Samantekt: Egill R. Sigurgeirsson
Bygging vaxkökunnar
Vaxkirtlar eru best þroskaðir og afkastamestir hjá 12-18 daga gömlum þernum. Vax kemur úr 8 kirtlunum sem óreglulegar flögur undan öftustu 4 kítín skjöldunum á afturbol býflugunnar. Það þarf 3,8 kg af hunangi til að framleiða 453 g af vaxi. Einnig neyta býflugur mikils magns af frjókornum við framleiðsluna. Býflugur sem taka þátt í að byggja vaxköku festa sig saman í n.k. krans þar sem bygging á að fara fram og eftir 24 klst byrja þær að byggja vaxkökuna. Þær sópa af sér vaxflögunum með aftasta fótaparinu og færa þær fram að munni þar sem þær tyggja /elta vaxið áður en það er notað til byggingar. Hundruð býflugna taka þátt í að byggja hvert hólf og hver býflugur er j.v. bara virk í 30 sek við byggingu. Kransinn sem býflugur safnast saman í hefur mikilvægt hlutverk til að forma vaxkökuna.
Uppeldi ungviðis.
Ungar býflugur byrja eldi ungviðis við 13 daga aldur þegar fóðurkirtlar þeirra hafa þroskast. Fóstruflugur byrja að kanna eggið strax eftir varp og skoða ungviðið reglulega allt fram að púpustiginu. Sumar þessara skoðana eru stuttar, 2-3 sek, en aðrar lengri, 10-20 sek. Við þessar skoðanir notar býflugur fálmara sína og ef býflugur er að bera fóður í ungviðið tekur slík heimsókn 1,5-2 mín. Í upphafi lirfu tímabilsins fær lirfan meira en hún getur torgað svo hún bókstaflega flýtur í fóðri. Eftir 3 dag lirfu tímabilsins klárar hún fóðrið um leið og hún fær. Ungviðið er heimsótt allt að 1300 sinnum á dag eða meira en 10 000 sinnum á 8 daga tímabili áður en hún púpast. Á síðasta sólahringi fyrir púpun er ungviðið heimsótt allt að 3000 sinnum. 2785 býflugur sinna hverri lirfu í samtals 10 klst 16 mín og 8 sek á lirfu tímabilinu.
Fæðuskipti.
Kallast trophallaxis, en þá ber býfluga annarri býflugu fæðu, þetta gerist bæði til annarra þerna, drunta og til drottningar. Algengast er þetta hjá yngstu þernunum þ.e. að þær beri fæði í aðrar býflugur og einnig frá 10-20 daga gömlum býflugur. Líklegast er að þessi samskipti hafi einnig e.h. samskiptalega þýðingu sérlega með dreifingu feromona til allra þerna búsins.
Varnar starfsemi.
Býflugur eiga sér marga „óvini“ sem flestir dragast að búinu vegna lyktar eða vegna alls þess ys og þys sem er fyrir framan flugopið. Fáar varðflugur eru í flugopinu þegar mikil hunangstekja er og búið látið óáreytt. Þernur frá öðru búi sem lenda „vitlaust“, hlaðnar nektar eða frjókorni ganga óáreittar inn í búið. Ef búið er truflað eða lítil hunangstekja er þá eru flestar flugur skoðaðar sem koma að flugopinu. Ef ránsflugur reyna að komast inn í búið eru þær hraktar á brott eða stungnar til dauða en broddurinn festist ekki í óvininum því hann kemst ekki inn í óvinabýflugu (eða önnur skordýr) nema á milli kítínskjaldanna en þar er mjúk himna sem ekki heldur broddinum þegar hann er dregin til baka. Býfluga í „varnarstöðu“ stendur á 2 öftustu fótapörunum, lyftir upp framfótunum, fálmararnir snúa fram og munnurinn er lokaður-tilbúinn til árásar. Ef hún verður fyrir meira áreitt breiðir hún út vængina og opnar munninn og jafnvel gefur frá sér viðvörunar suð (með vængjunum). Minna en 0,5% af býflugur í búi eru líklegar til að stinga og þær halda sig f.f. við flugopið. Varnar býflugur eru viðkvæmar fyrir titringi, lyktum, sjónrænni áreitni og dökkum lit. Sérlega er útöndunarloft ertandi, þá f.f. CO2 einnig lykt af hári og leðri. Býfluga sem ætlar að stinga flýgur á óvininn heldur sér fastri með krókum á iljunum og rekur stinginn eins djúpt og hún getur. Nýútskriðin býfluga getur ekki stungið, líklega er broddurinn enn of mjúkur til þess.
