VETRUN

Haustuppskera /Undirbúningur Fyrir Vetur

 

Jæja nú er komið að haustuppskeru frá búunum okkar

Ég hef gert á eftirfarandi hátt undanfarinn 20 ár og sé ekki að það hafi eh áhrif á lifun búanna á vetrum.

 

Það er mikilvægt að gera þetta það snemma(ekki seinna en í lok ágúst) svo búin geti tekið niður allt það fóður (sykurvatn) sem þær þurfa fyrir veturinn.

 

Varðandi hunangstekju eru þó nokkrir þættir sem verður að hafa í hug

1 rammarnir eru ekki tilbúnir til töku fyrr en hólfin í þeim eru að minnstu lokuð á 2/3 hluta rammans þetta þýðir þá að hunangið er þroskað þ.e. að vatnsinnihald hunangsins er um 18% og því lítil hætta á að það gerji eftir að  því hefur verið slengt.

2 hunangsramma er best að slengja strax eftir að þeir hafa verið tekið frá búinu  eru  þá um 35°C heitir því mjúkt og auðvelt að slengja.

3 ef rammarnir eru ekki slengdir strax þarf að geyma þá á heitum og þurrum stað (t.d. innanhúss) því hunangið dregur í sig raka frá umhverfinu (hydrophil) og einnig lykt (s.s.s lykt af málningu )

 4 það má þó aldrei taka það mikið hunang frá búunum á sumrin að hætta geti orðið á því að búið svelti ef t.d. geri 2 vikna rigningu og flugurnar  geti  ekki sótt neinn nektar (blómasykur).

 

Fer í gegnum búin og tek alla ramma með hunangi frá þeim sem ekki er ungviði í – set í staðin ramma sem ég hef nýlega slengt helst ramma með sem mestu frjókorni í og set þá sem næst römmunum sem ég  skil eftir í búunum (sem næst ungviðinu).
Hef alltaf vetrað þær á 3-4 kössum Langstroth.

 

Það hefur sýnt sig að ef búið er nægjanlega stórt er mun betri lifun á búum sem vetruð eru á 3-4 kössum en á 2 kössum.

Það sem er þó allra mikilvægast er loftræsting búanna að vetri.

Það gerir ekkert til að slatti af flugunum sitji utaná (við flugopið) til að byrja með eftir lok hunangstekju.

 

Lítil bú verður að sameina á t.d. 2-3 kössum Langstroth.

Þið veljið þá betri drottninguna (sú sem er fædd síðar t.d. sama sumar-hefur verpt meira –gefið gæfari flugur ) og hafið hana í sínu búi á þeim stað sem búið hefur staðið (þröngvið þeim saman á 1-2 kassa) –takið búið sem ekki fær að halda sinni drottningu (fjarlægið hana ) setjið dagblað (1 síðu) á milli, stingið  nokkur göt á dagblaðið með penna og setjið drottningarlausa búið ofaná og fóðrun ofan á það –það verður að fóðra sameinaða búið strax til að forðast slagsmál.

Það verður síðan að fóðra öll bú strax og búið er að taka frá þeim hunangið (verið tilbúin með sykurlausnina)með lausn sem er 3 kg sykur hrært í 2 l af sjóðheitu vatni (ekki sjóða sykur og vatn saman), (gerir um 60% lausn) eða að þið kaupið Bifor 75 % lausn. Búið þarf í það minnsta 20 kg af sykri blandað vatni      (ca 13 l) eða í.þ.m. 2 fötur sykurblöndunar.

lítrar vatns        blandað með     kg. sykurs

1                                            1,5-

2                                            3-

3                                            4,5-

4                                            6-

6                                            9-

8                                          12-

10                                        15-

12                                        18-

14                                        21-

16                                        24-

18                                        27-

20                                        30-

 

 

 

l. af 60% lausn   gefur    kg sykur

1                                            0,8 kg

2                                            1,6 –

3                                            2,4 –

4                                            3,2 –

6                                            4,8 –

8                                            6,4 –

10                                           7,9 –

12                                           9,5 –

14                                         11,1 –

16                                         12,6 –

18                                         14,2 –

20                                         15,8-

 

 

