Greinar úr fjölmiðlum

HÉR KOMA HINAR ÝMSU ÁHUGAVERÐAR GREINAR FRÁ ÝMSUM FJÖLMIÐLUM OG AÐILUM. NÝJUSTU GREINARNAR KOMA ALLTAF EFST.

BÝFLUGNARÆKT OG GARÐYRKJA

Úlfur Óskarsson,

Landbúnaðarháskóla Íslands ulfur@lbhi.is

Á undanförnum árum hefur býflugnarækt fest sig í sessi á Íslandi. Um 90 manns stunda nú býflugnarækt hérlendis og fer ræktendum og býflugnabúum fjölgandi ár frá ári. Býflugnarækt er áhugamál og tómstundaiðja þeirra sem hana stunda, en ávinningurinn getur orðið umtalsverður því lunknir ræktendur geta búist við ágætri hunangstekju á góðu sumri. Þessi árangur er afrakstur af þotlausu starfi nokkurra einstaklinga sem stofnuðu Býflugnaræktarfélag Íslands (Bý) fyrir nærri einum og hálfum áratug síðan.

Í þessari grein verður minnst á nokkur atriði varðandi býflugur og ræktun þeirra, en fyrst og fremst er tilgangurinn að vekja athygli á tengslum garðyrkju og býflugnaræktar.

Býflugur

Býflugur (Apis spp) tilheyra ættbálki skordýra sem nefnist æðvængjur (Hymenoptera). Í þessum ættbálki eru margir stórir og útbreiddir hópar skordýra, svo sem maurar, geitungar og humlur (Bombus spp). Margar tegundir æðvængja búa í sérstökum samfélögum þar sem venjulega er eitt frjótt kvendýr (drottning) en urmull ófrjórra vinnudýra. Vinnudýrin eru dætur drottningarinnar og sjá um fæðuöflun, uppbyggingu búsins, uppeldi ungviðis og varnir. Býflugnasamfélög eru af þessum toga.

Margir hópar æðvængja eru mikilvægir frjóberar í náttúrunni og landbúnaði, þ.e. bera frjó milli plantna sömu tegundar og tryggja frævun þeirra, aldin- og fræmyndun.

Býflugur á Íslandi eru eingöngu í umsjón manna en lifa ekki villtar. Hins vegar finnast hér á landi fimm humlutegundir og fjórar geitungategundir og eru þær allar nema ein humlutegund nýlegir landnemar. Humlur hafa lengi verið nefndar hunangsflugur á íslensku en á ensku eru humlur kallaðar bumblebees og býflugur honeybees. Vegna þess að honeybees og hunangsflugur eru sitthvor flugnahópurinn er eðlilegt að þessi nöfn hafi skapað nokkurn rugling hérlendis. Útlitslega svipar býflugum meira til geitunga en humla og er þeim iðulega ruglað saman.

Bæði humlur og geitungar byggja mun minni bú en býflugur. Hjá humlum geta mest verið nokkur hundruð flugur í hverju búi en heldur fleiri hjá sumum geitungategundum. Hjá býflugum eru hins vegar tugir þúsunda flugna í hverju búi og geta þau orðið gríðarstór og þung. Hjá humlum og geitungum lifir aðeins drottningin af veturinn og fer hún í vetrardvala. Þetta er ólíkt býflugum þar sem þúsundir flugna lifa af veturinn í hverju búi án vetrardvala. Drottningin hjá humlum og geitungum er einær en hjá býflugum lifir drottningin í nokkur ár.

Þótt býflugur fari ekki í vetrardvala er lítil starfsemi í búunum yfir veturinn. Flugurnar hópa sig saman í vetrarklasa og halda þar á sér hita og nýta sér vetrarforðann, þ.e. hunangið, og fituforða líkamans sem orkugjafa. Strax og hlýna tekur og gróður lifnar snemma á vorin fara flugurnar að afla sér viðurværis utan búsins og drottningin fer að verpa og flugunum að fjölga. Yfir hásumarið er mesti fjöldinn í búinu, drottningin getur þá verpt allt að 2000 eggjum á dag þegar mest lætur, og vinnuflugurnar skipta mörgum tugum þúsunda, allt að 100.000 í búi. Hvert bú framleiðir einnig hundruðir frjórra karldýra, sem sjá um að frjóvga ungdrottningar úr öðrum búum. Ungdrottningar er aldar upp á sumrin og áður en þær klekjast er algengt að gamla drottningin flytji sig úr búinu ásamt stórum hluta vinnuflugnanna og stofni nýtt bú á nýjum stað. Þessi búferlaflutningur nefnist svermun.

Býflugnasamfélög þarfnast mikillar fæðu sem öll kemur úr jurtaríkinu, mest öll úr blómum. Frjókorn eru prótínfæða býflugna en blómasafi eða nektar er orkugjafinn. Hunangið sem býflugur búa til og safna í bú sín einkum til vetrarins er gert úr sykrum blómasafa.

Býflugnarækt

Býflugur upprunnar í Evrópu (Amellifera) eru nýttar til ræktunar víða um heim. Meðal annars er notaður evrópskur tegundablendingur sem varð til í Buckfast klaustrinu í Skotlandi í byrjun 20. aldar en býflugur hérlendis eru af þessum stofni. Þessi blendingur er á margan hátt þægilegur í umgengni og talinn ekki eins árásarhneigður og svermgjarn og margir náttúrulegir stofnar. Flugurnar sem hafa verið fluttar til landsins undanfarin ár koma frá Álandseyjum en þar hefur tekist að halda býflugunum lausum við flesta sjúkdóma og sníkjudýr sem herja á býflugur um allan heim. Þetta val á upprunastað flugnanna lýsir mikilli fyrirhyggju en heilbrigði flugnanna gerir býflugnarækt mun auðveldari hérlendis en ella. Félagið Bý hefur núna hafið framleiðslu á drottningum og býflugnabúum hérlendis sem gerir okkur óháðari innflutningi og dregur úr líkunum á að sjúkdómar og sníkjudýr berist hingað.

Í býflugnarækt þarf að endurnýja drottninguna í hverju búi á tveggja til þriggja ára fresti, annað hvort með því að kaupa nýja eða að sjá til þess að býflugurnar ali upp nýja drottningu. Í ræktun er reynt að velja drottningar sem verpa vel, draga úr árásagirnd vinnuflugnanna í búinu og efla vinnusemi þeirra, og eru ekki svermgjarnar.

Býflugur eru yfirleitt ræktaðar í stórum kössum sem raðað er saman þannig að þeir myndi eitt rými. Verksmiðjuframleiddir kassar eru yfirleitt úr hertu frauðplasti en trékassar eru einnig algengir. Í kassana er raðað römmum þar sem býflugurnar byggja smágerð, sexhyrnd hólf úr vaxi sem þær framleiða sjálfar. Í hólfin verpir drottningin eggjum og þar elst ungviðið upp. Hólfin nýta flugurnar einnig sem geymsluhólf fyrir hunang og frjókorn. Ýmsar útgáfur eru til af býflugnabúum til ræktunar og allar miða að því að tryggja góða afkomu búsins og auðvelda mönnum störfin við umhirðu flugnanna og uppskeru hunangs.

Umgengi við býflugur krefst yfirvegunar og þekkingar. Fylgjast þarf með mörgum þáttum í fjölgun og fóðuröflun flugnanna á vorin, sumrin og haustin og grípa inn í á ýmsan hátt ef eitthvað hamlar framgangi búsins. Eins og flestir þekkja úr annarri ræktun er veðurfar hérlendis á margan hátt óhagstætt.  Sumrin eru það svöl að hver hlýindadagur skiptir flugurnar máli varðandi fóðuröflun o.fl. Þess vegna þarf býflugnabóndinn oft að fóðra býflugurnar, sérstaklega á vorin, þegar veður hindrar flug og blómþroska.

Staðsetning búa skiptir miklu máli. Nauðsynlegt er að velja þeim skjólsælan og sólríkan stað þar sem aðgengi er gott að ríkulegum blómgróðri og auðvelt er að sinna búunum. Best sé að hafa trjágróður allt um kring eða skjólgirðingu.

Hunangið er megin afurð býflugnaræktarinnar. Hunangstekjan frá búunum fer fram síðsumars og er þeim gefið sykurfóður í staðinn til vetrarins. Hérlendis má gera sig ánægðan með 30 kg hunangsuppskeru úr stóru búi, en uppskeran getur orðið umtalsvert meiri á góðum sumrum. Til þess að lifa af veturinn þurfa flugurnar nægt fóður, ró og öruggt skjól og næga loftun í búunum til að koma í veg fyrir rakasöfnun í þeim.

Fræðsla um býrækt

Egill Rafn Sigurgeirsson formaður Bý og frumkvöðull að býrækt á Íslandi hefur haldið helgarnámskeið undanfarin ár til að mennta og ala upp nýja býræktendur. Námskeiðið sækja árlega um 20-35 manns. Nýverið hefur Landbúnaðarháskóli Íslands einnig hafið kennslu í býflugnarækt fyrir garðyrkjunema. Fyrsta námskeiðið var haldið haustið 2014 fyrir 20 nemendur. Landbúnaðarháskólinn stefnir jafnframt að endurmenntunarnámskeiðum og almennri fræðslu um býrækt, til að sinna eftirspurn.

