðu svo seint ræktun býflugna er skilyrðislaust sú hve veðráttan getur verið slæm hér.  Veturnir eru býflugunum sérstaklega slæmir því ef þær eru ekki rétt meðhöndlaðar að hausti eru miklar líkur á því að þær lifi ekki kaldann veturinn af.  Ræktunin hér á landi er því nær enn þá á tilraunastigi en þessum fáu býflugnabændum sem eru á landinu gengur samt vel og vonast þeir eftir því að fleiri taki upp iðjuna á komandi árum.
Erlendis er algengt að býflugur séu villtar í skógum, en þær eru þekkt skógardýr.  Hér á landi, eins og í öðrum Norðurlöndum, hafa bændur komist upp á lagið með að nota tilbúin bú úr plasti eða timbri. [2]   Búin eru kassalaga og verndar það innviði búsins fyrir veðrum og vindum.  “Innan í plast- eða timburkössunum er svo sjálft búið sem er saman sett af nokkrum vaxrömmum, þar hafa býflugurnar komið sér upp aðstöðu þar sem lirfur geta klakist út og þær geymt hunang,” “Vaxrammarnir eru byggðir upp af ótrúlega mörgum sexhyrndum hólfum sem þernurnar búa til úr vaxi.” Hvert hólf er á stærð við eina flugu (15 – 19 mm) [3] eða örlítið stærra, en þau eru alltaf einslaga og nákvæmlega jafn stór.  Þar geyma býflugurnar hunangið,en þar eru einnig uppeldisstöðvar lifra.
Býflugur eru stanslaust vinnandi, en vinna þeirra felst í fæðuöflun og uppbyggingu búsins.  Býflugnabóndinn Þorsteinn segir að ástæðan fyrir þessari óstöðvandi fæðuöflun sé sú að þær safna sér forða fyrir veturinn.  “Þær fara sem sagt ekki í dvala eins og sum skordýr heldur eru þær vakandi allan veturinn í búinu,” segir hann.  Býflugurnar sækja sér aðallega forða í blóm og plöntur eins og fífla, beitilyng, sigurskúf, blóðberg og hvít blóm smárans, enda leggur oft sætan blómailm frá hunangi þeirra.[4]  Hunangið vinna þernurnar úr blómasafa sem þær safna er þær fljúga á milli blóma og annarra plantna, þær koma því svo fyrir í sexhyrndu hólfunum í vaxrömmunum og að lokum loka þær fyrir hólfin með þunnri vaxhúð. Býflugnabændurnir vinna svo hunangið úr hólfunum með því að fletta vaxhúðinni hægt og rólega ofan af.  Það getur verið mjög áhugavert að fylgjast með þessari vinnu bændanna því þegar búið er að fletta vaxinu ofan af hunanginu eru rammarnir (þar sem hunangið er geymt)  settir í sérstaka handknúna vél.  Þessi vél kallast slengivél eða skilvinda og snýr hún römmunum í hringi svo að hunangið leki úr vaxrömmunum, en hægt er að setja þá aftur í búið. [5]
Maður gæti haldið að býflugnabændurnir eyðileggi vetrarforða býflugnanna með hunangstökunni, en svo er ekki.  Hver bóndi tekur aðeins um 10 – 15 % af hunangsframleiðslu hvers bús og í staðinn fyrir hunangið sem hann tekur lætur hann flugurnar fá sykurvatn sem þær geta unnið úr.  Þrátt fyrir þetta getur hver bóndi fengið ótrúlegt magn út úr einu búi á ári, en hvert bú getur skilað bónda um 10 – 50 kg á ári. T.d. fékk býflugnabóndinn Þorsteinn Sigmundsson um 20 - 30 kíló af hunangi sumarið 2006, en hann er með 3 bú upp við Elliðavatn.[6]
Störf býflugnabænda eru margvísleg og áhugaverð.  Félag þeirra, Býflugnaræktendafélag Íslands, sem er oftast í daglegu tali kallað BÝ var stofnað árið 2000 af 8 áhugamönnum.  Einn helsti frumkvöðull og stofnandi félagsins var og er Egill Rafn Sigurgeirsson[7], en hann hefur lagt mikið kapp á að stunda býflugnarækt upp við Elliðavatn í um 8 ár.  Ræktunin gekk frekar brösuglega í byrjun, en smátt og smátt lagaði hann sig að aðstæðum og fékk fleiri í lið með sér.  Gengur nú starfsemin vel, eru félagar BÝ orðnir 18 talsins og þar af 10 sem stunda ræktunina af miklum áhuga.  Þetta duglega fólk er stundum kallað “Suðarar”[8], en þau hafa unnið hörðum höndum við að halda búum sínum lifandi síðast liðin ár.  Það getur reynst þeim mjög erfitt yfir kaldann vetrartímann, þá sérstaklega ef búin eru lítil.
Í raun má, eftir þessa stuttu frásögn af býflugnarækt og hunangsgerð á Íslandi dást af því hve miklir dugnaðarforkar þessir fáu íslensku býflugnabændur eru.  Þeir standa saman, hjálpa hver öðrum þegar á móti blæs og þótt tilraunir þeirra misheppnist gefast þeir ekki upp.  Þeir halda heldur bjartsýnir áfram og von þeirra um að býflugnarækt á Íslandi styrkist og verði meiri deyr aldrei.
 