Það eru vissir þættir sem auka árásarhneigð búsins:
Árásarhneigð er þó fyrst og fremst arfbundin.
Hunangsrán er ein tegund fóðuröflunar þar sem bú rænir annað bú forða sínum. Gerist mun frekar ef skortur er á fóðri og þegar býræktandi skilur eftir opna kassa án loks þegar hann skoðar í búin. Þá er varnarháttum búsins raskað (þær verja f.f. flugopið). Þetta getur orðið mikið vandamál ef býræktandinn gætir sín ekki því svo mikill æsingur getur orðið að minni bú verða fyrir árás og missa allan forða sinn auk þess að drottningin er oft drepin í átökunum. Aldrei skal setja út opna kassa með hunangi í til að láta býflugur hreinsa rammana betra er að setja 3-5 kassa ofan á e.h. búið til þess. Býflugur í ránsleit fljúga fyrir framan flugopið í zik zak flugi og er það auðþekkjanlegt. Þetta er of vandamál þegar skal taka hunang frá búum á haustin og varast ber að hafa hunangsrammana aðgengilega fyrir býflugur og best er að hafa tóman kassa með botni og loki til að setja rammana í o gæta þess að býflugur komist í kassann.
Skátar (Leitarbýflugur).
5-20% býflugna sem fljúga út úr búinu eru stöðugt að leita að nýjum gjöfulum lendum og deila fundi sínum með býflugnadansinum er þær koma aftur í búið.
Söfnun.
Hver býfluga heldur sig venjulega innan viss svæðis við að safna nektar eða frjókornum,jafnvel bara í einum runna eða tré en mest er talið að þær haldi sig á um 3 hektara svæði. Tilraunir í eyðimörk sýndu að býflugur geta flogið 13,7 km frá búinu til að sækja nektar ef lítið annað er í boði. En sækja gjarnan á gjöful „mið“ 6,5 km frá búinu. Talið er að einungis 15% sóknarflugna safni bæði nektar og frjókorni, flestar safna bara öðru. Það eru óvirkar sóknarflugur í búinu sem virkjast bara ef mjög gjöful “mið” finnast og þannig getur 1/3 af búinu sótt stíft á það svæði. Sóknarfluga sem tekur “síðasta ” nektar frá blómi merkir blómið með efnamerki (feromoni) um það. Einnig eru rannsóknir sem sýna að blóm fær á sig annann lit ef nektar þess er uppurinn. Á þeim tíma sem tekur efnamerkið að hverfa nær blómið að mynda meiri nektar fyrir næstu sóknarflugu. Býflugur sem safna frá sama svæði virðast halda sig á svipuðum stað í búinu og jafnvel eyða þær nóttunni saman í klasa. Sterkt bú getur gefið af sér 300 kg af hunangi á ári við bestu aðstæður.
Flug.
Flughraði er frá 21-25 km/klst heim á leið fullhlaðnar en 11-29 km/klst á leiðinni á „miðin“. Býfluga verður að heimsækja u.þ.b. 1300 blóm til að fullhlaða sig og tekur það u.þ.b. 40 mín. Sóknarflugur fara að meðaltali um 10 ferðir á dag. Fullhlaðin kemur býflugur heim með um 70 mg af nektar og er það um 85% af eigin þyngd hennar en meðal byrði er um 30 mg. Oftast gefur hún nektarin til 2-3 heimavinnandi þerna. Tóm hólf hvetja til meiri söfnunar en fullir rammar hunangs letja. Þær fljúga ekki ef vindhraði fer yfir 24 km/klst = 6,7 km/sek að talið er (en ég hef séð þær fljúga í meiri vindi en svo). Þær lenda á móti vindi á blómin, líklega fylgja þær lykt blómanna.
Vatnssöfnun.
Vatn er notað til að þynna fóður sem ungviðið fær auk þess til að stjórna hitastiginu í búinu. Vatnssóknarflugur fara að meðaltali 50 ferðir á dag og eru allt að nokkur hundruð býflugur sem hafa þann starfa.