Fyrstu skrefin í býrækt

Þeir sem hafa áhuga á að gerast býræktendur ættu í upphafi að ská sig á námskeið í býrækt og jafnframt að setja sig í samband við reynda býflugnabændur. Félagið Bý miðlar upplýsingum til byrjenda og lengra komna og hefur útvegað býflugnabændum flugur til ræktunar. Búnaður til býræktar hefur verið til sölu hérlendis undanfarin ár og er búnaðurinn mest allur innfluttur frá Norðurlöndunum. Eins og áður segir heldur Bý úti öflugri heimasíðu www.byflugur.is og samskiptahópar á facebook -Byflugur:D- um býrækt miðla jafnframt fréttum og öðrum upplýsingum.

Býflugur og garðyrkja

Frjóberar eru mikilvægir í margskonar ræktun, m.a í ávaxta- og berjaræktun. Ræktun í gróðurhúsum getur einnig verið háð frjóberum og henta humlur mjög vel til þeirrar þjónustu. Kosturinn við að nýta humlur í gróðurhúsum er sá að bú þeirra geta verið mjög smá og duga t.d. fáein hundruð humla til að sinna þúsund fermetra tómataekru. Býflugur henta hins vegar vel sem frjóberar utanhúss og eru nýttar til þess í miklum mæli erlendis. Býflugur vinna aðallega innan 2-3 km frá búinu en geta farið lengra ef þörf er á. Hvert býflugnabú reiðir sig því á tuga ferkílómetra svæði til fæðuöflunar.

Þótt býflugnarækt sé hérlendis fyrst og fremst skemmtileg tómstundariðja sem býr til gómsæta afurð, geta flugurnar engu að síður nýst sem frjóberar svo sem í jarðaberjum, rifs- og sólberjarækt en einnig mögulega í repjurækt.

Margir Íslendingar eru óvanir pöddum og er illa við flest öll slík kvikindi. Eitt mikilvægt ráð gegn ótta af þessu tagi er fræðsla. Mörg smádýranna í garðinum og náttúrunni eru nytsöm varðandi hringrásir í jarðveginum og jarðvegsmyndun eða veita vernd gegn meindýrum. Þjónustan sem frjóberar veita er jafnframt mikilvæg fyrir berjasprettu og fræþroska í garðinum og náttúrunni. Sem betur fer hafa sumir garðeigendur ánægju af suðandi flugum og finnst gaman að fylgjast með iðnum humlum eða býflugum flakka á milli blóma.

Í athugun Margrétar Hallsdóttur á frjókornum í íslensku hunangi sem Náttúrufræðistofnun birti árið 2010 kom í ljós að frjókornasamsetningin var mjög breytileg eftir stöðum og umhverfi. Mesta fjölbreytnin var í nágrenni ræktaðra skrúðgarða en frjókornamagnið var einnig mikið úr villtri náttúru. Frjókorn af smára eða sveipjurtum voru oft ríkjandi í hunanginu.

Mikilvægi einstakra plöntutegunda fyrir býflugur á Íslandi má einnig rannsaka með því að fylgjast með atferli flugnanna vor, sumar og haust. Sumir býflugnabændur gera þetta og meðal annars má sjá frásagnir af plöntuvali býflugna á heimasíðu Bý. Slíkar athuganir krefjast plöntuþekkingar, þolinmæði og árvekni. Á þennan hátt skarast áhugi á býflugum og plöntum hjá ræktendum. Býflugnabændur geta einnig létt býflugunum verkið með því að rækta tilteknar plöntur sem gefa ríkulega af blómasafa og/eða frjókornum. Hér á Íslandi höfum við takmarkaða reynslu af ræktun plantna fyrir býflugur en nokkrir býflugnabændur hafa sáð t.d. hunangsurt (Phacelia tanacetifolia) sem býflugurnar sækja mikið í. Mikilvægast er þó að velja býflugnabúum staði þar sem mikið er af fjölskrúðugum villtum gróðri í nágrenni við ræktuð svæði með trjágróðri, runnum og blómjurtum.

Á vorin eru víðitegundir, krókusar, hóffífill ofl. snemmblómstrandi plöntur mikilvægar býflugum. Túnfíflar, alaskalúpína, berjarunnar og berjalyng blómstra einnig snemmsumars. Þegar líður á sumarið eykst fjölbreytnin og magnið af frjókornum og blómasafa mjög mikið. Þá bætast við fleiri fíflategundir, smárar, möðrur, blóðberg, hrútaber ofl. Í görðum sækja býflugur mikið í blómrunna, t.d. sírenur, mispla, rósir og murur, einnig í stórgerðar blómjurtir eins og bláfífil,  þistla, sólir ofl. Þegar líður á sumarið sækja býflugur mikið í hvannir, mjaðurt, beitilyng og plöntur krossblómaættarinnar. Margar plöntur sem reiða sig á vindfrævun framleiða mikið af frjókornum. Býflugur safna þessum frjókornum í blómum plantnanna og má stundum sjá býflugur við þá iðju á grösum, störum og ýmsum trjám.

Víða um heim eiga býflugur undir högg að sækja vegna notkunar á skordýra- og sveppalyfjum í landbúnaði. Fækkun plöntutegunda vegna einhæfrar akuryrkju kemur einnig illa við frjóberana. Garðaúðun gegn meindýrum skaðar jafnframt gagnleg smádýr í görðum og eykur til langs tíma hættuna á meindýraplágum. Þess vegna ættu þeir sem vilja laða frjóbera og ýmis önnur nytsöm smádýr í garðanna sína að forðast eiturnotkun, gæta þess að aðkeypt fræ séu ekki húðuð með þrávirkum skordýra- og sveppalyfjum og stuðla að fjölbreytni í garðinum þar sem eftirsóttar plöntur blómstra á ólíkum tímum.

Upplýsingar um býrækt á íslensku

Árið 1994 skrifaði Kristján Kristjánsson fróðlega og ítarlega grein í Garðyrkjuritið um þetta efni. Þar geta áhugasamir lesið sig til um ýmsar humlu- og býflugnategundir og hagnýtingu þessara dýra í landbúnaði. Rétt er að benda lesendum á að Kristján notar býflugnaheitið bæði yfir humlur og býflugur, svipað og „bees“ er notað í ensku. Á heimasíðu Bý er mjög mikið af margskonar hagnýtum og fræðilegum upplýsingum um býflugnarækt. Egill Rafn Sigurgeirsson hefur séð um að safna þessu efni og þýða á íslensku.

Heimildir

Býflugnaræktarfélags Íslands (Bý), heimasíða: www.byflugur.is

Goulson D. 2010. Bumblebees –Behavior, Ecology and Conservation. Önnur útgáfa. Oxford University Press, UK. 317 s.

Kristján Kristjánsson 1994. Býflugurnar og blómin. Garðyrkjuritið 74: 139-161.

Margrét Hallsdóttir 2010. Frjókorn í íslensku hunangi. Skýrsla nr. NÍ-10003. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabæ. 15 s.

Náttúrufræðistofnun Íslands, heimasíða: pöddur, http://www.ni.is/poddur/

Nitschmann J. & Hüsing J.O. 2002. Lexikon der Bienenkunde. Tosa Verlag, München. 400 s.

 

 

Fréttir 27. maí 2016

Býflugur – Einstaklega Iðin Kvikindi

Höfundur: Vilmundur Hansen

 

 

13/9 2015

Býflugnabóndi Í Borginni

Hersteinn Pálsson hefur alltaf verið „pöddusjúkur“ og það brýst út í áhugamáli hans, sem er býflugnarækt. Öll fjölskyldan nýtur þess að sinna býflugunum og eiga góða stund saman í útjaðri borgarinnar.