  
Heimildaskrá
 
·         Íslenska alfræði orðabókin, A-G. Bls 233. Örn og Örlygur, 1990
·         Síða Rúnars Óskarssonar um býflugnarækt.  http://www.heimsnet.is/cranio/by_index.htm
·         Síða Egils Rafns Sigurgeirssonar                       http://frontpage.simnet.is/egillrs/index.htm
·         Viðtal við Þorstein Sigmundsson í Elliðahvammi
·         Viðtal í gegnum tölvupóst við Egil Rafn Sigurgeirsson

 
[1] Viðtal við Þorstein Sigmundsson Býflugnabónda
[3] Íslenska alfræðiorðabókin, A-G. Bls 233. örn og Örlygur, 1990
[5] Upplýsingar sem ég aflaði mér eftir að hafa fylgst og tekið þátt í störfum Þorsteins Sigmundssonar
[6] Upplýsingar frá Þorsteini Sigmundssyni
[8] http://frontpage.simnet.is/egillrs/felagatal.htm - og upplýsingar frá Þorsteini Sigmundssyni.
 
 
 
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti                                                                    Haust 2005
 
 
 
Magnús Gísli Ingibergsson
LÍF 3036
  
Býflugur
 
  
Kennarar:
Eiríkur Jensson
Og
Hilmar J. Hauksson
 
Efnisyfirlit
Uppruni býflugna...................................................................................................................  3
Tegundirnar...........................................................................................................................  4
Bústaðurinn...........................................................................................................................  6
Samfélagið............................................................................................................................  7
Búferlaflutningar..................................................................................................................... 8
Forðasöfnun........................................................................................................................  10
Býflugnadansinn...................................................................................................................  11
Aðdáunarverðar skepnur.....................................................................................................  13
Heimildaskrá.......................................................................................................................  14

 
 
 
 
 
Uppruna býflugna má rekja langt aftur fyrir daga mannsins. Talið er að fyrir um 100 milljónum ára hafi myndast einhverskonar samfélag býflugna, sem líktust ættinni Apis, sem þróuðust samhliða blómstrandi plöntutegundum. Víða hafa fundist steingerðar leifar býflugna sem taldar eru vera allt að 50 milljón ára gamlar, en þær líkjast býflugum nútímans töluvert en eru þó útdauð tegund. Þróun býflugna hélt áfram á trópísku svæðunum í Asíu og fram komu tvær tegundir Apis, Apis dorsata og Apis florea. Seinna komu fram tegundirnar Apis cerana og Apis mellifera sem byggðu mun þróaðri bú en hinar tegundirnar. Fyrir um 1 milljón ára er talið að þær hafi þróað þann hæfileika að geta lifað með hitasveiflum milli vetrar og sumars og mynduðu vetrarklasa til þess. Apis mellifera tileinkaði sér best þann hæfileika að aðlaga sig breytilegum aðstæðum og dreifði sér því vestur til kaldari svæða. Apis mellifera er nú til í öllum heimsálfum jarðarinnar fyrir utan Antarktis fyrir tilstuðlun mannsins.
            Maðurinn hefur lengi velt fyrir sér þessum furðulegu en um leið aðdáunarverðu skepnum. Það er margt sem maðurinn hefur komist að um býflugurnar á þessum langa tíma en það er líka margt sem ekki liggur enn ljóst fyrir. En hér verður fjallað um samfélag býflugnanna bæði með tilliti til tegundanna innan stofnsins sem og samfélagsins í heild sinni.
 