Magn sykurs [kg] Magn sykurs í 60% lausn [l]
Sykur [kg] Vatn [l] Sykurlausn [l] Sykurlausn [l] Sykur [kg] Vatn [l]
1 0,7 1,3 1 0,8 0,5
2 1,3 2,5 2 1,6 1,1
3 2 3,8 3 2,4 1,6
4 2,7 5,1 4 3,2 2,1
5 3,4 6,4 5 3,9 2,6
6 4 7,6 6 4,7 3,2
8 5,4 10,2 8 6,3 4,2
10 6,7 12,7 10 7,9 5,3

Fóðrun fyrir veturinn.

Mikilvægt er að fóðra strax að lokinni  hunangstekju frá búunum-annar verða þær mjög órólegar og geta ráðist á minni bú og rænt forða þeirra og drepið drottninguna.

Einnig er mikilvægt að fóðra þær áður en kólna fer annars taka þær ekki sykurvatnið niður og geta ekki þurrkað það(með loftræstingu).

Ekki má verða tómt í fóðurtroginu(fötunum) því ef þær hafa ekki stöðugan aðgang hætta þær oft að taka fóðrið sérlega ef kólnar i veðri.

Það eru mjög misjafnar skoðanir á því hve mikið fóður þær þurfa –ég gef þeim alltaf 20 kg sykur blandað í vatni (síð upp á vatninu og blanda sykri í ) eða þar til þær hætta að taka fóður, aldrei ætti að gefa minna en 10 kg og helst ekki minna en 15 kg .

Það verður að hræra sykurlausnina þangað til allur sykur er uppleystur annars sest hann bara á botninn á fóðurtroginu engum til gagns.

Hellið kældri (volgri ) blöndunni varlega í trogið annars er hætta á að býflugur drukkni í rifunni og liggi þar rotnandi, þar til býflugnabóndinn fjarlægi trogið og þrífur.

Ef sykurlögurinn liggur lengi í troginu myndast oft sveppagróður bæði í leginum og á veggjum trogsins –við þessu er einfalt ráð –blandið 2 dl. borðedik í u.þ.b. 10 lítra sykurlagarins þá hverfur þetta vandamál- býflugurnar bæta örlítið af ediksýru  í hunangið einmitt til að það gerji ekki.

Ég hef gert þetta margoft og flugurnar ekki borið skaða af.

 

Varðandi föturnar sem hvolft er yfir búin er ekki eins nauðsynlegt að leysa upp allan sykurinn því lausnin rennur í gegnum botnfallið.

 

 

Þetta er okkar stóra vandamál þe að búin lifi af veturinn

Vetur

Hver er mesta hættan að vetri ?

 

 

1 Að búið svelti

2 Að búið kafni

3 Að raki myndist í búinu og mygla myndist

4 Að ró búsins raskist og trufli vetrarhvíld

5 Að mýs komist í búið

6 Að búið sé of lítið

 

1 Sultur. Mikilvægt er að gefa búunum nægilegt af sykurvatni fyrir veturinn og nægjanlega snemma svo flugurnar nái að nýta sér það. Ég hef alltaf gefið búunum um 20 kg sykurs blandað vatni (3 kg sykur á móti 2 l vatns)og hefur það leitt til að ég hef aldrei misst bú vegna svelts. Það er þó þekkt að bú sem eru of lítil séu það “köld” að þau geti ekki flutt sig til að ná í fóður á nálægum römmum og því drepist.

 

2 Köfnun. Snjó getur lagt yfir kúpurnar og hindrað aðflæði súrefnis, varast ber að staðsetja bú þar sem skefur í skafla en þó þannig að búin séu í skjóli frá næðingi. Hægt væri að leggja drenrör undir kúpurnar. Grænlendingar brenndu sig á þessu -það skóf yfir kúpurnar og þegar bloti kom seig snjórinn og þyngdin sprengdi kúpurnar. Einnig er sjálfsagt að hreinsa flugopið af og til svo dauðar flugur teppi það ekki ( sjá neðan ).