 

 

 

Ritgerðir

Menntaskólinn Hraðbraut -Kristín Alísa Eiríksdóttir
Býflugnarækt á sér fremur stutta sögu hér á landi, eða um 8 ár samkvæmt heimasíðu býflugnabóndans Egils Rafns Sigurgeirssonar. Þessi tími virkar sem einn dagur í sögu býflugnaræktar í heiminum, en talið er að býflugnarækt sé ein elsta búgrein manna. Þetta kom eitt sinn fram í Fréttablaðinu, en þar stóð að menn hefðu byrjað að stunda býflugnarækt fyrir um 2000 árum fyrir KRIST. Vísindamenn hafa þó sannað að fornmaðurinn hafi reglulega notfært sér hunang býflugna þegar hann komst yfir það.
Býflugur eru gífurlega skipulagðar skepnur. Þær hafa löngum verið lofaðar fyrir mikinn aga og traust innan samfélags þeirra, sem er býflugnabúið. Í hverju búi er ein drottning sem stjórnar allri starfsemi búsins. Helstu hlutverk drottningarinnar er að fjölga flugunum í búinu og að stjórna vinnuflugum sem kallaðar eru þernur. “Vinnubýflugurnar, eða þernurnar bera nafn með réttu því þær eru stanslaust vinnandi yfir sumartímann. Þær sjá um að afla fæðu og hreinsa búið, en þær eru ávalt mjög snyrtilegar,”[1] segir Þorsteinn Sigmundsson, býflugnabóndi við Elliðavatn. Einnig talaði hann um karkynsflugurnar, sem eru mjög fáar í hverju búi. Þær kallast druntar og þeirra eina hlutverk er að frjóvga egg drottningarinnar, en að því loknu deyja þær og þernurnar bera líkama þeirra út úr búinu. Þorsteinn sagði einnig: “ Stéttaskiptingin er því mjög skýr hjá flugunum, drottning efst, þernurnar í miðjunni og svo koma druntarnir, en þeir eru lægst settir”.
Ástæða þess að Íslendingar byrjuðu svo seint ræktun býflugna er skilyrðislaust sú hve veðráttan getur verið slæm hér. Veturnir eru býflugunum sérstaklega slæmir því ef þær eru ekki rétt meðhöndlaðar að hausti eru miklar líkur á því að þær lifi ekki kaldann veturinn af. Ræktunin hér á landi er því nær enn þá á tilraunastigi en þessum fáu býflugnabændum sem eru á landinu gengur samt vel og vonast þeir eftir því að fleiri taki upp iðjuna á komandi árum.
Erlendis er algengt að býflugur séu villtar í skógum, en þær eru þekkt skógardýr. Hér á landi, eins og í öðrum Norðurlöndum, hafa bændur komist upp á lagið með að nota tilbúin bú úr plasti eða timbri. [2] Búin eru kassalaga og verndar það innviði búsins fyrir veðrum og vindum. “Innan í plast- eða timburkössunum er svo sjálft búið sem er saman sett af nokkrum vaxrömmum, þar hafa býflugurnar komið sér upp aðstöðu þar sem lirfur geta klakist út og þær geymt hunang,” “Vaxrammarnir eru byggðir upp af ótrúlega mörgum sexhyrndum hólfum sem þernurnar búa til úr vaxi.” Hvert hólf er á stærð við eina flugu (15 – 19 mm) [3] eða örlítið stærra, en þau eru alltaf einslaga og nákvæmlega jafn stór. Þar geyma býflugurnar hunangið,en þar eru einnig uppeldisstöðvar lifra.
Býflugur eru stanslaust vinnandi, en vinna þeirra felst í fæðuöflun og uppbyggingu búsins. Býflugnabóndinn Þorsteinn segir að ástæðan fyrir þessari óstöðvandi fæðuöflun sé sú að þær safna sér forða fyrir veturinn. “Þær fara sem sagt ekki í dvala eins og sum skordýr heldur eru þær vakandi allan veturinn í búinu,” segir hann. Býflugurnar sækja sér aðallega forða í blóm og plöntur eins og fífla, beitilyng, sigurskúf, blóðberg og hvít blóm smárans, enda leggur oft sætan blómailm frá hunangi þeirra.[4] Hunangið vinna þernurnar úr blómasafa sem þær safna er þær fljúga á milli blóma og annarra plantna, þær koma því svo fyrir í sexhyrndu hólfunum í vaxrömmunum og að lokum loka þær fyrir hólfin með þunnri vaxhúð. Býflugnabændurnir vinna svo hunangið úr hólfunum með því að fletta vaxhúðinni hægt og rólega ofan af. Það getur verið mjög áhugavert að fylgjast með þessari vinnu bændanna því þegar búið er að fletta vaxinu ofan af hunanginu eru rammarnir (þar sem hunangið er geymt) settir í sérstaka handknúna vél. Þessi vél kallast slengivél eða skilvinda og snýr hún römmunum í hringi svo að hunangið leki úr vaxrömmunum, en hægt er að setja þá aftur í búið. [5]
Maður gæti haldið að býflugnabændurnir eyðileggi vetrarforða býflugnanna með hunangstökunni, en svo er ekki. Hver bóndi tekur aðeins um 10 – 15 % af hunangsframleiðslu hvers bús og í staðinn fyrir hunangið sem hann tekur lætur hann flugurnar fá sykurvatn sem þær geta unnið úr. Þrátt fyrir þetta getur hver bóndi fengið ótrúlegt magn út úr einu búi á ári, en hvert bú getur skilað bónda um 10 – 50 kg á ári. T.d. fékk býflugnabóndinn Þorsteinn Sigmundsson um 20 – 30 kíló af hunangi sumarið 2006, en hann er með 3 bú upp við Elliðavatn.[6]
Störf býflugnabænda eru margvísleg og áhugaverð. Félag þeirra, Býflugnaræktendafélag Íslands, sem er oftast í daglegu tali kallað BÝ var stofnað árið 2000 af 8 áhugamönnum. Einn helsti frumkvöðull og stofnandi félagsins var og er Egill Rafn Sigurgeirsson[7], en hann hefur lagt mikið kapp á að stunda býflugnarækt upp við Elliðavatn í um 8 ár. Ræktunin gekk frekar brösuglega í byrjun, en smátt og smátt lagaði hann sig að aðstæðum og fékk fleiri í lið með sér. Gengur nú starfsemin vel, eru félagar BÝ orðnir 18 talsins og þar af 10 sem stunda ræktunina af miklum áhuga. Þetta duglega fólk er stundum kallað “Suðarar”[8], en þau hafa unnið hörðum höndum við að halda búum sínum lifandi síðast liðin ár. Það getur reynst þeim mjög erfitt yfir kaldann vetrartímann, þá sérstaklega ef búin eru lítil.
Í raun má, eftir þessa stuttu frásögn af býflugnarækt og hunangsgerð á Íslandi dást af því hve miklir dugnaðarforkar þessir fáu íslensku býflugnabændur eru. Þeir standa saman, hjálpa hver öðrum þegar á móti blæs og þótt tilraunir þeirra misheppnist gefast þeir ekki upp. Þeir halda heldur bjartsýnir áfram og von þeirra um að býflugnarækt á Íslandi styrkist og verði meiri deyr aldrei.

Heimildaskrá

· Íslenska alfræði orðabókin, A-G. Bls 233. Örn og Örlygur, 1990
· Síða Rúnars Óskarssonar um býflugnarækt. http://www.heimsnet.is/cranio/by_index.htm
· Síða Egils Rafns Sigurgeirssonar http://frontpage.simnet.is/egillrs/index.htm
· Viðtal við Þorstein Sigmundsson í Elliðahvammi
· Viðtal í gegnum tölvupóst við Egil Rafn Sigurgeirsson

[1] Viðtal við Þorstein Sigmundsson Býflugnabónda
[2] http://frontpage.simnet.is/egillrs/nofn_og_hugtok.htm hugtak: Kúba
[3] Íslenska alfræðiorðabókin, A-G. Bls 233. örn og Örlygur, 1990
[4] http://www.heimsnet.is/cranio/by_index.htm
[5] Upplýsingar sem ég aflaði mér eftir að hafa fylgst og tekið þátt í störfum Þorsteins Sigmundssonar
[6] Upplýsingar frá Þorsteini Sigmundssyni
[7] http://frontpage.simnet.is/egillrs/stjorn.htm http://frontpage.simnet.is/egillrs/Byflugur.htm
[8] http://frontpage.simnet.is/egillrs/felagatal.htm – og upplýsingar frá Þorsteini Sigmundssyni.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti Haust 2005

Magnús Gísli Ingibergsson
LÍF 3036

Býflugur

Kennarar:
Eiríkur Jensson
Og
Hilmar J. Hauksson

Efnisyfirlit
Uppruni býflugna……………………………………………………………………………………………………. 3
Tegundirnar…………………………………………………………………………………………………………… 4
Bústaðurinn…………………………………………………………………………………………………………… 6
Samfélagið……………………………………………………………………………………………………………. 7
Búferlaflutningar……………………………………………………………………………………………………… 8
Forðasöfnun………………………………………………………………………………………………………… 10
Býflugnadansinn……………………………………………………………………………………………………. 11
Aðdáunarverðar skepnur……………………………………………………………………………………….. 13
Heimildaskrá……………………………………………………………………………………………………….. 14

Uppruni býflugna
Uppruna býflugna má rekja langt aftur fyrir daga mannsins. Talið er að fyrir um 100 milljónum ára hafi myndast einhverskonar samfélag býflugna, sem líktust ættinni Apis, sem þróuðust samhliða blómstrandi plöntutegundum. Víða hafa fundist steingerðar leifar býflugna sem taldar eru vera allt að 50 milljón ára gamlar, en þær líkjast býflugum nútímans töluvert en eru þó útdauð tegund. Þróun býflugna hélt áfram á trópísku svæðunum í Asíu og fram komu tvær tegundir Apis, Apis dorsata og Apis florea. Seinna komu fram tegundirnar Apis cerana og Apis mellifera sem byggðu mun þróaðri bú en hinar tegundirnar. Fyrir um 1 milljón ára er talið að þær hafi þróað þann hæfileika að geta lifað með hitasveiflum milli vetrar og sumars og mynduðu vetrarklasa til þess. Apis mellifera tileinkaði sér best þann hæfileika að aðlaga sig breytilegum aðstæðum og dreifði sér því vestur til kaldari svæða. Apis mellifera er nú til í öllum heimsálfum jarðarinnar fyrir utan Antarktis fyrir tilstuðlun mannsins.
Maðurinn hefur lengi velt fyrir sér þessum furðulegu en um leið aðdáunarverðu skepnum. Það er margt sem maðurinn hefur komist að um býflugurnar á þessum langa tíma en það er líka margt sem ekki liggur enn ljóst fyrir. En hér verður fjallað um samfélag býflugnanna bæði með tilliti til tegundanna innan stofnsins sem og samfélagsins í heild sinni.