 
Text Box:  
Samfélag býflugnanna er merkilegt. Tegundirnar sem lifa í búinu eru þrjár, þ.e. drottning, þernur og druntar. Þernurnar eru vinnuflugur búsins en þær eru kvenkyns líkt og drottningin. Það er aðeins ein drottning í hverju búi en meginhlutverk hennar er að verpa eggjum. Þróun hennar hefur verið þannig að hún hefur misst hæfileikann til að sjá sjálf um eggin, þ.e. veita þeim heimili og fæðu, það er algjörlega í höndum þernanna. En drottningin stjórnar líka búinu. Það gerir hún með efni sem kallast Feromen en það er hormón sem hefur mikil áhrif á hegðun og þroska þernanna. Býflugur búsins verða stressað eftir u.þ.b. einnar klukkustundar fjarveru drottningar. Drottning getur verpt milli 175 og 200 þúsund eggjum árlega en það er aðeins í stórum, vel búnum búum. Varp drottningarinnar stjórnast alveg af því hversu mikið þernurnar færa henni af fæðu. Þernurnar færa drottningunni mikla fæðu ef henni er ætlað að verpa mikið en þá verður drottningin líka stór og hefur minni hreyfigetu. En þegar flugurnar ákveða að flytjast í nýtt bú, sverma, er drottningunni gefin minni fæða svo hún verði léttari og geti flust ásamt stórum hluta flugnanna og myndað nýtt bú. Meðallíftími drottninga eru um eitt til þrjú ár en til eru dæmi um að drottningar hafi lifað í átta ár. Þernurnar eru langflestar í búinu og geta farið allt upp í áttatíu þúsund í einu búi, en venjulega eru þær um nokkur þúsund. Það fer mikið eftir gæðum drottningarinnar hversu margar þernurnar verða. Verkaskipting þernanna í búinu er aldursskipt þar sem yngstu þernurnar eru mest inni í búinu að sjá um að hreinsa hólfin, þær næst yngstu sjá um að fæða ungviðið og drottninguna, næsti aldursflokkur þar á eftir sér um að byggja úr vaxi, taka við hunangi sem kemur inn í búið og tekur til í búinu á meðan þær elstu sjá um að loftræsa, verja búið og safna inn blómasafa, frjókorni og vatni. Þær elstu geta þó séð um flest störf búsins ef með þarf. Druntarnir eru karlkyns og hafa það eitt hlutverk að eðla sig við drottninguna en við það missa þeir getnaðarlim sinn og deyja, en það eru aðeins örfáir druntar sem eðla sig því druntarnir eru eðlilega mun fleiri en drottningin í hverju búi. Á haustin eru þeir reknir úr búinu af þernunum sem þá eru að undirbúa búið fyrir veturinn og druntarnir deyja við það. Ef plássleysi myndast innan búsins er druntunum oft sparkað út sem leiðir þá oftast til dauða þeirra ef þeir finna sér ekki nýtt bú til að dveljast í. Meðallíftími drunta eru aðeins 21 – 32 dagar. En druntarnir eru þó nauðsynlegir búinu til að viðhalda stöðugleika og öryggis innan búsins.
Text Box:  
            Allar tegundirnar fara í gegnum fjögur stig þroska, þ.e. egg, lirfa, púpa og fullþroska fluga. En egg drottningar hefur möguleika til að verða að hvaða tegund sem er þernu, drunti eða drottningu. Ófrjó egg verða að drunti en frjó egg geta orðið hvort sem er drottning eða þerna. Drottingin ákveður að verpa eggjum sínum í hólf innan búsins sem þernurnar hafa búið til úr vaxi en þessum hólfum má skipta í þrennt, þ.e. druntahólf og þernuhólf sem eru sexhyrningslaga en munurinn á þeim er sá að druntahólfin eru stærri, og einnig drottningarhólf sem eru ekki í laginu eins og hin heldur hringlaga og má líkja þeim við fingurbjörg. Drottningahólfin hanga niður, en drunta- og þernuhólfin liggja  lárétt. Drottningin verpir ófrjóu eggjunum í druntahólf en þeim frjóu í þernu- og drottningarhólf. Það er enn ekki vitað hvernig drottningin fer að þessu en líklegasta kenningin er sú að þegar hún verpir í druntahólf þá þrýstist ekki sæðið með egginu vegna þess hve vítt hólfið er og þess vegna verða druntarnir eingetnir, þ.e. hafa allan sinn erfðamassa frá drottningunni. En þernurnar fá erfðamassa sinn bæði frá drottningunni og sæði druntanna sem eðla sig við drottninguna. Á lirfustigi ákveðst hvort hún verði að þernu eða drottningu en það ákvarðast af gæðum fæðunnar sem lirfan fær. Allar lirfur fá fæðu sem kallast royal jelly, en það er fóður af bestu gerð sem hvetur til þroska nýrrar drottningar. Aðeins drottningalirfan heldur áfram á þessari fæðu en hinar lirfurnar fá hana aðeins í tvo til þrjá daga.
            Egg klekst út á þriðja degi eftir að drottning verpir því svo það límist við botn hólfsins. Þá tekur við mikið áttímabil á meðan flugan er á lirfustigi því henni er þá ætlað að vaxa hratt. Lirfan étur þá fæðu sem þernurnar færa henni, svokallaða býflugnamjólk,  og púpast svo eftir um fjóra til sex daga á lirfustigi. Þá byggja þernurnar vaxlok yfir hólfið og eftir u.þ.b. tuttugu og einn dag (þó mismunandi eftir kyni) frá varpi étur flugan sig út úr hólfinu, þá orðin að fullvaxta flugu, eftir að hafa gengið í gegnum miklar breytingar á púpustigi.
 