Söfnun troðkíttis (propolis).
Þær sækja trjákvoðu í „sár“ á trjám og í brumhnappa. Bíta af lítinn hluta og safna því í frjókörfuna á öftustu leggjum sínum. Býflugur sem sækja propolis gera ekkert annað. Trjákvoðan er elt af þernum inni í búinu í það blandað ýmis efni áður en það er tilbúið sem troðkítti.
Svermur.
Þetta er eðli býflugna til að viðhalda stofninum og til að nema ný landsvæði. Að meðaltali svermar hvert vilt bú ríflega 3 sinnum á fyrri hluta sumars. Grunnur svermtilhneigingar er einfaldur. Þegar stærð og þéttleiki (fjöldi býflugna) í búinu nær vissum stuðli (u.þ.b. 2,3 býflugum á rúmcentimeter) byrja þernur uppeldi drottningalirfa. Einnig spilar hér inní að feromon drottningar “þynnist” út vegna fjölda flugna, þegar þerna fær minna en 0,001 mg ýtir það undir svermtilhneigingu. Forleikurinn er að mikil aukning verður í varpi drottningar sem leiðir nokkrum vikum seinna til mjög mikillar fjölgunar í búinu og meirihluti býflugna eru ungar flugur. Venjulega verpir drottningin í fleiri en 6 drottningabolla. Það fækkar í hirð drottningar (þær sem næra hana) og hún er sett í megrun sem veldur því að eggjastokkar hennar minka umtalsvert og hún léttist til að geta flogið. Hinar ungu flugur hafa lítinn starfa vegna minnkaðs varps og fylla allt laust svæði innan kúpunnar og oft er mikið af flugum á botninum og hanga jafnvel í klasa fyrir utan flugopið. Viku fyrir sverm er drottningin rekin til innan búsins og býflugur bíta j.v. í fætur hennar til að halda henni á hreyfingu. Drottning getur á þessu tímabili farið að gefa frá sér hljóð. Leitarflugur dansa vagg-dans svo klukkutímum skiptir til að vísa á nýjan bústað hafi þær fundið slíkann. Svermurinn fer ekki út fyrr en fyrsta drottningarhólfinu hefur verið lokað ( á 9 degi frá varpi ). Við ákjósanlegt veður fer svermurinn út. Stuttu áður fylla býflugurnar sig af hunangi og fyllir hver sig af um 36 mg af hunangi (40 % af líkamsþunga). Nokkrar býflugur byrja að snarsnúast sem æsir fleiri til þess sama og úr verður hálfgert uppþot í búinu og býflugur leggja af stað í sverminn. Allt að 90% býflugna getur farið út og eru fjölmennastar á aldrinum 4-23 daga gamlar. Venjulega er stærð svermsins 10,000-20,000 býflugur. Svermurinn safnast venjulega saman stutt frá búinu í tré eða runna þar sem hann heldur til í styttri eða lengri tíma. Hann samanstendur af ytri þéttari skel um 3 býflugna lagi og innri lausari massa. Þessi skel ver meginhluta býflugnanna mót utanaðkomandi hættu og heldur klasanum saman.
Býflugur sem telja sig hafa fundið heppilegan bústað dansa vaggdans á yfirborði klasans og geta verið nokkrar sem benda á mismunandi bústaði. Mikilvægast í vali þeirra á nýjum bústaði er að hann sé varin gegn vindi. Þær velja heldur bústað úr tré og helst nokkuð frá móðurbúinu.
Því betri sem þessum leitarbýflugum finnst nýi bústaðurinn því líflegri eru þær í dansinum og aðrar býflugur fara að skoða nýja staðinn. Ef fleiri en einn staður ákjósanlegur getur svermurinn skipt sér og flogið í sitthvora áttina en verður þess fljótlega var og flýgur aftur á upprunastaðinn. Ef þær ná ekki sáttum eða finna engan stað geta þær sest að þar sem svermurinn lenti fyrst og byrjað að byggja vaxkökur.