Tegundirnar
Text Box:
Samfélag býflugnanna er merkilegt. Tegundirnar sem lifa í búinu eru þrjár, þ.e. drottning, þernur og druntar. Þernurnar eru vinnuflugur búsins en þær eru kvenkyns líkt og drottningin. Það er aðeins ein drottning í hverju búi en meginhlutverk hennar er að verpa eggjum. Þróun hennar hefur verið þannig að hún hefur misst hæfileikann til að sjá sjálf um eggin, þ.e. veita þeim heimili og fæðu, það er algjörlega í höndum þernanna. En drottningin stjórnar líka búinu. Það gerir hún með efni sem kallast Feromen en það er hormón sem hefur mikil áhrif á hegðun og þroska þernanna. Býflugur búsins verða stressað eftir u.þ.b. einnar klukkustundar fjarveru drottningar. Drottning getur verpt milli 175 og 200 þúsund eggjum árlega en það er aðeins í stórum, vel búnum búum. Varp drottningarinnar stjórnast alveg af því hversu mikið þernurnar færa henni af fæðu. Þernurnar færa drottningunni mikla fæðu ef henni er ætlað að verpa mikið en þá verður drottningin líka stór og hefur minni hreyfigetu. En þegar flugurnar ákveða að flytjast í nýtt bú, sverma, er drottningunni gefin minni fæða svo hún verði léttari og geti flust ásamt stórum hluta flugnanna og myndað nýtt bú. Meðallíftími drottninga eru um eitt til þrjú ár en til eru dæmi um að drottningar hafi lifað í átta ár. Þernurnar eru langflestar í búinu og geta farið allt upp í áttatíu þúsund í einu búi, en venjulega eru þær um nokkur þúsund. Það fer mikið eftir gæðum drottningarinnar hversu margar þernurnar verða. Verkaskipting þernanna í búinu er aldursskipt þar sem yngstu þernurnar eru mest inni í búinu að sjá um að hreinsa hólfin, þær næst yngstu sjá um að fæða ungviðið og drottninguna, næsti aldursflokkur þar á eftir sér um að byggja úr vaxi, taka við hunangi sem kemur inn í búið og tekur til í búinu á meðan þær elstu sjá um að loftræsa, verja búið og safna inn blómasafa, frjókorni og vatni. Þær elstu geta þó séð um flest störf búsins ef með þarf. Druntarnir eru karlkyns og hafa það eitt hlutverk að eðla sig við drottninguna en við það missa þeir getnaðarlim sinn og deyja, en það eru aðeins örfáir druntar sem eðla sig því druntarnir eru eðlilega mun fleiri en drottningin í hverju búi. Á haustin eru þeir reknir úr búinu af þernunum sem þá eru að undirbúa búið fyrir veturinn og druntarnir deyja við það. Ef plássleysi myndast innan búsins er druntunum oft sparkað út sem leiðir þá oftast til dauða þeirra ef þeir finna sér ekki nýtt bú til að dveljast í. Meðallíftími drunta eru aðeins 21 – 32 dagar. En druntarnir eru þó nauðsynlegir búinu til að viðhalda stöðugleika og öryggis innan búsins.
Text Box:
Allar tegundirnar fara í gegnum fjögur stig þroska, þ.e. egg, lirfa, púpa og fullþroska fluga. En egg drottningar hefur möguleika til að verða að hvaða tegund sem er þernu, drunti eða drottningu. Ófrjó egg verða að drunti en frjó egg geta orðið hvort sem er drottning eða þerna. Drottingin ákveður að verpa eggjum sínum í hólf innan búsins sem þernurnar hafa búið til úr vaxi en þessum hólfum má skipta í þrennt, þ.e. druntahólf og þernuhólf sem eru sexhyrningslaga en munurinn á þeim er sá að druntahólfin eru stærri, og einnig drottningarhólf sem eru ekki í laginu eins og hin heldur hringlaga og má líkja þeim við fingurbjörg. Drottningahólfin hanga niður, en drunta- og þernuhólfin liggja lárétt. Drottningin verpir ófrjóu eggjunum í druntahólf en þeim frjóu í þernu- og drottningarhólf. Það er enn ekki vitað hvernig drottningin fer að þessu en líklegasta kenningin er sú að þegar hún verpir í druntahólf þá þrýstist ekki sæðið með egginu vegna þess hve vítt hólfið er og þess vegna verða druntarnir eingetnir, þ.e. hafa allan sinn erfðamassa frá drottningunni. En þernurnar fá erfðamassa sinn bæði frá drottningunni og sæði druntanna sem eðla sig við drottninguna. Á lirfustigi ákveðst hvort hún verði að þernu eða drottningu en það ákvarðast af gæðum fæðunnar sem lirfan fær. Allar lirfur fá fæðu sem kallast royal jelly, en það er fóður af bestu gerð sem hvetur til þroska nýrrar drottningar. Aðeins drottningalirfan heldur áfram á þessari fæðu en hinar lirfurnar fá hana aðeins í tvo til þrjá daga.
Egg klekst út á þriðja degi eftir að drottning verpir því svo það límist við botn hólfsins. Þá tekur við mikið áttímabil á meðan flugan er á lirfustigi því henni er þá ætlað að vaxa hratt. Lirfan étur þá fæðu sem þernurnar færa henni, svokallaða býflugnamjólk, og púpast svo eftir um fjóra til sex daga á lirfustigi. Þá byggja þernurnar vaxlok yfir hólfið og eftir u.þ.b. tuttugu og einn dag (þó mismunandi eftir kyni) frá varpi étur flugan sig út úr hólfinu, þá orðin að fullvaxta flugu, eftir að hafa gengið í gegnum miklar breytingar á púpustigi.

Bústaðurinn
Áður en fjallað verður meira um samfélag býflugnanna er nauðsynlegt að skoða aðeins betur aðstæðurnar sem býflugurnar búa við, þ.e. heimili þeirra. Eðlilegur bústaður býflugna er holur tréstokkur, holt tré eða útrými í klettum. Ytra lag búsins er valið eftir gæðum þess til að verja búið fyrir hinum ýmsu ytri áreitum t.d. veðri, vindi og rándýrum. Inni í búinu er svo vaxkaka sem er ætluð sem uppeldisstöð og til hunangsgeymslu,
Vaxkökur býflugnabúa eru byggðar upp úr býflugnavaxi sem þernurnar framleiða. Þær gera það með átta vaxkirtlum sem staðsettir eru undir afturbolnum á þeim. Þegar vax vantar í búin fara þernurnar út og safna hunangi og frjókornadufti. Eftir það fara þernurnar í nokkurskonar klasa sem myndar hærra hitastig sem veldur því að vaxkirtlarnir byrja að framleiða vax. Vaxið dælist þá í átta poka undir kirtlunum og þar verður vaxið að átta litlum, hálfgegnsæum og hvítum kökum. Þaðan eru þessar litlu vaxkökur færðar upp í munninn á flugunum þar sem þær eru unnar og meðhöndlaðar eftir þörfum hvert skipti.
Vaxkökurnar samanstanda af sexhyrningslaga hólfum sem áður hefur verið fjallað um. Tvær gerðir eru af þessum hólfum, druntahólf og þernuhólf en druntahólfin eru stærri. Vaxkakan er byggð upp sitthvoru megin við lóðrétt skilrúm í miðju búsins, sem kallast á enskri tungu “the septum”. Bæði drunta- og þernuhólfin eru notuð til geymslu á hunangi en veggir hólfanna eru mjög fíngerðir. Þó er einhverskonar þykkildi ofan við hólfin til styrkingar. Nýlegt vax bús er nokkurn veginn hvítt á litinn en gulnar með tímanum þegar það er varðveitt og styrkt með propolis, eða býflugnalími. Eftir að nýr stofn hefur verið ræktaður innan vaxkökunnar verða þessi svæði brún að lit og verða síðan dekkri og dekkri. Gömul bú verða oft nánast svört á litinn.