Áður en fjallað verður meira um samfélag býflugnanna er nauðsynlegt að skoða aðeins betur aðstæðurnar sem býflugurnar búa við, þ.e. heimili þeirra. Eðlilegur bústaður býflugna er holur tréstokkur, holt tré eða útrými í klettum. Ytra lag búsins er valið eftir gæðum þess til að verja búið fyrir hinum ýmsu ytri áreitum t.d. veðri, vindi og rándýrum. Inni í búinu er svo vaxkaka sem er ætluð sem uppeldisstöð og til hunangsgeymslu,
Vaxkökur býflugnabúa eru byggðar upp úr býflugnavaxi sem þernurnar framleiða. Þær gera það með átta vaxkirtlum sem staðsettir eru undir afturbolnum á þeim. Þegar vax vantar í búin fara þernurnar út og safna hunangi og frjókornadufti. Eftir það fara þernurnar í nokkurskonar klasa sem myndar hærra hitastig sem veldur því að vaxkirtlarnir byrja að framleiða vax. Vaxið dælist þá í átta poka undir kirtlunum og þar verður vaxið að átta litlum, hálfgegnsæum og hvítum kökum. Þaðan eru þessar litlu vaxkökur færðar upp í munninn á flugunum þar sem þær eru unnar og meðhöndlaðar eftir þörfum hvert skipti.
            Vaxkökurnar samanstanda af sexhyrningslaga hólfum sem áður hefur verið fjallað um. Tvær gerðir eru af þessum hólfum, druntahólf og þernuhólf en druntahólfin eru stærri. Vaxkakan er byggð upp sitthvoru megin við lóðrétt skilrúm í miðju búsins, sem kallast á enskri tungu "the septum". Bæði drunta- og þernuhólfin eru notuð til geymslu á hunangi en veggir hólfanna eru mjög fíngerðir. Þó er einhverskonar þykkildi ofan við hólfin til styrkingar. Nýlegt vax bús er nokkurn veginn hvítt á litinn en gulnar með tímanum þegar það er varðveitt og styrkt með propolis, eða býflugnalími. Eftir að nýr stofn hefur verið ræktaður innan vaxkökunnar verða þessi svæði brún að lit og verða síðan dekkri og dekkri. Gömul bú verða oft nánast svört á litinn.
 