Þegar býflugur ákveða hvert svermurinn á að fara byrja þær að snarsnúast og bora sig inn í sverminn og inní honum heyrist hávært suð, býflugur byrja hlaupa til og frá á yfirborði klasans og 5-10 býflugur taka flugið og hundruðir fylgja eftir og svermurinn leysist upp. Líklega eru u.þ.b. 100 býflugur sem leiða sverminn sem flýgur hægar á eftir en leiðara býflugur fljúga til baka og síðan snöggt í áttina sem svermurinn á að fara. Þegar leiðara býflugurnar koma á áfangastað byrja þeir þennan snarsnúningsdans við flugopið. Strax og þær eru komnar í nýja bústaðinn taka þær til við að byggja vaxkökur og drottningin byrjar varp.
Móðurbúið.
Í móðurbúinu klekst síðan nokkrum dögum seinn ný drottning og ef fleiri drottningarhólf eru í gangi getur hún farið út í seinni sverm eða hún bítur gat á hólfin og drepur drottningalirfuna í þeim með því að stinga þær. Hún flýgur síðan út í eðlunarflug og tekur til við að verpa.
Drottningarlausu bú
Drottning hefur róandi áhrif á búið og ef það á e.h. hátt verður drottningarlaust verður búið mjög órólegt og byrjar að vifta út lykt sinni og öll starfsemi truflast. Innan nokkurra klukkutíma byggja þær neyðarhólf, oftast fleiri en 6, úr klakhólfum þernanna í ungviðaklasanum og þessi sitja oft í miðjum römmunum. Þau eru byggð þannig að þau veita niður og lirfan flýtur í drottningarhunangi. Venjulega fjarlægja býflugurnar flest af þessum drottningarhólfum sjálfar áður en fyrsta klekst og nýklakta drottningin drepur síðan systur sínar áður en þær klekjast. Þegar ný drottning er í uppeldi hefst aftur eðlileg starfsemi búsins og hún klekst síðan og eðlar sig og búið heldur áfram sínu starfi. Ef við hugsum okkur að þessi nýja drottning farist á e.h. hátt er búið nú án möguleika að ala upp nýja drottningu því engar lirfur hafa möguleika á að verða að nýrri drottningu því þær eru nú of gamlar. Þetta veldur verulegri streitu í búinu og það verður árásarhneigðara. Þegar hamlandi áhrif feromóna drottningar er ekki til staðar byrja eggjastokkar margra þerna að stækka og einhverjar þeirra geta byrjað að verpa. Það sést auðveldlega á því að oft eru nokkur eggi í hverju klakhólfi og þau eru sjaldnast í botni hólfsins, frekar á hliðum þess því afturbolur þerna er styttri en drottningar. Stór hluti þessara eggja er fjarlægður af þernunum og eggin sem eftir verða eru ófrjó og verða því druntar en þar sem klakhólf þerna eru mun minni en druntahólfin skaga þær út frá rammanum þegar þau eru hjúpuð ( krippuungviði) og út skríða mun minni druntar en eðlilegt er. Venjulega gerist þetta ekki meðan óklakið ungviði er í búinu. Slíkt drottningarlaus bú minnkar hratt vegna eðlilegs líftíma hjá þernunum og líður síðan hratt að endalokum sínum.
Drottningin, eðlun.