Samfélagið
Nú þegar fjallað hefur verið um tegundirnar hverja fyrir sig og lítillega fjallað um búið er nauðsynlegt að skoða samfélag býflugnanna betur og hvernig flugurnar vinna saman sem ein heild innan búsins til þess að átta okkur betur á vinnu þeirra í búinu. Það er þannig sem býflugnaræktandi lýtur á býflugurnar sínar, sem eina heild frekar en fjölda einstaklinga sem hver fyrir sig vinna aðeins lítinn hluta vinnunnar sem fram fer í búinu.
Áður kom fram að býflugurnar eiga uppruna sinn að rekja frá trópískum svæðum og hafa seinna aðlagast vetrarsveiflum annarra heimshluta en það er mjög áhugavert viðfangsefni að athuga hvernig býflugurnar fara að því að lifa af kalda vetur. Blóm framleiða lítinn eða engan forða fyrir flugurnar mjög lengi og því þurfa flugurnar að lifa af þann langa tíma á forða undanfarins tímabils þegar hann er nægur. Það tímabil er þó svo stutt víðs vegar, t.d. á Íslandi, að flugurnar bera inn allan vetrarforðann á mjög stuttum tíma. En svo að þetta gangi þarf fleira að spila inn í hjá flugunum.
Flugurnar hafa þróað hæfileikann til að halda stærð búsins hæfilegri miðað við nægð forðans. Augljóslega þá verður fjöldi flugnanna að vera hærri á sumrin heldur en veturna þegar forðinn er af skornum skammti. Þess vega eru druntarnir reknir úr búinu fyrir veturinn. Samhliða þessari þróun er réttast að líta á varp drottningarinnar sem er líklegt að hefjist snemma í janúar. En í apríl mánuði tekur varpið skyndilega mikinn kipp og stendur yfir allan mánuðinn og jafnvel langt fram í maí mánuð. Því verður fjölgun ungviðis hlutfallslega töluvert meiri en fjölgun fullorðna býflugna lengi vel en tekur svo að jafnast og um mitt sumar minnkar fjölgun ungviðis mikið en fjölgun fullorðnu flugnanna heldur áfram langt fram á sumar. Skyndilega stöðvast fjölgun flugna í búinu og í lok júní byrja flugurnar að safna forða fyrir veturinn.
Flóran virðist spila mjög vel inní þetta skipulag flugnanna því snemma sumars fá flugurnar þá næringu fá blómunum sem þær þurfa fyrir ungviði sín en síðla sumars hentar næringin betur fyrir vetrarforðann. Það er því mikilvægt fyrir flugurnar að eiga nægan forða fyrir veturinn þangað til þær geta farið aftur út í náttúruna til að sækja hunang því annars getur búið svelt til dauða. Það gerist oft þar sem býflugnaræktandi fylgist ekki nógu vel með nægju búsins.
Einnig ber að nefna það sem áður kom fram um það hvernig þernurnar hækka í tign eftir aldri. Það er eitthvað í eðli þeirra sem gerir það að völdum að þernurnar skipta með sér verkum sem skilar sér í mjög skipulagðara samfélagi og vinnu til að lifa af í náttúrunni.

Búferlaflutningar
Það er þekkt fyrirbrigði að í stóru búi vilji hluti býflugnanna sverma, þ.e. flytjast í nýtt bú á nýjum stað. Þetta hefur að sjálfsögðu verið mjög mikilvægur þáttur í þróun býflugunnar og aðlögun að nýjum og breyttum svæðum. Þess vegna er vert að athuga betur þetta fyrirbrigði og velta fyrir sér ástæðunum og hvernig býflugurnar fara að þessu.
Til þess að þetta geti átt sér stað þarf drottning að fara af stað úr gamla búinu með hópi þerna til að byggja og vinna í búinu. Það er því nauðsynlegt fyrir býflugurnar að ala upp drottningar í búinu sínu til þess að stofninn lifi áfram. Það sem hefur ekki komið fram hér áður um drottningahólfin er það að þau eru ekki alltaf til staðar í búinu heldur myndast þau þegar annaðhvort þarf að endurnýja drottningu búsins eða að hluti búsins þurfi að sverma. Það þarf því að vera hvati af einhverju tagi til staðar til að þernurnar búi til þessi hólf fyrir drottningarnar að verpa í. Vott af þessum búum má sjá eftir um tuttugu og fjögurra klukkustuna fjarveru drottningarinnar.
Áður hefur verið fjallað um hormónið sem drottningin gefur frá sér sem kallast Feromen, en það gegnir lykilhlutverki í þessu tilviki. Þernurnar sleikja drottninguna til að fá þetta efni frá henni og dreifa því svo um bú með hjálp næringarforðans. Þerna sem fær meira en aðeins örlítinn skammt af þessu efni úr matnum sínum er sjálfkrafa hindruð í að framleiða drottningahólf. En þegar drottningin eldist minnkar um leið framleiðni hennar á þessu efni og þar með fá þernurnar minna og minna af þessu efni í fæðuna sem endar með því að þær byrja að framleiða drottningahólfin eða leifa hólfum á byrjunarstigi sem innihalda egg að þroskast. Það er önnur leið til að þessi hindrun hverfi. Þegar bú stækkar mjög hratt og yfirfyllist þá verður magnið af Feromen sem berst með fæðunni svo lítið á hvern einstakling innan búsins að fljótlega byrja þernurnar að framleiða drottningarhólf rétt eins og í fyrra tilfellinu.
Þegar byrjað hefur verið að framleiða drottningahólfin ákveða býflugur búsins á einhvern hátt hvort þær sverma, endurnýja drottninguna eða jafnvel hætta við alltsaman og drepa innihald hólfanna. Það er mismunandi eftir aðstæðum, bæði milli landa og einnig veðráttu hvers tímabils fyrir sig, hvenær býflugurnar ákveða að sverma. Þar sem blómstrun á sér stað snemma geta býflugurnar ákveðið að sverma mjög snemma, t.a.m. í apríl en þar sem ekki blómstrar snemma ákveða flugurnar að sverma seinna, eða jafnvel í júlí.
Þegar gömul drottning ákveður að sverma fer aðeins lítill hluti búsins með henni og þess vegna virkar það magn Feromens sem hún framleiðir til að hindra þernurnar í að gera drottningahólf í nýja búinu þar sem magn efnisins er mun meira á hverja býflugu en áður. Í búinu sem gamla drottningin yfirgaf er hinsvegar tekin við ný og ung drottning sem framleiðir svo mikið af Feromen að það nær að hindra allar þernurnar í að gera drottningahólf. En ekki líður á löngu þar til gamla drottningin er aftur farin að framleiða of lítið af efninu og þá er ekki langt í að endurnýjun eigi sér stað í því búi.
Text Box: Hér sést mjög gott dæmi um neyðardrottningahólf sem hefur verið gert ofan á venjulegt þernuhólf
Venjuleg drottningahólf eru gerð af þernunum fyrir drottninguna til að verpa í seinna. En það getur komið fyrir að býflugnaræktandinn drepi óvart drottninguna við meðhöndlun og þá er ólíklegt að drottningin sé búin að verpa í drottningahólf. Þá gera þernurnar svokölluð neyðar-drottningahólf. Þau gera þernurnar með því að breyta venjulegum þernuhólfum sem innihalda venjulega þernulirfu. Þær fylla hólfið með royal jelly þannig að lirfan flýtur við brúnina á hólfinu. Þá móta þær drottningahólf yfir hinu hólfinu þannig að lirfan er í réttri staðsetningu í nýja hólfinu. Niðurstaðan af þessu er yfirleitt góð drottning en það getur komið fyrir að þernurnar velji of gamla lirfu sem þá verður að drottningu sem þykir ekki nógu góð að sumu leiti.
Feromen efnið hefur líka áhrif á eggjakerfi þernanna, en þær eru fullkomlega hæfar til að verpa eggjum en aðeins í fjarveru drottningarinnar því efnið hindrar eggjakerfi þernanna í að verpa. Í fjarveru drottningarinnar geta þernurnar semsagt verpt eggjum en þær geta ekki eðlað sig við druntanna svo eggin eru alltaf ófrjóvguð druntaegg. Útkoman verður smávaxinn druntur því þernurnar verpa aðeins eggjunum í þernuhólfin.
Það er fleira sem þetta efni, Feromen, getur stjórnað í samskiptum býflugna. T.a.m. þegar býflugur eru að sverma þá heldur efnið hópnum saman, en ef drottningin yfirgefur hópinn þá snýr hópurinn til baka í gamla búið. Einnig er það þekkt að þegar að býfluga stingur gefur hún frá sér einhverskonar Feromen sem laðar að fleiri flugur til að stinga á sama stað. Þetta er gott dæmi um hið margþróaða varnarkerfi býflugnanna.