Nú þegar fjallað hefur verið um tegundirnar hverja fyrir sig og lítillega fjallað um búið er nauðsynlegt að skoða samfélag býflugnanna betur og hvernig flugurnar vinna saman sem ein heild innan búsins til þess að átta okkur betur á vinnu þeirra í búinu. Það er þannig sem býflugnaræktandi lýtur á býflugurnar sínar, sem eina heild frekar en fjölda einstaklinga sem hver fyrir sig vinna aðeins lítinn hluta vinnunnar sem fram fer í búinu.
            Áður kom fram að býflugurnar eiga uppruna sinn að rekja frá trópískum svæðum og hafa seinna aðlagast vetrarsveiflum annarra heimshluta en það er mjög áhugavert viðfangsefni að athuga hvernig býflugurnar fara að því að lifa af kalda vetur. Blóm framleiða lítinn eða engan forða fyrir flugurnar mjög lengi og því þurfa flugurnar að lifa af þann langa tíma á forða undanfarins tímabils þegar hann er nægur. Það tímabil er þó svo stutt víðs vegar, t.d. á Íslandi, að flugurnar bera inn allan vetrarforðann á mjög stuttum tíma. En svo að þetta gangi þarf fleira að spila inní hjá flugunum.
Flugurnar hafa þróað hæfileikann til að halda stærð búsins hæfilegri miðað við nægð forðans. Augljóslega þá verður fjöldi flugnanna að vera hærri á sumrin heldur en veturna þegar forðinn er af skornum skammti. Þess vega eru druntarnir reknir úr búinu fyrir veturinn. Samhliða þessari þróun er réttast að líta á varp drottningarinnar sem er líklegt að hefjist snemma í janúar. En í apríl mánuði tekur varpið skyndilega mikinn kipp og stendur yfir allan mánuðinn og jafnvel langt fram í maí mánuð. Því verður fjölgun ungviðis hlutfallslega töluvert meiri en fjölgun fullorðna býflugna lengi vel en tekur svo að jafnast og um mitt sumar minnkar fjölgun ungviðis mikið en fjölgun fullorðnu flugnanna heldur áfram langt fram á sumar. Skyndilega stöðvast fjölgun flugna í búinu og í lok júní byrja flugurnar að safna forða fyrir veturinn.
Flóran virðist spila mjög vel inní þetta skipulag flugnanna því snemma sumars fá flugurnar þá næringu fá blómunum sem þær þurfa fyrir ungviði sín en síðla sumars hentar næringin betur fyrir vetrarforðann. Það er því mikilvægt fyrir flugurnar að eiga nægan forða fyrir veturinn þangað til þær geta farið aftur út í náttúruna til að sækja hunang því annars getur búið svelt til dauða. Það gerist oft þar sem býflugnaræktandi fylgist ekki nógu vel með nægju búsins.
Einnig ber að nefna það sem áður kom fram um það hvernig þernurnar hækka í tign eftir aldri. Það er eitthvað í eðli þeirra sem gerir það að völdum að þernurnar skipta með sér verkum sem skilar sér í mjög skipulagðara samfélagi og vinnu til að lifa af í náttúrunni.
 