 

3 Raki. Mygla myndast mjög auðveldlega í raka. Samfélagið gefur frá sér raka við bruna sykurs(hunangs) einnig þéttist raki vegna hitamismunar inni í kúpunni. Flestar nútímakúpur eru með netbotn til að bæta loftflæðið og dregur þetta mikið úr þeirri hættum og þess vegna ber að passa að ekki sjói yfir búin ( sjá nánar útfært að að neðan ).

 

4 Truflun. Veldur því að búið verður stressað og kemst ekki í vetrarhvíld, safnast ekki í klasa og nær ekki að halda þeim hita sem þarf, eta meira fóður þurfa því að losa sig við hægðir inni í búinu sem veldur smithættu og deyr því af hreinum sóðaskap. Þekkt er að greinar sem slást í kúpur fyrir vindi hafi valdið þessu. Því ber að láta búið algerlega í friði veturlangt, nema til að hreinsa flugopið.

 

Mýs. Þekkt er að mýs geti valdið þeim usla að bú drepist. Mýsnar leita þangað í fæðuleit og einnig vegna hitans. Hagamýs eru líklega nægilega nettar til að komast inn um flugopið og einnig geta þær nagað gat á plastkúpurnar. Þó þetta hafi aldrei verið stórt vandamál ber að hafa þetta í huga þegar kúpunum er valinn staður. Þá má einnig gera sæti undir kúpurnar úr t.d. 3/4 galvaniseruðum rörum .

 

6 Lítið bú. Þetta er líklega alvarlegasta og algengasta ástæða þess að bú drepast á vetrum. Það er fyrst og fremst að búið nær ekki að halda þeim hita sem þarf (um 22°C) í miðjum klasanum. Ef búið á erfitt með að halda hita þá notar það meir a fóður, gefur þá frá sér meiri raka, getur lent í því að geta ekki fært sig á milli ramma (flyst eins og amaba) og getur þá soltið þegar fóður er uppurið þar sem klasinn situr.

 

 

Ari Seppälä er býræktandi í norður hluta Finnlands með um 2000 bú . Hann hefur í mörg ár vetrað öll lítil bú í jarðkjallara og hefur mest vetrað innanhús 400 bú. Hann telur það ekki skipta neinu máli hvort um er að ræða plast- eða trébú en hann heldur sínum búum á heilum Langstroth kassa ( við á ¾ ). Bú sem sitja á 2 eða færri römmum, vetrar hann ekki ( sitja á 3-4 römmu ¾ Langstroth ? ) hann segir þau of lítil til að eiga nokkurn séns. Búin sem hann er að vetra inni sitja á minnst 3-4 Langstroth (heilum) og vetrardauði er um 1-4%, mest vegna lélegra drottninga eða svelts. Hann setur búin inn þegar allt flug er hætt (hjá honum mánaðarmótin okt-nóv) og setur þau út þegar víðirinn blómstrar, um miðjan apríl hjá honum ( þe 4-6 mánuði inni ).  Hann er með lokaða botna ( ekki með neti ) og hefur flugopið að fullu opið sem er algert skilyrði ( þrátt fyrir okkar netbotna ). Hann getur þurft að flytja búin um 200 km en er með flugopið lokað á meðan, opnar lítillega sama kvöld og hann setur þau inn, síðan að fullu daginn eftir. Það er mjög mikilvægt að það sé alger myrkur í geymslunni og sæmileg loftræsting. Hitastig má ekki fara yfir 8°C og ef það fer í 10°C þá verða flugurnar mjög órólegar. Það er eðlilegt að eldri flugur komi út og finnist dauðar á gólfinu og hann sópar upp 5-10 dl af dauðum býflugum á vorin af gólfinu. Einnig segir hann að þó flugurnar skríði út fyrir búið ( sérlega strax eftir flutning ) skríði þær flestar inn aftur. Hann staflar 4 búum á hæðina og með einfaldri trétex plötu ( ca 9 mm þykka ) sem þaki. Það er ekkert mál að opna búin inni en notast þá við rautt ljós sem þær skynja ekki, til að athuga hvað þær sitja á mörgum römmum, hvort búið er rólegt, hafi nægt fóður ( ef ekki þá setja fóðurramma eða Apifonda ).

Fæ aðeins betri útlistingar á þessu á næstu  dögum .