Forðasöfnun
Eins og fjallað var um áður þá sinna þernurnar búverkum fyrri hluta ævi sinnar en þann seinni eru þær meira úti til að safna forða fyrir búið. Það er fernt sem þær þurfa að safna inn í búið, þ.e. blómasafa, frjókornum, propolis og vatni.
Blómasafinn er sykur, vatn og fleiri efni í litlum skömmtum sem flugurnar safna úr blómum og færa í búið í hunangsmaganum, sem er frábrugðinn maganum sem þeir nota til að melta matinn sinn. Býflugurnar geta fært litla skammta hunangs á milli maganna. Hunangsmaginn er aðeins notaður til að geyma forða, í styttri eða lengri tíma. Þar taka aðrar flugur við blómasafanum með því að sjúga hann upp úr maganum á hinni(Egill ; sú sem kemur í búið gefur frá sér nektardropann) og vinna þannig úr safanum. Frjókornin, sem einnig er safnað úr blómum, færa býflugunum það prótein og vítamín sem þær þurfa. Frjókornunum safna flugurnar saman á afturfóta sína og fara með það þannig inn í búið sitt. Propolis er, eins og áður hefur komið fram, svokallað býflugnalím. Propolis fá býflugurnar úr blómknöppum plantna er efnið nota þær til að líma ýmislegt sem er laust í búinu, fylla í holur og til að varðveita og styrkja vaxkökuna. Propolis er flutt á sama hátt og frjókornin en hægt er að greina muninn því propolis glansar mjög mikið á meðan yfirborð frjókornanna er mun mattara. Vatn er nauðsynlegt býflugunum til að þynna hunangið og einnig til að kæla búið þegar hiti er mikill.
Öllum þessum hlutum er safnað inn í búið til að svara nauðsynjum hvers tíma fyrir utan blómasafann sem er safnað saman til geymslu. Hvorki vatn né propolis er geymt á nokkurn hátt innan búsins(Egill:er þó kítti búsins og til í nægjanlegu magni ef þarf að nota annarstaðar) en frjókornum er þó safnað innan búsins en ekki í stórum skömmtum.
Ef litið er á ferli þessara efna með tilliti til samfélagsins í heild þá sést glögglega að ferlið heldur áfram stöðugt. Snemma sumars þegar plöntur í kringum búið hafa ekki enn blómstrað sækja býflugurnar mikið í vatn nálægt búinu til að þynna hunangið sem fyrir er í búinu. Þannig nota þær forðann sem þær hafa til að þrauka síðustu daga vetrar. Þegar plönturnar fara að blómstra og blómasafi myndast fækkar vatnsberum og þernurnar byrja að sækja blómasafann. Þegar blómasafamyndun plantna nær hámarki geta flugurnar ekki lengur geymt forðann í hunangsmaganum og þá byrja þernurnar að safna blómasafanum í hólfin. Um þetta leiti er nánast engin þörf lengur fyrir vatnsberana og þeir algjörlega farnir að sækja annaðhvort blómasafa eða frjókorn ú plöntum.
Á veturna heldur áfram svipað ferli flugnanna en þá er að sjálfsögðu mun minni hreyfing á flugunum. Þynna verður hunangið á veturna svo býflugurnar nota hvert tækifæri til að fara út og ná í vatn. Ef vaxkakan er full af hunangi hjálpar það búinu við að halda á sér hita því hunangið virkar sem skjól(Egill; hitageymir) fyrir flugurnar fyrir skyndilegum hitasveiflum.

Býflugnadansinn
Samskipti býflugnanna eru liður sem vert er að skoða aðeins betur. Hvernig flugurnar tjá sig við hvora aðra og hvernig þær koma boðum á milli sýn um t.d. fjarlægðir góðra plantna.

Komast næst því allra skordýra að geta kallast skyni bornar, enda er heilabú þeirra það stærsta sem þekkist í þeim flokki. Vísindamenn kanna furðu lostnir atferli þeirra, hvernig þær geta miðlað flóknum hugtökum um vegalengdir, áttir og staðsetningu með merkjum, sem verka líkt og tal. Og samfélagsleg vandamál geta valdið flokkadráttum með þeim, sem líkjast stjórnmálum. Samt eru viðbrögð þeirra fremur talin stafa af eðlishneigð en sjálfstæðri hugsun.[1]

Svo segir í Stóru skordýrabók Fjölva en þetta er einmitt mjög athyglisverður punktur því þessi merki sem talað er um eru í raun frægur dans sem þernurnar dansa til að koma til skila upplýsingum um staðsetningu og fjarlægð plantna sem gefa af sér góðan forða. Býflugnadansinn fer þannig fram að þerna sem hefur fundið plöntu, sem gefur af sér góðan forða dansar, eða hleypur í mismunandi hringi eftir því hversu langt er í plöntuna. Hinar þernurnar hópast að henni og fylgjast með þessari einu þernu sem heldur þessu áfram í einhvern tíma. Þernurnar sem hópast að fá sýnishorn af blómasafanum eða finna lykt af frjókornunum á löppum flugunnar og flýta sér út til að reyna að finna plöntuna. Dansinn breytist eftir því sem vegalengdin í plöntuna verður lengri. Þegar hinar þernurnar hafa fundið plöntuna fara þær aftur í búið og dansa sama dans og sú fyrri. Eftir u.þ.b. tíu til fimmtán mínútur verður allt krökkt af leitandi býflugum innan leitarmarka.
Þegar um lengri vegalengdir er að ræða verður dansinn að segja meira en fjarlægð plöntunnar. Þess vegna miða þær stefnu plöntunnar útfrá sólinni. Venjulega er dansinn fyrir langa vegalengd þannig að flugan hleypur í nokkurskonar áttu. En ef hún hleypur upp miðjuna á áttunni þá þýðir það að fljúga eygi í átt að sólinni en hinsvegar ef hún hleypur niður miðjuna á áttunni þá þýðir það að fljúga eygi í átt frá sólu.
Því lengri tíma sem flugan tekur í dansinn og því færri dansar sem framkvæmdir eru á vissum tíma því lengra er í plöntuna. Flugan stöðvar annað slagið til að gefa sýnishorn af blómasafanum eða til að leyfa öðrum flugum að rannsaka frjókornin á löppum hennar. Flugurnar hafa þar með stefnuna til að fljúga í, fjarlægðina í forðann, hverskonar forða á að finna og lykt eða bragð af forðanum. En þá er auðvitað hægt að segja að sólin er alltaf á hreyfingu og stefna hennar breytist stöðugt, en býflugurnar gera ráð fyrir því og laga dansinn að hreyfingu sólarinnar og tímanum sem tekur að fljúga heim í búið áður en að hún getur byrjað að dansa. Þetta sýnir glögglega að býflugurnar hafa gott tímaskyn. Þegar flugur hafa aðlagað sig dansi sem leiðir þær að einni sérstakri blómategund leitast þær eftir að vinna aðeins úr þessu blómi það sem þær eiga eftir ólifað. (Egill: ef blómgun lýkur á td engi þurfa þær að finna önnur blóm til að sækja til en halda sig bara að einni tegund blóma og er það mjög mikilvægt fyrir frjóvgun þeirrar blómategunda) . En það eru jú ekki nema nokkrir dagar.

Aðdáunarverðar skepnur
Það ætti að vera orðið öllum sem lesið hafa þessa ritgerð nokkuð ljóst hversu magnað samfélag býflugnanna er. Verkaskipting og öll samskipti flugnanna eru alveg til fyrirmyndar og með ólíkindum að þessar litlu skepnur séu jafn gáfaðar og þær eru. Það sem vekur líka athygli er það hversu duglegar þær eru og þá ekki síst þær býflugur sem lifa yfir sumartímann sem í rauninni vinna sig í hel því það er staðreynd að sumar-flugurnar lifa mun styttur en vetrarflugurnar. Það er líka mjög áhugavert hvernig drottningin getur stjórnað búi með mörg þúsund býflugum í án þess að neytt fari úrskeiðis. En hér með líkur þessari svona nokkuð ítarlegu kynningu á samfélagi býflugna en ég vona að mér hafi á einhvern hátt tekist að vekja einhvern áhuga lesenda með ritgerðinni sem gæti þá jafnvel leitt til fjölgunar býflugnaræktenda hér á landi.

17. nóvember 2005

Magnús Gísli Ingibergsson

Heimildaskrá

Draper’s Super Bee Apiaries, Inc. 2005. Royal Jelly.
Vefslóð: http://www.draperbee.com/info/royaljelly.htm.
Sótt 12. nóvember 2005.

Egill Rafn Sigurgeirsson. 2005, nóvember. Býflugur.
Vefslóð: http://frontpage.simnet.is/egillrs/byflugur_1.htm.
Sótt 4. nóvember 2005.

Egill Rafn Sigurgeirsson. 2005, nóvember. The Hive and The Honey bee.
Vefslóð: http://frontpage.simnet.is/egillrs/frodleikskorn%20um%20byflugur.htm.
Sótt 10. nóvember 2005.

Hooper, Ted. 1997. Guide to Bees and Honey. Marston House, Yeovil.

Lansing State Journal. 1997, júlí. How do bees make honey?
Vefslóð: http://www.pa.msu.edu/~sciencet/ask_st/073097.html.
Sótt 12. nóvember 2005.

Morse, Roger A. 1994. The New Complete Guide to Beekeeping. The Countryman Press, Vermont.

Stanek, V.J. 1974. Stóra skordýrabók Fjölva. Fjölvi, Reykjavík.

Vivian, John. 1986. Keeping Bees. Williamson Publishing, Vermont.

[1] Stanek, V.J. 1974:174-175
Heimsóknir:

Grein Vilmundar í bændablaðinu 2016 um Býflugur

Hér vantar fullt af myndum kemur kannski seinna

Býfluga getur heimsótt allt frá 50 og upp í nokkur þúsund blóm í einni og sömu söfnunarferðinni allt eftir því hvernig safnast.

Býflugnabúin í Elliðahvammi. Mynd VH.

Áætluð ársframleiðsla á hunangi í heiminum er 1,7 milljón tonn.