Það er þekkt fyrirbrigði að í stóru búi vilji hluti býflugnanna sverma, þ.e. flytjast í nýtt bú á nýjum stað. Þetta hefur að sjálfsögðu verið mjög mikilvægur þáttur í þróun býflugunnar og aðlögun að nýjum og breyttum svæðum. Þess vegna er vert að athuga betur þetta fyrirbrigði og velta fyrir sér ástæðunum og hvernig býflugurnar fara að þessu.
            Til þess að þetta geti átt sér stað þarf drottning að fara af stað úr gamla búinu með hópi þerna til að byggja og vinna í búinu. Það er því nauðsynlegt fyrir býflugurnar að ala upp drottningar í búinu sínu til þess að stofninn lifi áfram. Það sem hefur ekki komið fram hér áður um drottningahólfin er það að þau eru ekki alltaf til staðar í búinu heldur myndast þau þegar annaðhvort þarf að endurnýja drottningu búsins eða að hluti búsins þurfi að sverma. Það þarf því að vera hvati af einhverju tagi til staðar til að þernurnar búi til þessi hólf fyrir drottningarnar að verpa í. Vott af þessum búum má sjá eftir um tuttugu og fjögurra klukkustuna fjarveru drottningarinnar.
Áður hefur verið fjallað um hormónið sem drottningin gefur frá sér sem kallast Feromen, en það gegnir lykilhlutverki í þessu tilviki. Þernurnar sleikja drottninguna til að fá þetta efni frá henni og dreifa því svo um bú með hjálp næringarforðans. Þerna sem fær meira en aðeins örlítinn skammt af þessu efni úr matnum sínum er sjálfkrafa hindruð í að framleiða drottningahólf. En þegar drottningin eldist minnkar um leið framleiðni hennar á þessu efni og þar með fá þernurnar minna og minna af þessu efni í fæðuna sem endar með því að þær byrja að framleiða drottningahólfin eða leifa hólfum á byrjunarstigi sem innihalda egg að þroskast. Það er önnur leið til að þessi hindrun hverfi. Þegar bú stækkar mjög hratt og yfirfyllist þá verður magnið af Feromen sem berst með fæðunni svo lítið á hvern einstakling innan búsins að fljótlega byrja þernurnar að framleiða drottningarhólf rétt eins og í fyrra tilfellinu.
            Þegar byrjað hefur verið að framleiða drottningahólfin ákveða býflugur búsins á einhvern hátt hvort þær sverma, endurnýja drottninguna eða jafnvel hætta við alltsaman og drepa innihald hólfanna. Það er mismunandi eftir aðstæðum, bæði milli landa og einnig veðráttu hvers tímabils fyrir sig, hvenær býflugurnar ákveða að sverma. Þar sem blómstrun á sér stað snemma geta býflugurnar ákveðið að sverma mjög snemma, t.a.m. í apríl en þar sem ekki blómstrar snemma ákveða flugurnar að sverma seinna, eða jafnvel í júlí.
            Þegar gömul drottning ákveður að sverma fer aðeins lítill hluti búsins með henni og þess vegna virkar það magn Feromens sem hún framleiðir til að hindra þernurnar í að gera drottningahólf í nýja búinu þar sem magn efnisins er mun meira á hverja býflugu en áður. Í búinu sem gamla drottningin yfirgaf er hinsvegar tekin við ný og ung drottning sem framleiðir svo mikið af Feromen að það nær að hindra allar þernurnar í að gera drottningahólf. En ekki líður á löngu þar til gamla drottningin er aftur farin að framleiða of lítið af efninu og þá er ekki langt í að endurnýjun eigi sér stað í því búi.
Text Box: Hér sést mjög gott dæmi um neyðardrottningahólf sem hefur verið gert ofan á venjulegt þernuhólf
              Venjuleg drottningahólf eru gerð af þernunum fyrir drottninguna til að verpa í seinna. En það getur komið fyrir að býflugnaræktandinn drepi óvart drottninguna við meðhöndlun og þá er ólíklegt að drottningin sé búin að verpa í drottningahólf. Þá gera þernurnar svokölluð neyðar-drottningahólf. Þau gera þernurnar með því að breyta venjulegum þernuhólfum sem innihalda venjulega þernulirfu. Þær fylla hólfið með royal jelly þannig að lirfan flýtur við brúnina á hólfinu. Þá móta þær drottningahólf yfir hinu hólfinu þannig að lirfan er í réttri staðsetningu í nýja hólfinu. Niðurstaðan af þessu er yfirleitt góð drottning en það getur komið fyrir að þernurnar velji of gamla lirfu sem þá verður að drottningu sem þykir ekki nógu góð að sumu leiti.
            Feromen efnið hefur líka áhrif á eggjakerfi þernanna, en þær eru fullkomlega hæfar til að verpa eggjum en aðeins í fjarveru drottningarinnar því efnið hindrar eggjakerfi þernanna í að verpa. Í fjarveru drottningarinnar geta þernurnar semsagt verpt eggjum en þær geta ekki eðlað sig við druntanna svo eggin eru alltaf ófrjóvguð druntaegg. Útkoman verður smávaxinn druntur því þernurnar verpa aðeins eggjunum í þernuhólfin.
            Það er fleira sem þetta efni, Feromen, getur stjórnað í samskiptum býflugna. T.a.m. þegar býflugur eru að sverma þá heldur efnið hópnum saman, en ef drottningin yfirgefur hópinn þá snýr hópurinn til baka í gamla búið. Einnig er það þekkt að þegar að býfluga stingur gefur hún frá sér einhverskonar Feromen sem laðar að fleiri flugur til að stinga á sama stað. Þetta er gott dæmi um hið margþróaða varnarkerfi býflugnanna.
 