Plastkassar þeir er við notum eru hugsaðir á þann hátt að minnst einangrun er í útveggjunum, þar á loftrakinn að þéttast og renna niður veggina niður á botn. Þakið á að vera það vel einangrandi að engin rakamyndun á að myndast þar. Þökin sem við notum virðast ekki vera nægjanleg þykk, þannig þéttist rakinn þar og dropar niður á vetrarklasann og vetrarfóðrið (hunangsrammana) sem veldur mikilli streitu fyrir býflugurnar. Annaðhvort er að búin verða ekki nægjanlega stór (fjölmenn) til að halda hitanum nægjanlega háum inni í kössunum eða veðurfar hér á landi er það erfitt að rakin safnast einnig undir þakið. Ég hef heyrt frá kollega okkar á Álandi að þetta virðist raunin á Álandi líka en  hann missir þó ekki bú á vetrum sem við gerum.

Þannig má segja að mikilvægast er fyrir okkur að koma í veg fyrir þessa rakamyndun undir þakinu.

Þetta má gera á ýmsan hátt

 

1 Að hætti Karls Karlssonar :

Sníða plötu úr masóniti sem passar ofaná búið og klæða hana með ca 1 cm listum sem verður þá einskonar loftr rými ofaná búinu. Í þessa plötu er sagað gat og listinn í einni gaflhlið er hafður opinn að hluta þannig fæst loftrás út undan þakplötunni sem sett er ofaná masonítið. Þakið er aðeins rýmra en kassinn og má því flytja þakið þannig að op myndist fyrir loftrás helst í þá átt sem vindur kemur síður úr því ekki viljum við að blási ofaní búið. Plastið fjarlægt. Sjá mynd.

 

 

 

 

 

2 Undir tómann kassa er heft td viskustykki, þetta kemur beint ofaná búið (rammana ekkert plast á milli )eða strigi á milli. Ofaní kassann er sett laust sag að uþb ¾ hluta kassans. Kassinn settur beint ofaná búið (plastið fjarlægt). Undir þakið ( á langhliðar kassans undir þakinu) eru settir listar sem lyfta því ca ½-1 cm þannig myndast loftrás í báðum göflunum.

 

 

 

3 Boruð göt að hætti Kristjönu sem sjá má hér að neðan.

4 Kassi smíðaður utanum búin að hætti Torbjörns sem sjá má her að neðan.

5 Vafinn er tjörupappír utanum búið til skjóls fyrir vindi, klippt gat fyrir flugopið.

6 Trétex plötur (2 st) sett ofná búið og þakinu lyft aðeins með listum ( u.þ.b. 1/2-1 cm.

Það má þó nefna að Björn á Núpum og Matthildur í Norðlingaholti hafa vetrað búin sín innanhúss án þess að hafa fjarlægt plasti ofaná og þeim hefur tekist best upp með vetrun hingað til.  Það hefur þó gengið betur með vetrun undanfarin ár og þar má þá telja til að flytja daggarmarkið fjær klasanum, bæta loftræstingu í búunum, fóðra með frjó/fitudeigi haust og vor.

 

 

Torbjörn(torbja4@online.no) sagði þann 12.September 2010 17:58:04
 Vetrun

Þrátt fyrir að búið sé að tyggja þetta margoft hér á þessum síðum, langar mig að skrifa nokkur orð um vetrun til upprifjunar þar sem þetta er erfiðasti hjallinn í býflugnarækt á okkar breiddargráðum. Í bókinni “The Hive and the Honey Bee” er að finna í kaflann, “For the beginner” , mjög góða samantekt sem maður verður að fylgja til að vetrun heppnist(bls 597). Skrifað af prófessor í fræðunum að nafni Alphonse Avitable.

1)Búin þurfa að hafa nægilegan styrk af flugum(20-30 000).
2)Nauðsynlegt að vernda búin fyrir roki.
3)Næginlega stóran vetrarforða sem klasinn hefur aðgang að.
4)Heilbrigð, frjó drottning.
5)Þurrt hjá flugunum í búinu.
6)Minnka flugopið til að mýs komist ekki inn og til að minnka vindkælingu á klasann.
7) Efra flugop sem má vera borað gat í efra kassann eða op undir toppplötunni sem tryggir loftræstingu í búinu og virkar sem flugop til vara ef  neðra flugop stíflast.