Drottning og þernur.

Fólk er mishrætt við býflugur. Þessi maður er ekki hræddari við býflugur en svo að hann spila fyrir þær á klarínett.

Hellarista frá Spáni sem sýnir hunangssöfnun.

Hunangi safnað úr búi.

Munstrið á klæðning Hörpuna í Reykjavík líkist að mörgu leiti munstri í býflugnabúi.

Hunang í geymsluhólfum í íslensku býflugnabúi.  Mynd SMH.

Um leið og býflugur safna sætuefninu úr blómum plantna sjá þær um frjóvgum þeirra.

Lirfur í eggi.

Innflutt býflugnabú.

Söfnun á villihunangi í Nepal.

Býflugur – Einstaklega Iðin Kvikindi

Pöddur Sem Oft Kallast Randaflugur, Býflugur, Hunangsflugur Og Geitungar, Hér Á Landi Eru Af Ætt Býflugna En Tilheyra Mismunandi Ættkvíslum. Býflugur Eru Ræktaðar Víða Um Heim Til Framleiðslu Á Hunangi.

Nokkur Ruglingur Er Í Greiningu Á Hunangs- Og Býflugum En Flestir Þekkja Geitunga Eða Vespur Strax Og Þær Birtast. Þrátt Fyrir Að Þekktar Séu Ríflega 20 Þúsund Tegundir Af Býflugum Í Heiminum Lifa Þær Ekki Villtar Hér Á Landi En Ræktun Þeirra Hefur Færst Í Aukana. Býflugur (Apis Mellifera) Í Ræktun Eru Stundum Kallaðar Hunangsbý Og Flokkast Í 29 Undirtegundir.

Hér Á Landi Finnast Fimm Tegundir Hunangsflugna (Bombus Sp.) Eða Humla, Móhumla (B. Jonellus), Garðhumla (B. Hortorum), Húshumla (B. Lucorum), Rauðhumla (B. Hypnorum) Og Ryðhumla (B. Pascuorum).

Móhumla Hefur Verið Hér Lengi En Hinar Tegundirnar Seinni Tíma Viðbót Við Fánu Landsins. Húshumla Sem Barst Til Landsins Um 1980 Vaknar Til Lífsins Skömmu Eftir Miðjan Apríl Og Því Yfirleitt Fyrsta Stóra Randaflugan Sem Við Sjáum Á Vorin. Fyrst Á Vorin Nærast Humlur Alfarið Á Frjókornum Og Hunangi Víðitegunda.

Fjórar Tegundir Geitunga Eða Vespa Hafa Fundist Hér Á Landi. Húsageitungur (Paravespula Germanica), Holugeitungur (P. Vulgaris), Roðageitungur (P. Rufa) Og Trjágeitungur (Dolichovespula Norwegica). Allt Eru Þetta Nýtilkomnar Tegundir En Fyrsti Geitungurinn Fannst Hér Á Landi Í Reykjavík Árið 1973. Það Var Húsageitungur.

Bolur Hunangs- Og Býflugna Er Bústinn En Geitungar Eru Mjóslegnari. Bolur Allar Randaflugur Hér Á Landi Er Loðinn Og Dökkur Með Gulum Eða Rauðum Rákum Og Greinileg Skil Eru Milli Fram Og Afturbols. Þær Hafa Stór Margskipt Augu, Fjóra Vængi Og Sex Loðnar Lappir. Sumar Tegundir Hafa Hvassan Stungubrodd Aftast Á Afturbolnum.

Áætluð Heimsframleiðsla 1,7 Milljón Tonn

Hunang Er Sú Afurð Býflugna Sem Flestir Þekkja Og Er Vinsælust. Býflugur Vinna Hunang Með Því Að Safna Sætuefni Úr Blómum Og Flytja Það Í Býflugnabúið Þar Sem Því Er Safnað Sem Forða. Allar Tegundir Býflugna Framleiða Hunang Sem Menn Hafa Nýt Sér Frá Ómunatíð En Aðeins Ein A. Mellifera Er Ræktuð Í Stórum Stíl.

Áætluð Framleiðsla Á Hunangi Í Heiminum Er Samkvæmt  Matvæla- Og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) 1,7 Milljón Tonn. Árið 2013 Var Framleiðslan I Kína 470 Þúsund Tonn, 90 Tonn Í Tyrklandi, 80 Tonn Í Argentínu, Og 70 Tonn Í Úkraínu Og Rússlandi.

Helsti Útflytjandi Hunangs Í Heiminum Hvað Magn Varðar Er Kína. Kína Er Einnig Í Fyrsta Sæti Hvað Varðar Útflutningsverðmæti Hunangs En Nýja Sjáland Í Öðru Sæti, Argentína Í Því Þriðja, Mexíkó Í Fjórða Sæti Og Þýskaland Því Fimmta.

Bandríkin Eru Aftur Á Móti Það Land Í Heiminum Sem Flytur Inn Mest Af Hunangi.

Tæpt Tonn Í Góðu Ári

Hér Á Landi Er Framleiðsla Á Hunangi Tæpt Tonn Í Þokkalegu Ári. Undanfarin Tvö Ár Hafa Verið Fremur Óhagstæð Í Býflugnarækt Og Framleiðslan Verið Talsvert Minni. Gott Bú, Hér Á Landi, Með 30 Til 40 Þúsund Flugum Á Í Góðu Ári Á Að Geta Gefið Milli 50 Og 60 Kíló Á Ári.

Samkvæmt Bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands Var Innflutningur Á Náttúrulegu Hunang Árið 2015 Rúm 142 Tonn.

Marg- Og Einblóma Hunang

Hunang Er Oftast Flokkað Eftir Blómunum Sem Sætuefnið Er Sótt Í. Sætuefnið Í Margblómahunangi Er Sótt Í Engi Eða Svæði Þar Sem Vaxa Margar Tegundir Blómjurta. Bragð Margblómahunangs Er Breytilegt Eftir Svæðum Og Hvað Blóm Vaxa Og Blómstra Á Hverjum Stað Á Hverjum Tíma.

Einblómahunang Verður Til Þegar Flugurnar Safna Sætuefninu Á Svæði Þar Sem Ein Blómstrandi Planta Ræður Ríkjum. Dæmi Um Þetta Eru Svæði Þar Sem Sólblóm, Lavendil Eða Bláber Eru Ræktuð Í Stórum Stíl. Þess Konar Hunang Ber Sterka Keim Og Oft Lit Plöntunar Sem Sætuefnið Er Úr.

Bývax Mikið Notað Í Snyrtivörur

Auk Hunangs Framleiða Býflugur Bývax Sem Þær Nota Sem Byggingarefni Í Búin En Það Er Einnig Notað Í Snyrtivörur, Matvæli Og Til Lyfjaframleiðslu Og Til Að Búa Til Kerti, Skóáburð Og Húsgagnaolíu. Indland Er Stærsti Framleiðandi Bývax Í Heiminum Tæp 25 Tonn Á Ári.

 

Iðnar þernur

Verkaskipting innan býflugnabúa er mikil og er staða flugnanna ákveðin af aldri þeirra. Drottningar þær eðla sig um 2 vikum eftir að þær klekjast og við allt að 20 drunta –þær geta lifað í allt að 8 árum og safna þannig sæði sem þær nota yfir sumarið. Eftir mökun verpa þær eggjum og frjóvga þau eftir þörfum.

Karlflugur klekjast úr ófrjóum eggjum og því með sama erfðamengi og drottningin. Helsta hlutverk þeirra er að fljúga milli búa og makast við drottningar. Kvenflugurnar, þernur og tilvonandi drottningar klekjast aftur á móti úr frjóvguðum eggjum. Þernurnar ná ekki kynþroska í búinu vegna lyktarefna sem drottingin gefur frá sér og kallast ferómon. Þernurnar sem að jafnaði lifa þrjátíu dag eru vinnudýr búsins. Þær stækka búin og þrífa og sjá um að safna blómasafa, framleiða hunang og fæða lirfurnar.

Býflugur eru einstaklega iðin kvikindi og sagt er að fluga í söfnunarleiðangri fljúgi á 20 til 25 kílómetrahraða í eins til átta metra hæð eftir veðri. Þær geta heimsótt allt frá 50 og upp í nokkur þúsund blóm í einni og sömu söfnunarferðinni allt eftir því hvernig safnast. Yfirleitt eru býflugur ekki utan búsins nema í hálfa til eina klukkustund.

Flókið samskiptakerfi

Býflugur hafa þróað með sér flókið samskiptakerfi sem byggir á efnum og lykt sem þær gefa frá sér. Samskiptin byggja einnig á hegðunarmunstri og eins konar dansi sem söfnunarþernur nota til að segja öðrum sér líkum hvar sæturík blómaengi sé að finna.

Því er stundum haldið fram að vegna byggingar sinnar og þyngdar sé það brot á náttúrulögmálum að býflugur skuli fljúga. ( þetta á fyrst og fremst við um humlur )Flugtækni býflugna byggir á annarri tækni en dýr með tvö vængi. Býflugur eru með fjóra stutta vængi sem þær blaka frekar í takt þyrluvængi og vængi fugla og gengur prýðilega að fljúga með þeim.