Eins og fjallað var um áður þá sinna þernurnar búverkum fyrri hluta ævi sinnar en þann seinni eru þær meira úti til að safna forða fyrir búið. Það er fernt sem þær þurfa að safna inn í búið, þ.e. blómasafa, frjókornum, propolis og vatni.
Blómasafinn er sykur, vatn og fleiri efni í litlum skömmtum sem flugurnar safna úr blómum og færa í búið í hunangsmaganum, sem er frábrugðinn maganum sem þeir nota til að melta matinn sinn. Býflugurnar geta fært litla skammta hunangs á milli maganna. Hunangsmaginn er aðeins notaður til að geyma forða, í styttri eða lengri tíma. Þar taka aðrar flugur við blómasafanum með því að sjúga hann upp úr maganum á hinni(Egill ; sú sem kemur í búið gefur frá sér nektardropann) og vinna þannig úr safanum. Frjókornin, sem einnig er safnað úr blómum, færa býflugunum það prótein og vítamín sem þær þurfa. Frjókornunum safna flugurnar saman á afturfóta sína og fara með það þannig inn í búið sitt. Propolis er, eins og áður hefur komið fram, svokallað býflugnalím. Propolis fá býflugurnar úr blómknöppum plantna er efnið nota þær til að líma ýmislegt sem er laust í búinu, fylla í holur og til að varðveita og styrkja vaxkökuna. Propolis er flutt á sama hátt og frjókornin en hægt er að greina muninn því propolis glansar mjög mikið á meðan yfirborð frjókornanna er mun mattara. Vatn er nauðsynlegt býflugunum til að þynna hunangið og einnig til að kæla búið þegar hiti er mikill.
            Öllum þessum hlutum er safnað inn í búið til að svara nauðsynjum hvers tíma fyrir utan blómasafann sem er safnað saman til geymslu. Hvorki vatn né propolis er geymt á nokkurn hátt innan búsins(Egill:er þó kítti búsins og til í nægjanlegu magni ef þarf að nota annarstaðar) en frjókornum er þó safnað innan búsins en ekki í stórum skömmtum.
            Ef litið er á ferli þessara efna með tilliti til samfélagsins í heild þá sést glögglega að ferlið heldur áfram stöðugt. Snemma sumars þegar plöntur í kringum búið hafa ekki enn blómstrað sækja býflugurnar mikið í vatn nálægt búinu til að þynna hunangið sem fyrir er í búinu. Þannig nota þær forðann sem þær hafa til að þrauka síðustu daga vetrar. Þegar plönturnar fara að blómstra og blómasafi myndast fækkar vatnsberum og þernurnar byrja að sækja blómasafann. Þegar blómasafamyndun plantna nær hámarki geta flugurnar ekki lengur geymt forðann í hunangsmaganum og þá byrja þernurnar að safna blómasafanum í hólfin. Um þetta leiti er nánast engin þörf lengur fyrir vatnsberana og þeir algjörlega farnir að sækja annaðhvort blómasafa eða frjókorn ú plöntum.
            Á veturna heldur áfram svipað ferli flugnanna en þá er að sjálfsögðu mun minni hreyfing á flugunum. Þynna verður hunangið á veturna svo býflugurnar nota hvert tækifæri til að fara út og ná í vatn. Ef vaxkakan er full af hunangi hjálpar það búinu við að halda á sér hita því hunangið virkar sem skjól(Egill; hitageymir) fyrir flugurnar fyrir skyndilegum hitasveiflum.
 
Samskipti býflugnanna eru liður sem vert er að skoða aðeins betur. Hvernig flugurnar tjá sig við hvora aðra og hvernig þær koma boðum á milli sýn um t.d. fjarlægðir góðra plantna.
 
Komast næst því allra skordýra að geta kallast skyni bornar, enda er heilabú þeirra það stærsta sem þekkist í þeim flokki. Vísindamenn kanna furðu lostnir atferli þeirra, hvernig þær geta miðlað flóknum hugtökum um vegalengdir, áttir og staðsetningu með merkjum, sem verka líkt og tal. Og samfélagsleg vandamál geta valdið flokkadráttum með þeim, sem líkjast stjórnmálum. Samt eru viðbrögð þeirra fremur talin stafa af eðlishneigð en sjálfstæðri hugsun.[1]
 