“Without diligent attention to these points, winter losses can be guaranteed”.

“Þegar býflugurnar brenna vetrarforða til að mynda hita myndast CO2 og vatnsgufa. Þessi úrgangsefni þurfa að komast í burtu svo að raki safnist ekki í búinu og tryggja verður hreint loft fyrir flugurnar.  Gat á framvegg efra kassans hjálpar en einnig er nauðsynlegt að nota raka-gegndræpt efni eins og td. hálm eða annað sambærilegt efni yfir efri kassan”.
(Samkvæmt þessu er frauðplast og plast óhentugt sem einangrun á veturnar þar sem það er loftþétt.)

Búin okkar (mín og Hjálmars) standa á skjólgóðum stað í Heiðmörk. Búið er að smíða ytri kassa úr krossviði sem hægt verður að nota sem býskýli næsta sumar með þvi að taka frontplötuna af. Búin standa á 2 kössum og verða fóðruð til að flugurnar hafi á bilinu 15-20 kg vetrarforða. Sem einangrun á toppinn er trétex plata með listum meðfram köntunum undir. Hér er líka að finna loftbil til að tryggja góða loftræstingu.

Haust

Að vetra býflugur

Fyrri hluti

Þetta er eitt allra mikilvægasta atriði býflugnaræktar, það er að undirbúa búið fyrir veturinn. Um sumarið hafa býflugur safnað vetrarforða (þetta eru einu skordýrin fyrir utan maurategundir, sem safna vetrarforða) og það er einmitt þessi forði sem er hunangstekja okkar býflugnabænda. Venjan er að farið sé í gegnum býflugnabúið í síðasta lagi í byrjun september eða eftir veðri. Þá eru teknir burtu allir rammar sem innihalda hunang en rammar sem innihalda mikið af frjókorni (oft marglitt, eða dökkt á litinn) og allir rammar sem innihalda ungviði eða egg eru skildir eftir. Líklega er skynsamlegast að hafa búin á 2 kössum Norskum (20 römmum)eða 2-3 kössum, ¾ Langstroth heldur en að þröngva þeim saman á einn 10 ramma kassa.

(Það borgar sig að sameina minni bú (sem eru léttari) og þá þarf að vernda “betri” (yngri/gæfari) drottninguna, því betra er að eiga 1 lifandi bú að vori en 2 dauð !!! Þá þarf að finna “verri” drottninguna og drepa hana og setja síðan búin (drottningarlausa búið ofan á ) saman með 1 síðu af dagblaði og muna að stinga nokkur göt á blaðið fyrst með penna . Mikilvægt er að fóðra búið strax eftir sameininguna.)

Strax og þetta hefur verið gert þá verður að fóðra býflugurnar og það er hægt að gera á ýmsan hátt en venjan er að gefa þeim sykurlausn, sem er blandað í sjóðandi heitt vatn, 2 lítrar á móti 3 kg af sykri (hræra upp allan sykurinn) og gefið annaðhvort í fötum með fullt af götum á eða með netopi, eða í fóðurtrog, sem hægt er að kaupa. Það er einnig hægt að smíða þessa fóðrara sjálfur úr timbri eða útbúa á annan hátt.
Það er mikilvægt að það sé sæmilega hlýtt í veðri , þegar fóðrað er, því annars sækja flugurnar sér ekki sykurvatnið og því getur samfélagið drepist úr svelti fyrr eða síðar. Ef maður er það seint úti að ekki hægt að fóðra búið, þá borgar sig að skilja eftir hunangsramma, þannig að búið með öllu sé a.m.k. 20 kg, til að vera öruggur um að þær séu með nægt fóður og fara síðan í búið snemma vors og setja til þurrsykur. Þó er sjálfsagt að reyna að láta þær taka eitthvað af sykurvatni niður, venjan er að gefa þeim um 20 kg af sykri blandað vatni þá þarf eðlilega að gefa þeim nokkrum sinnum meðan þær taka við.