Nýklakin drottning er mjög lífleg og snör í snúningum. Þernur virðast skipta sér lítið af henni nema ef þær aftra henni frá að drepa kynsystur sínar í öðrum drottningahólfum ef búið hugsar sér að sverma aftur. Ungdrottningar gefa oft frá sér hljóð með því að núa saman vængjum sínum, einnig gera óklaktar drottningar þetta og geta kallast á við systur sínar úr drottningahólfunum. Ef 2 drottningar klekjast samtímis og þernurnar hindra þær ekki þá lendir þeim saman og önnur þeirra drepst í þeim slagsmálum. Kynþroska nær hún á 5-6 dögum og er þá tilbúin að eðla sig. Þann dag sem hún fer í sitt fyrsta eðlunarflug sýna þernurnar henni mun meiri áhuga og hrekja hana út og öll starfsemi í búinu minnkar. Þegar hún gengur út um flugopið sjá þernurnar til þess að hún fari ekki inn aftur og fylking býflugum vifta með vængjum sínum lykt búsins (frá Nasonov kirtlinum) svo hún rati örugglega heim aftur. Talið er að hirð býflugna fari með henni í hvert flug þannig að allt búið tekur þátt í að hún eðli sig. Eðlunarflug á sér stað á góðviðrisdegi þegar hiti er 18°C eða hærri og flýgur drottningin út á nokkrum dögum til eðlunar en venjulega hafa allar eðlað sig innan 2 vikna ef veður leyfir. Drottningin finnur með lyktarskyni sínu s.k. söfnunarstað drunta sem getur legið í nokkurra kílómetra fjarlægð frá búinu. Það er hún sem leitar uppi druntana. Þar eðlar hún sig við nokkra drunta í hvert sinn og talið er að í heild frjóvgi hana 6-20druntar. Við eðlunina grípur drunturinn drottninguna og stingur lim sínum í leggöng hennar og sleppir haldi sínu og slitnar getnaðarlimur druntsins af og næsti druntur fjarlægir hann áður en hann stingur lim sínum inn. Eftir síðustu mökun flýgur drottningin heim í búið og þernurnar fjarlægja síðasta getnaðarliminn, leggöng drottningar eru nú full af sæði sem hún þrýstir upp í sæðisblöðruna með því að draga saman kviðvöðva sína. Sæðisblaðran getur rúmað 3-5 milljónir sæðisfruma og endast henni allt hennar líf. Um 3 dögum eftir að hún hefur lokið eðlun verpir hún fyrstu eggjunum. Hún kannar hvert klakhólf með því að stinga hausnum niður í það og notar þreifaranna til þess, ef hún er sátt þá stingur hún afturbolnum niður í klakhólfið og verpir egginu í botn þess þar sem það festist með límkenndu slími. Allt þetta ferli tekur um 12 sekúndur. Eftir að hafa verpt nokkrum eggjum hvílir drottningin sig og á meðan snurfusa og fæða hirðþernurnar hana. Í stóru búi verpa drottningar milli 1000-15000 eggjum á dag á og allt að 200 000 eggjum á ári. Heildarfjöldi eggja sem drottning getur verpt á ævi sinni er talin vera um 500 000. Varp geta hennar minnkar umtalsvert á 3 aldursári og því er ráðlegt fyrir býræktandann að skipta um drottningu 2 hvert ár. Eftir eðlunarflug fer drottningin aldrei úr búi nema við sverm.
Druntar.
Klekjast á 24 degi eftir að drottningin verpti egginu í drunta hólf. Þeir þroskast úr ófrjóvguðu eggi og þeirra eini tilgangur er að eðla sig við ungdrottningu. Hunangsframleiðsla í druntaríku búi minnkar ekki. Þeir verða kynþroska við 7-10 daga aldur og hefja æfingarflug 6-8 daga gamlir. Sem nýklaktir sjá þernurnar þeim fyrir fæði en eldri druntar sækja sér hunang sjálfir úr hunangshólfunum. Heildarfjöldi drunta er um 1500 á hásumri í stórum búum og sitja þeir gjarnan á ystu römmum í búinu. Stór bú framleiða fleiri drunta en lítil.
Söfnunarstaður.
Þeir safnast saman á vissum stöðum oftast innan 3 km frá búinu en menn hafa ekki getað fundið út hvað veldur vali þeirra á eðlunarstað. Þeir nota sama söfnunarstað ár frá ári. Á söfnunarstaðnum eru þeir á stöðugu flugi og bíða komu drottningar. Þegar drottning kemur á söfnunarstaðinn fljúga þeir á eftir henni í halarófu sem líkist halastjörnu. Þeir slást um að geta eðlað sig við hana. Við eðlun grípur hann um afturbol drottningar með öllum 6 fótapörum sínum og beygir afturbol sinn inn undir fæðingarop hennar. Ef drottningin er tilbúin opnar hún fæðingarop sitt og drunturinn úthverfir getnaðarlim sínum og stingur honum inn. Við sáðlátið lamast hann og sleppir drottningunni og kastast afturábak, við þetta slitnar getnaðarlimurinn frá með smelli og drunturinn fellur til jarðar og drepst stuttu síðar. Næsti druntur fjarlægir síðan getnaðarlim fyrirrennara síns. Úr einum drunti er hægt að ná 11 miljónum sæðisfruma en bara hluti þess nýtist við mökun.