Svo segir í Stóru skordýrabók Fjölva en þetta er einmitt mjög athyglisverður punktur því þessi merki sem talað er um eru í raun frægur dans sem þernurnar dansa til að koma til skila upplýsingum um staðsetningu og fjarlægð plantna sem gefa af sér góðan forða. Býflugnadansinn fer þannig fram að þerna sem hefur fundið plöntu, sem gefur af sér góðan forða dansar, eða hleypur í mismunandi hringi eftir því hversu langt er í plöntuna. Hinar þernurnar hópast að henni og fylgjast með þessari einu þernu sem heldur þessu áfram í einhvern tíma. Þernurnar sem hópast að fá sýnishorn af blómasafanum eða finna lykt af frjókornunum á löppum flugunnar og flýta sér út til að reyna að finna plöntuna. Dansinn breytist eftir því sem vegalengdin í plöntuna verður lengri. Þegar hinar þernurnar hafa fundið plöntuna fara þær aftur í búið og dansa sama dans og sú fyrri. Eftir u.þ.b. tíu til fimmtán mínútur verður allt krökkt af leitandi býflugum innan leitarmarka.
            Þegar um lengri vegalengdir er að ræða verður dansinn að segja meira en fjarlægð plöntunnar. Þess vegna miða þær stefnu plöntunnar útfrá sólinni. Venjulega er dansinn fyrir langa vegalengd þannig að flugan hleypur í nokkurskonar áttu. En ef hún hleypur upp miðjuna á áttunni þá þýðir það að fljúga eygi í átt að sólinni en hinsvegar ef hún hleypur niður miðjuna á áttunni þá þýðir það að fljúga eygi í átt frá sólu.
            Því lengri tíma sem flugan tekur í dansinn og því færri dansar sem framkvæmdir eru á vissum tíma því lengra er í plöntuna. Flugan stöðvar annað slagið til að gefa sýnishorn af blómasafanum eða til að leyfa öðrum flugum að rannsaka frjókornin á löppum hennar. Flugurnar hafa þar með stefnuna til að fljúga í, fjarlægðina í forðann, hverskonar forða á að finna og lykt eða bragð af forðanum. En þá er auðvitað hægt að segja að sólin er alltaf á hreyfingu og stefna hennar breytist stöðugt, en býflugurnar gera ráð fyrir því og laga dansinn að hreyfingu sólarinnar og tímanum sem tekur að fljúga heim í búið áður en að hún getur byrjað að dansa. Þetta sýnir glögglega að býflugurnar hafa gott tímaskyn. Þegar flugur hafa aðlagað sig dansi sem leiðir þær að einni sérstakri blómategund leitast þær eftir að vinna aðeins úr þessu blómi það sem þær eiga eftir ólifað. (Egill: ef blómgun lýkur á td engi þurfa þær að finna önnur blóm til að sækja til en halda sig bara að einni tegund blóma og er það mjög mikilvægt fyrir frjóvgun þeirrar blómategunda) . En það eru jú ekki nema nokkrir dagar.
 
 
 
 
 
Aðdáunarverðar skepnur
Það ætti að vera orðið öllum sem lesið hafa þessa ritgerð nokkuð ljóst hversu magnað samfélag býflugnanna er. Verkaskipting og öll samskipti flugnanna eru alveg til fyrirmyndar og með ólíkindum að þessar litlu skepnur séu jafn gáfaðar og þær eru. Það sem vekur líka athygli er það hversu duglegar þær eru og þá ekki síst þær býflugur sem lifa yfir sumartímann sem í rauninni vinna sig í hel því það er staðreynd að sumar-flugurnar lifa mun styttur en vetrarflugurnar. Það er líka mjög áhugavert hvernig drottningin getur stjórnað búi með mörg þúsund býflugum í án þess að neytt fari úrskeiðis. En hér með líkur þessari svona nokkuð ítarlegu kynningu á samfélagi býflugna en ég vona að mér hafi á einhvern hátt tekist að vekja einhvern áhuga lesenda með ritgerðinni sem gæti þá jafnvel leitt til fjölgunar býflugnaræktenda hér á landi.
 
 
 
 
                                    17. nóvember 2005
 
 
Magnús Gísli Ingibergsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Draper's Super Bee Apiaries, Inc. 2005. Royal Jelly.
     Sótt 12. nóvember 2005.
 
 
Egill Rafn Sigurgeirsson. 2005, nóvember. Býflugur.
Sótt 4. nóvember 2005.
 
 
Egill Rafn Sigurgeirsson. 2005, nóvember. The Hive and The Honey bee.
Sótt 10. nóvember 2005.
 
 
Hooper, Ted. 1997. Guide to Bees and Honey. Marston House, Yeovil.
 
 
Lansing State Journal. 1997, júlí. How do bees make honey?
Sótt 12. nóvember 2005.
 
 
Morse, Roger A. 1994. The New Complete Guide to Beekeeping. The Countryman Press, Vermont.
 
 
Stanek, V.J. 1974. Stóra skordýrabók Fjölva. Fjölvi, Reykjavík.
 
 
Vivian, John. 1986. Keeping Bees. Williamson Publishing, Vermont.
 
 

 
[1] Stanek, V.J. 1974:174-175
Heimsóknir: 
Stjórnun