Ef þið hafið ekki vetrað fyrir frost verður að skilja eftir minnst 10 ramma fulla af hunangi hjá búinu og líklega er best að koma þeim f á 2 -3 kössum.

Ég hef einnig séð að ef ekki næst að fóðra fyrir frost að þá hafa menn sett dagblaðssíðu ofaná rammana skilið eftir rifu td í öðrum gaflinum og hellt ofan á 15 kg af þurrsykri-passa bara að ekki renni niður í búið- úðað yfir smá vatni með úðabrúsa (til að “festa” sykurinn) sett tóman kassa yfir og einangrun og þak yfir. Þannig geta býfl. sleikt upp sykurinn og nota rakan sem myndast í búinu yfir veturinn til að leysa upp sykurinn.

Seinni hluti vetrunar

Þegar búið er hætt að taka sykurvatn er beðið eftir fyrsta frostkafla vetrar. Frost þarf að vera nokkra daga til að hægt sé að flytja búin.
Líklega er best að nota djúpa botna þ.e. eins og sumir norsku botnarnir eru þegar búið er að fjarlægja botnplötuna þá eru nokkrir cm niður á netið. Í öllu falli þarf að opna netbotninn svo næg loftun verði. Einnig er hægt að lyfta búinu af botninum sem það stendur á yfir á slíkan botn.
Ef þið eruð ekki með botna sem ekki bjóða upp á þann möguleika að auka rýmið undir búinu þá má smíða ramma sem settur er milli botns og kassans sem lyftir neðsta kassanum 3-5 cm .

Eða eins og Kristjana hefur gert
“Amerísk hjón, býflugnabændur sem voru gestir félagsins okkar árið 2006 (minnir mig ) sögðu að loftun búanna væri höfuð atriði.
Þau ráðlögðu að bora göt í efsta kassa á tvær gagnstæðar hliðar. Stærð gatanna er þannig að flugur geti skriðið um þau. Leggja striga utan yfir búið/kassann – þannig að hann nær niður fyrir götin – en hangir laus – þannig lokar hann ekki fyrir þau en dampurinn úr búinu þéttist í striganum- og flugurnar komast hindrunarlaust frá búinu um þessi göt.
Ég gerði þetta tímanleg og hafði korktappa í götunum fram að vetri að ég kippti þeim úr. Ég tók eftir því eins og hjónin höfðu sagt að flugurnar nota síðan þessi göt til að skríða út um ef aðal opið er orðið stíflað.
Ef það gerist þá kenndu þau okkur það ráð að nota t.d. járnherðatré til að hreinsa frá opinu innan frá. (þe úr neðra flugopinu)
Þetta gafst svo vel að ég hef ekki þurft að hanna neitt betra áhald – maður stingur s.s. bara öðrum “herða”endanum á járninu inn um opið og dregur til sín – þá mokast dauðu flugurnar út, þannig má hreinsa nægilegt svæði.
Ég hef ekki haft plötur í botninum á veturna – (kunni bara ekki á það) – en búin standa á brettum og ég hef sett einangrun – frauðplast- undir brettið sjálft.
Ég hef búið nosturslega um búin – með frauðplasti – utan um allar hliðar og þak -þó þannig að holrúm var að búinu sjálfu og frauðplastið náði aðeins niður að miðjum neðsta kassa.
En einnig hef ég alveg látið vera að skýla búin fyrir veturinn – Þann vetur fauk annað búið og lá opið að hluta í a.m.k. sólarhring. Ég rétti það við og taldi það dauðadæmt að sjálfsögðu – sem þó varð ekki raunin – flugurnar mættu sprækar til leiks þegar leið að vori – Þetta fannst mér afar athyglisvert. !!!!!”