Druntar eru velkomnir í öll bú á hásumri en mjög er misjafnt hve mikið þeir flækjast milli búa þó er talið að þeir geti flækst allt að 50 km frá sínu móðurbúi yfir sumarið með viðkomu í nokkrum búum á leiðinni. Á haustin er þeim síðan vísað burt með góðu eða illu og drepast.
Afríkublandaði stofninn í Ameríku (svk drápsflugur).
Hegðun og athafnarsemi þessa stofns er mjög frábrugðin þeim evrópska. Sögulega séð var Apis mellifera scutellata flutt til Brasilíu 1856 til að bæta þann evrópska þar sem þær síðarnefndu áttu erfitt uppdráttar í hitabeltisloftslaginu sem þar ríkir. Evrópski stofninn er aðlagaður tempruðu loftslagi með köldum vetrum. Talið er að afríska stofninum hafi fyrir slysni verið sleppt út úr búum sínum (f.f. druntum) og blönduðust evrópska stofninum gegnum eðlun og náðu fljótt fótfestu og fjölguðu sér hratt og örugglega. Þær dreifðust hratt um Suður Ameríku og hvar sem þær komu þurrkuðu þær út evrópska stofninn á 3 árum þar sem druntar þeirra eru mun kröftugri við að elta uppi drottningar í eðlunarflugi. Þær dreifðust að meðaltali um 320 km á hverju ári og náðu syðstu landsvæðum BNA 1990. Þær eru óþekkjanlegar frá evrópska stofninum í útliti og þekkjast f.f. á hegðun og atferli.
Ný bú ná upp fullri starfsemi mun hraðar, drottningar eru mun frjórri (verpir meir) og ungviðið þroskast fyrr eða þernur á 18-20 dögum. Sverm tímabilið er mun lengra og búin sverma mun oftar. Ný bú stækka mun hraðar og eru tilbúin að sverma á 2 mánuðum. Árleg 16 föld fjölgun hefur sést og fjöldi villtra sverma keppa hart við evrópsk bú sem eru á sama svæði. Þekkt er að svermar hafi ráðist inn í evrópsk bú, drepið drottninguna og tekið yfir búið með þeim flugum sem þar eru.
Varnar hegðun.
Hin mikla árásarhneigð þeirra er vel þekkt þó er hún mjög misjöfn. Búin eru mörg mjög auð ertanleg svo sem fyrir lykt og titringi og þúsundir býflugna ráðast til atlögu ef hættu steðjar að búinu og nálæg bú geta einnig ráðist til atlögu af þessum sökum. Á mjög stuttum tíma geta þær stungið fórnarlambið þúsundum stungna í alltað 400 m frá búinu. Þetta hefur gefið þeim viðurnefnið „killer bees“ enda hafa bæði menn og skepnur dáið af þessum sökum. Ef þær hafa byrjað árás linnir ekki árásum þeirra næstu klukkutímana.
Söfnun.
Hér eru þær líkar evrópsku stofnunum bæði hvað varðar hunangsframleiðslu og frjókornasöfnun. Þær eru einungis árásagjarnar þegar þær verja búið en ekki við söfnun í blómum.
Þær yfirgefa gjarnan bústaðin ef aðstæður henta þeim ekki s.s. lítill gróður í næsta nágreni eða blómgun hættir og ekkert kemur í staðinn einnig ef lítið er um vatn í næsta nágreni.
Eðlun
Druntar af þessum stofni virðast sterkari í samkeppninni um að eðla sig við drottningar og þess vegna hverfa evrópskir stofnar svo fljótt þar sem þær afrísku hafa tekið sér bólfestu.
Mótstaða gegn sjúkdómum
Þær virðast furðu ónæmar fyrir sjúkdómum sem herja á evrópsku stofnana s.s. varrroa- og loftsekkja mítilinn . Illkynja býflugnapest (american foulbrood) er svo til óþekkt hjá þessum stofni. Menn gera sér vonir um að hægt verði að nýta sér þessa eiginleika og blanda inn í aðra stofna.
Menn hafa þegar tekið sér þennan stofn til notkunar enda ekkert annað um að velja og náðst hefur að halda stofnum sem eru mun síðri til árása í venjulegri býrækt.þernum