Býflugnabú

Bú ræktaðra býflugna eru oftar en ekki kassi sem hægt er að opna að ofan. Í kassanum eru vaxhólf með sexhyrndu munstri og sama munstur er að finna í búum villtra býflugna. Munstrið á klæðning Hörpuna í Reykjavík líkist að mörgu leiti munstri í býflugnabúi.

Hellaristur sýna menn safna hunangi

Áhöld eru uppi um hvort forverar alibýflugna, A. mellifera, séu upprunar í hitabelti Afríku eða í Suðaustur Asíu og frá hvorum heimshlutanum þær hafi dreifs um heiminn. Steingerðar minjar flugna af ættkvíslinni Apis hafa fundist í Evrópu og taldar vera um 34 miljóna ára gamlar.  (blómaplöntur komu fram fyrir um 200 miljónum ára og forverar býflugna þróuðust með þeim)

 

Talið er að áar okkar hafi fyrst safna hunangi sem fæðu úr búum villiflugna og til eru hellaristur í Afríku, Evrópu og Ástralíu sem sýna slíka söfnun. Elstu minjar um ræktun býflugna eru frá því um 5000 fyrir upphaf okkar tímatals en talið er að hún hafi hafist í frumstæðri mynd 15 þúsund árum fyrr. Fornleifarannsóknir á Krít og á Grikklandi hafa dregið fram í dagsbirtuna 3000 ára gamlar ofnar strákúpur og kúpur úr brenndum leir. Í Egyptalandi eru til 3,500 ára myndir sem sýna menn annast býkúpur. Kínverjar hófu snemma að rækta býflugur og gáfu út kennslubók um býflugnarækt nokkrum öldum á undan vesturlandabúum.

Fyrir nokkru fundust við fornleifauppgröft í Ísrael þrjátíu þriggja hæða og ríflega 3000 ára gamlar býkúpur. Talið er að um milljón býflugur hafi geta hafst við í kúpunum og framleitt um hálft tonn að hunangi á ári.

Aristóteles, sem var upp um 350 árum fyrir Krist, fjallaði um býflugur í einu af ritum sínum og rómverjar stunduðu umfangsmikla býflugnarækt á blómaskeið Rómarveldis.

Býflugflugnarækt hefur verið stunduð í Evrópu í að minnsta kosti þrjúþúsund ár en býflugna rækt barst vestur yfir Atlashafsála eftir að Kólumbus og kónar hans römbuðu á Suður Ameríku.

Talið er að fyrstu alibýflugurnar hafi verið fluttar til Norður-Ameríku 1622. Mormónar fluttu þær með sér yfir Klettafjöllin í Norður-Ameríku um miðja nítjándu öld og þær voru flutta sjóleiðis til Kaliforníu-fylkis um svipað leiti.

Hunang var helsta sætuefni manna áður en sykur kom til sögunnar.

Býflugur í skáldskap

Shakespeare vísar oft til býflugna í verkum sínum og notar hegðum þeirri til að lýsa kostum og löstum í samfélagi manna. Þegar Sherlock Holmes sest í helgan stein flytur hann til Sussex í Devon og leggur stund á býflugnarækt.

Býflugur eru viðfangsefni vinsællar teiknimyndar sem heitir Bee Movie.

Trú og goðsagnir

Samkvæmt grískum goðsögnum var það gyðjan Melissa sem kenndi mönnum að nýta sér hunang og til er gullnæla frá sjöttu öld fyrir Krist sem sýnir hana í býflugnalíki. Í Austurlöndum nær var býflugan talin veru tengiliðir við undirheima. Í guðatali Mayar í Suður-Ameríku er að finna guðinn Ah Musen Kab sem var nátengdur villtu býflugum.

Samkvæmt sköpunarsögu San-fólksins í Kalaharíeyðimörkini ætlaði býfluga að fljúga með engisprettu yfir stórt fljót sem aðskildi tvo heima. Býflugan þreyttist á fluginu og varð að skilja engisprettuna efir á blómi sem flaut í ánni miðri. Engisprettan drapst skömmu síðar en áður en býflugan yfirgaf hana sáði hún fræi í líkama hennar og upp af því fræi álaði fyrsti maðurinn.

Í egypskum goðsögum segir að býflugur hafi orðið til þegar tár guðsins Ra féllu í eyðimerkursandinn og gyðjan Kamadeva í hindúasið á boga sem gerður er úr býflugum.

Hunang gegnir veigamiklu hlutverki í helgihaldi margra trúarbragða og ákveðin uppsett hártíska kvenna minnir einna helst á býkúpu.

Býflugum í heiminum fækkar hratt

Fækkun villtra býflugna víða um heim undanfarin ár er alvarlegt áhyggjuefni þar sem þær sjá um frjóvgum stórs hluta blómstrandi plantna í heiminum og eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að aldinrækt og aldinframleiðslu. Býflugur eru einnig mikið notaðar til frjóvgunar í gróðurhúsum og fluttar inn frá Hollandi í sérstökum kössum í þeim tilgangi (bara humlur).

Nýjar rannsóknir benda til að ein af hverjum tíu býflugnategundum kunni deyja út á næstu árum. Áhuga- og fræðimenn um býflugur hafa sett fram ýmsar hugmyndir um hvers vegna býflugur drepast í tug og hundruðum miljónum saman án viðhlítandi skýringa. Sumir kenna loftslagsbreytingum um en aðrir óhóflegri notkun skordýraeiturs og aukins landbúnaðar.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur komið í ljós að sníkill sem leggst á innyfli blýflugna  (hér áttu líklega við varróa mítilinn en hann leggst á ungviðið (lirfurnar) og veiklar/veikir þær og þannig fjarar búið út) og veldur dauða þeirra er farinn að breiðast út með miklum hraða. Sníkillinn sem er uppruninn á Asíu gerir nú víðreist um heiminn og hefur meðal annars fundist í býflugum á Bretlandseyjum. Er kominn út um allan heim nem til Íslands og Álandseyja

Býflugur á Íslandi

Samkvæmt upplýsingum sem er að finna á byflugur.is eru ekki til neinar heimildir um býflugnarækt hér á landi fyrr en á tuttugustu öld.

Árið 1934 gat Þjóðvinafélagið út bókin Býflugur eftir Maurice Maeterlinck í íslenskri þýðingu. Tæpum fjórum áratugum seinna gaf Hið íslenska bókmenntafélag út aðra merkilega bók um býflugur sem heitir Bera bý þar sem Karl von Frisch, frumkvöðlunum í atferlisfræði dýr, segir frá rannsóknum sínum býflugum. Frisch var maðurinn sem áttaði sig á og greindi frá dansi býflugna sem orkar sem vegvísir á gjöful blómaengi

Samkvæmt byflugur.is voru flutt til landsins býflugnabú frá Noregi árin 1936 og 1938. Búin gáfu um 10 kíló af hunangi en flugurnar lifðu ekki veturna af. Árið 1951 flutti Melitta von Urbancic, frá Austurríki, inn bú frá Skotlandi og tvö næstu ár þar á eftir frá Noregi og hélt býflugur í Reykjavík í nokkur ár.

Melitta von Urbancic og Geir Gígja stofnuðu Býræktarfélag Íslands árið 1953. Árið 1960 var Melittu gert að drepa flugurnar sínar og fjarlægja búinn vegna óánægju nágranna.

Árin 1975 og 1976 flutti Olgeir Möller inn bú frá Danmörku en þau bú lifðu ekki veturna af.

Býflugnarækt í dag

Aldamóta árið 2000 stofnað nýtt félag um býflugnarækt á Íslandi og fékk það heitið Býflugnaræktendafélag Íslands. Egill Rafn Sigurgeirsson formaður félagsins segir að meðlimir félagsins séu um 120 og að um 100 sé virkir ræktendur. Meðlimir félagsins eru dreifðir um allt land en fæstir á austfjörðum og flestir á suðvesturhorninu.

„Í mjög grófum dráttum fer býflugnarækt þannig fram fólk fer á námskeið hjá félaginu og kaupir síðan bú í gegnum það. Félagið flytur inn bú frá Álandseyjum vegna þess að það er eina landið í heiminum sem er með sjúkdómalausar býflugur fyrir utan Ísland. Búin koma hingað í seinni hluta júní og eru sett í þar til gerðar kúpur eða kassa með römmum og vaxi og gefur flugunum fóður, sykur og frjódeigsfóður fyrstu vikurnar til að hjálpa þeim af stað. Ef allt fer vel og sumarið er gott geta byrjendur í býflugnarækt fengið allt að tólf kíló af hunangi úr einu slíku búi fyrsta árið.

Á haustin er flugunum í hverju búi gefið sykur, 20 til 30 kíló, sem er leystur upp í vatni og er vetrarforði þeirra í staðinn fyrir hunangið sem við tökum frá þeim. Síðan er beðið fram á vor og vonað að flugurnar lifi veturinn af.

Egill segir að gott skjól sé eitt það allra mikilvægasta til að býflugnarækt heppnist vel og að búin þurfi helst að vera staðsett í hitapolli.

Hafa samband