Eins og við höfum oft rætt um að þá hafa ýmsar tilgátur verið uppi um það hvers vegna búin drepast og grunur minn er sá, að þetta sé þá fyrst og fremst vegna vindkælingar og rakamyndunar sem er  það mikil hér á vetrum, að búin ráði ekki við það. Líklegast ná búin ekki þeirri stærð að þola slíka veðráttu og þess vegna teljum við að það sé öruggast að geyma þau innanhúss yfir vetur, þ.e.a.s. í nóv-des, þegar búið ætti að vera komið í vetrarhvíldina, hefur þá safnast í klasa og hreyfir sig lítið fyrr en fer að vora, þá eru búin flutt , muna að sjá til þess að netop sé undir búinu, þannig að þær kafni ekki. Flytja búið innanhúss í helst sæmilega einangrað hús, þannig að hitasveiflur verði ekki miklar, þó sól skíni úti og sjá til þess að búin séu sett þannig að ekki komist að mýs/rottur. Hugsanlega er þá best setja búin upp á lárétt rör og setja t.d. götuð fötulok á rörin, þannig að mýs geti ekki gengið eftir rörunum inn að búunum. Þá er það best að hafa a.m.k. 2 rör sem liggja í einhverri hæð yfir gólfi, þannig að mýs nái ekki að hoppa upp né að geta stokkið niður á búin ofan frá.
Líklegt er að það sé óheppilegt að geyma bú inni t.d. í gámum eða þess háttar, því að það vill hitna verulega í gám sem ekki er einangraður þegar sólin gassar og er það óheppilegt fyrir búin þá verða flugurnar órólegar og vilja komast út. Einnig er mikilvægt að það sé góð loftræsting í rýminu sem notað er og hafa flugopið opið.

Ég hef einnig séð greinar frá norðurhluta Bandaríkjanna og Kanada, þar sem að menn hafa byggt kassa, utan um t.d. 4 bú. Búin er t.d. látin standa á brettum og utan um þetta allt saman er smíðaður kassi með loki, sem er lokaður neðan til, þannig að ekki kuli um búin neðanfrá, og síðan er þá loftrifa á tveimur hliðum, ofan til, ca 2-3 cm., þetta er smíðað úr einangrandi efni og mætti hugsa sér að einangrunarplötur, gætu dugað gegn stormum á Íslandi.

Ég vona að allir hafi geymslu, vel einangraða þar þarf að vera myrkur og góð loftræsting, hitastig má ekki fara yfir 8°C inni í geymslunni og ef hægt er að stjórna hita eru 2-4°C heppilegastar . Þetta þarf að vera frágengið eftir fyrstu frost.

Þau bú sem hafa lifað af hér vetur, hjá okkur, sem mér er kunnugt um, eru þá þau bú sem ég kom með haustið 1998 og geymdi inni í þéttu skógarkjarri í Heiðmörkinni, þar voru 3 bú geymd um vetur og 2 lifðu af og hjá Rúnari, hafa bú lifað 1 vetur á Stokkseyri, með skjólgirðingu (pallettum) í kring og einnig hafa bú lifað hjá honum í þéttu skógarkjarri uppi á Kjalarnesi, í nokkra vetur. Hjá Kristjönu hafa 1-2 bú lifað  veturna frá 06 bæði með og án skjóls hafa plummað sig vel. Hjá Matthildi hafa 1-2 bú lifað flesta vetur í hálf niðurgrafinni óeinangraðri geymslu  í fleiri ár. Björn hefur geymt sín bú inni í gamalli stórri hlöðu og lifðu 3 bú veturinn 08-09. Hann lokaði ekki flugopi þeirra. Hjá Þorsteini lifðu eh bú veturinn 09 en voru mjög smá um vorið.

Sem betur fer hefur lifun eftir vetri verið mun betri hjá okkur undanfarin ár (nú haust ´14) og um 80 % búa lifað af veturinn fram til 1 júní.

Eðlilegt er talið að eh hluti býfl. drepist um veturinn-flestar þeirra fljúga úr búinu við hentugt tækifæri til að koma í veg fyrir hættu á sjúkdómum inni í búinu.

Hér að neðan eru myndir af “botnfalli” eftir veturinn ´09-´10 -sem má telja nokkuð venjulegan fjölda dauðra bf en geta má að búið hæ megin var mun minna þegar ég vetraði það og var mjög lítið vorið ´10 – það braggaðist þó með hjálp. Þessi bú stóðu úti allan veturinn (sem var óvenju mildur) í parkúpu (pláss f 2 bú) á 10 römmum 1/1 og 10 r 3/4 Langstroth.

Hafa samband